Fara á efnissvæði
Viðtal

Góður leiðtogi þarf að búa yfir mikilli færni í mannlegum samskiptum

Leiðtoginn: Ragnheiður Sjöfn Reynisdóttir. Viðtal úr 1.tbl Tímarits hjúkrunarfræðinga 2024.

Viðtal og myndir: Sigríður Elín Ásmundsóttir

Varst þú alltaf ákveðin í að verða hjúkrunarfræðingur?

Nei, ég get ekki sagt það. Ég er fædd og uppalin í Bolungarvík og eftir grunnskóla árið 2006 fór ég í VMA á Akureyri og lærði sjúkraliðann. Ég vissi í raun ekkert út í hvað ég var að fara á þeim tíma, hafði aldrei unnið við neitt sem náminu tengdist, auk þess var enginn heilbrigðismenntaður í minni fjölskyldu. Ég útskrifaðist sem sjúkraliði og stúdent árið 2009, flutti suður og fór að vinna sem sjúkraliði á Hrafnistu í Reykjavík.

Svo liðu árin, ég flutti í Neskaupstað, byrjaði að læra grunnskólakennarann árið 2011 en fann mig ekki í því námi. Ég var svo í fæðingarorlofi með mitt annað barn árið 2013 þegar ég ákvað óvænt að fara í hjúkrun. Það æxlaðist þannig að vinkona mín sem var búin að ákveða að sækja um fjarnám í hjúkrunarfræði hvatti mig til að sækja um líka. Ég ákvað að skella mér, komst í gegnum klásus og útskrifaðist frá HA árið 2017. Það er gaman að segja frá því að BS-ritgerðin mín fjallaði um móttöku og meðferð heilablóðsfallssjúklinga á landsbyggðinni í samanburði við sjúklinga á höfuðborgarsvæðinu. Það er því kannski ekki algjör tilviljun að ég er í þessu starfi í dag.

Hvert lá leiðin eftir útskrift?

Eftir útskrift byrjaði ég að starfa á réttar- og öryggisgeðdeildunum á Kleppi. Ég hafði tekið verknám þar og langaði að starfa á þessum deildum. Mér líkaði starfið mjög vel og starfsandinn var góður. Ég hætti samt haustið 2018 því mig langaði að skerpa á klínískri hæfni minni og fara aftur í spítalahjúkrun ef við getum orðað það þannig. Það var annaðhvort að halda áfram í geðinu eða breyta til og taugahjúkrun hafði lengi blundað í mér. Ég hef unnið á sjúkrahúsum á landsbyggðinni, bæði í Neskaupstað og á Ísafirði, og þar kynntist bráðahjúkrun í fyrsta sinn því þangað kom má segja öll flóran af sjúklingum – dýrmæt reynsla.

Þú ákvaðst svo að fara í viðbótarnám í bráðahjúkrun, hvers vegna?

Ég ákvað að taka viðbótardiplóma í bráðahjúkrun árið 2019 en þetta var þá nýtt nám og eftir að hafa rætt við deildarstjórann minn á þeim tíma sá ég að þetta myndi nýtast mér í starfi á taugalækningadeildinni sem er bráðalegudeild. Ég kláraði námið 2021, hóf störf á bráðamóttökunni í apríl sama ár og var þar í tæpt ár, eða þar til að ég sótti um stöðu aðstoðardeildarstjóra á taugalækningadeildinni og fékk stöðuna í janúar 2022.

Nýttist reynslan á bráðamóttökunni þér á taugalækningadeildinni?

Mín skoðun er sú að þeim mun meiri reynslu sem þú færð, því meira eykur þú víðsýni þína og þekkingu og það nýtist mér vel í starfi mínu í dag.

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að sækja um deildarstjórastöðu?

Ég sótti um stöðu deildarstjóra með það í huga að það versta sem gæti gerst væri að fá nei en mér fannst þetta áhugavert starf og ég var til í þessa áskorun. Ég tek það fram að ég var mjög ánægð í mínu starfi sem aðstoðardeildarstjóri og var efins hvort ég ætti að sækja um því ég var ekki með mikla reynslu sem stjórnandi. Samstarfsfélagar mínir hvöttu mig hins vegar eindregið til að sækja um sem átti sinn þátt í því að ég ákvað að senda inn umsókn. Ég fékk starfið sem kom mér töluvert á óvart. Það var svo fyrir tæpu ári síðan, eða í mars á síðasta ári, sem ég tók við sem deildarstjóri á taugalækningadeild hér í Fossvogi. Starfið leggst mjög vel í mig og ég hlakka oftast til að mæta í vinnuna en starfið getur á köflum verið gríðarlega krefjandi og erfitt.

