Fara á efnissvæði
Frétt

Fjórar leiðir færar til að fjölga hjúkrunarfræðingum

Öldungadeild Fíh hélt fund um áform um lagasetningu um hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsmanna í starfi hjá ríkinu

Góðar og gagnlegar umræður voru á fundi Öldungadeildar Fíh um áform um lagasetningu um hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsmanna í starfi hjá ríkinu. Meðal þess sem fram kom voru fjórar leiðir sem eru færar til að fjölga hjúkrunarfræðingum.

Öldungadeildin átti frumkvæðið af fundinum sem haldinn var í Hringsal á Landspítala fimmtudaginn 17. nóvember 2022.

Áformin komu á óvart

Áformað er að bæta undanþáguákvæði á lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins í lög nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn sem myndi kveða á um að heimilt að ráða heilbrigðisstarfsmann sem náð hefur 70 ára aldri í þjónustu ríkisins við veitingu heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðisstofnunum ríkisins verði þá heimilt að ráða 70 ára heilbrigðisstarfsmenn allt til 75 ára aldurs. Unnið er nú að frumvarpinu í heilbrigðisráðuneytinu.

Áformin hafa komið mörgum á óvart og töldu margir að með þessu yrði hægt að skikka hjúkrunarfræðinga til að starfa til 75 ára aldurs, það stendur ekki til.

Staðan flóknari en einföld hausatalning

Sigríður Gunnarsdóttir, forstöðumaður Rannsókna og skráningaseturs hjá Krabbameinsfélaginu, áður framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala, fór yfir helstu staðreyndir þegar kemur að mönnun hjúkrunarfræðinga. Sigríður benti á að hjúkrunarfræðingum væri í raun að fjölga, staðan er hins vegar flóknari en einföld höfuðtalning þar sem hjúkrunarþyngd hefur aukist verulega. Þá blasir við að öldruðum einstaklingum, sem eru helstu skjólstæðingar heilbrigðiskerfisins, kemur til með að fjölga verulega á næstu árum og áratugum.

Fjórar leiðir færar

Það eru fjórar leiðir færar til að fjölga hjúkrunarfræðingum. Sú fyrsta er að útskrifa fleiri úr Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri. Einnig hefur það aukist mikið síðustu ár að hjúkrunarnemar starfi á spítalanum samhliða námi.

Önnur er að fá til starfa hjúkrunarfræðinga sem starfa utan heilbrigðiskerfisins. Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Fíh, nefndi dæmi um að tæplega 300 hjúkrunarfræðingar hefðu komið til starfa í Covid-faraldrinum í gegnum bakvarðasveitina. Sigríður benti á að hjúkrunarfræðingar hefðu vissulega val um hvar þeir störfuðu og væru eftirsóttur starfskraftur í samfélaginu, ein áskorunin væri hvernig hægt sé að halda þeim í starfi ofan á þá áskorun að laða þá að störfum í heilbrigðiskerfinu.

Þriðja leiðin er að fá erlenda hjúkrunarfræðinga til starfa, sú leið er stráð siðferðislegum álitamálum. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur hvatt ríkari þjóðir heims til að halda aftur af sér við að taka hjúkrunarfræðinga af öðrum þjóðum, skorturinn á heilbrigðisstarfsfólki er alþjóðlegur og æskilegast sé að hvert land útskrifi sína eigin hjúkrunarfræðinga. Sigríður tók fram að Landspítali hafi reynt sitt besta við að fylgja þessu og hlutfall erlendra hjúkrunarfræðinga sé ekki í takti við fjölgun innflytjenda. Á árunum 2011 til 2021 hefur hlutfall erlendra hjúkrunarfræðinga hækkað úr 4,1% í 6,9%.

Fjórða leiðin er sjálft umræðuefnið, það er að hjúkrunarfræðingar seinki starfslokum. Hlutfall hjúkrunarfræðinga 60 ára og eldri hefur hækkað úr 4% árið 2005 í 15% árið 2019. Guðbjörg fór yfir tölurnar. Alls eru nú 395 hjúkrunarfræðingar á aldrinum 71 ára til 75 ára, þar af eru 34 nú þegar starfandi, eða tæp 11%

Hugsanlega vilja margir starfa lengur

Í umsögn Fíh við áformin segir að tryggja þurfi að breytingarnar þurfi að vera gerðar í samræmi við gildandi kjarasamninga og megi ekki hafa áhrif á lífeyrisréttindi, breyta þurfi þá einnig lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða til að hægt verði að greiða áfram í lífeyrissjóð eftir sjötugt.

Miklar umræður sköpuðust í kjölfarið, stærsta spurningin var hver er raunveruleg skoðun hjúkrunarfræðinga 60 ára og eldri á þessum áformum. Bent var á að hugsanlega vilji margir hafa möguleikann á að starfa lengur, líkt og margir gera nú þegar, starfið er bæði skemmtilegt og gefandi, ekki má gera lítið úr félagslega hlutanum.

Starf hjúkrunarfræðings er oft líkamlega krefjandi, því skiptir það máli að viðkomandi fái starf og starfsaðstæður við hæfi. Skiptir það einnig máli hvort áformin séu gerð vegna neyðarástands í mönnun hjúkrunarfræðinga, ef svo, er brýnt að laga starfsumhverfið til að hjúkrunarfræðingar vilji yfirleitt starfa lengur en til sjötugs. Var það einnig nefnt að ef gerður er nýr ráðningasamningur við 70 ára aldur þurfi að tryggja að kjör hjúkrunarfræðinga haldist en verði ekki lakari eins og dæmi eru þegar um. Jafnvel þyrfti að setja sérstakt álag og aukið frelsi við vaktaskipan, sér í lagi þegar kemur að rauðum dögum.

Öldungadeild Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga telur frumvarpið vera jákvætt og að það geti gefið þeim sem vilja starfa við hjúkrun tækifæri sem vert er að skoða. Verði af þessari breytingu vill ÖFíh leggja áherslu á eftirfarandi:

  • Slík ákvörðun yrði ávallt einstaklingsbundin og háð vilja viðkomandi.
  • Laun og réttindi þeirra taki mið af reynslu og þekkingu viðkomandi en þeir lækki ekki í launum eins og raunin er í dag. Veikindaréttur verði ávallt til staðar.
  • Réttur þeirra til áframhaldandi ávinnslu lífeyris verði sérstaklega skoðuð og geti verði valkvæð.
  • Tekið verði tillit til þessa hóps í starfsskipulagi og vinnuumhverfi.
  • Löngu er tímabært að hækka lífeyrisaldur opinberra starfsmanna og ætti frumvarpið því ekki að vera bundið við heilbrigðisstarfsmenn eingöngu.

Fíh fagnar frumkvæði Öldungadeildar af því að halda þennan góða fund. Áformin hafa ekki verið lögð fyrir Alþingi en búið er að vinna úr þeim umsögnum sem bárust og er frumvarpið nú í vinnslu.