Stefnir þú á meira nám innan hjúkrunar?

Já, að sjálfsögðu. Ég var að byrja í meistaranámi í taugahjúkrun með áherslu á heilablóðfall.

Það er að hluta til Marianne Klinke að þakka en hún hefur í nokkur ár verið að hvetja mig til að fara í meistaranám. Í þessu námi mun ég gera rannsókn sem tengist hjúkrun sjúklinga eftir heilablóðfall.

Hvaða eiginleika þarf góður leiðtogi í hjúkrun að hafa?

Hann þarf að geta hlustað, vera þolinmóður og skynsamur í ákvarðanatöku þegar kemur að mannlegum samskiptum. Það skiptir líka miklu máli að geta lesið í allar aðstæður og að vanda sig í samskiptum. Á deildinni minni starfa um 60 manns og því er færni í mannlegum samskiptum gríðarlega mikilvægur eiginleiki til að vera góður leiðtogi.

Hverjar eru helstu áskoranir í starfi?

Að manna deildina er mín helsta áskorun, það er gríðarlega erfitt að fá hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða til starfa. Þeir vaxa víst ekki á trjánum.

Bjargráð í starfi?

Mér finnst nauðsynlegt að hafa einhvern sem ég get leitað til þegar á þarf að halda og fá aðra sýn á hlutina. Lausnamiðað starfsfólk með góða aðlögunarhæfni, jákvætt hugarfar og góða samskiptafærni. Eins finnst mér mikilvægt að eiga samtal við samstarfsfólk á jafningjagrunni.

Ertu meðvitað að vinna í því að efla leiðtogahæfileika þína til þess að verða betri yfirmaður?

Já, Landspítalinn býður upp á námskeið fyrir stjórnendur sem ég hef verið að sækja og finnst mjög hjálpleg varðandi stjórnun og samskipti. Þetta var flókið til að byrja með, ég hélt ég vissi nú eitthvað en þetta er algjör frumskógur en að sama skapi mikið ævintýri að læra að starfa í þessu umhverfi. Ég er alltaf að læra eitthvað nýtt í mínu starfi, engir tveir dagar eru eins sem mér finnst vera gefandi.

Hvernig sérðu að hjúkrun hér á landi muni þróast á næstu tíu árum?

Á minni deild er mikið af erlendu starfsfólki, það er í meirihluta og ég sé fyrir mér að það komi fleiri erlendir til starfa í heilbrigðiskerfinu í framtíðinni.

Hvernig leysum við mönnunarvandann?

Með því að hækka grunnlaunin. Störf hjúkrunarfræðinga eru oft mjög krefjandi og vinnutíminn óreglulegur. Það væri líka til bóta að bæta vinnuaðstæður hjúkrunarfræðinga.

Draumastarfið þitt?

Í dag er þetta draumastarfið mitt en ég veit ekkert hvað mig langar að gera eftir til dæmis fimm ár. Núna vil ég einbeita mér að því að byggja upp þessa deild og sinna mínu starfi sem deildarstjóri vel.

Hvað finnst þér vera það besta við þitt starf sem deildarstjóri á taugalækningadeild?

Vinnutíminn er kostur, ég hef alltaf verið í vaktavinnu þar til núna en ég verð að segja að samstarfsfólkið mitt á deildinni sé það besta við starfið.

Þarft þú sem yfirmaður að eyða miklum tíma skriffinsku og skipulag?

Það er alltaf nóg að gera í því en ég reyni að vera eins mikið frammi á deildinni og ég get, ég vil vera sýnileg og til staðar, mér finnst það mjög mikilvægt.

Hvernig myndir þú vilja bæta taugalækningadeild Landspítala?

Mín framtíðarsýn snýr að því að efla faglega þekkingu og færni, auka gæði þjónustunnar og hvetja starfsfólk til starfsþróunar. Einnig að auka gæða- og umbótavinnu á deildinni.

Hvernig gengur þér að samræma vinnu og einkalíf?

Það hefur gengið vel, ég er í dagvinnu og vinn ekki um helgar eða á rauðum dögum nema að ég þurfi að dekka vakt. Með fjögur börn á heimilinu held ég að lykilatriði sé að vera í dagvinnu en það er alveg hægt að finna leiðir til að samræma vaktavinnu og fjölskyldulíf, það krefst bara skipulags og ég hef líka prófað það.

Hvernig hlúir þú að þinni andlegu og líkamlegu heilsu?

Ég á góðan maka og fjölskyldu og vinkonur sem ég reyni að vera dugleg að hitta. Ég rækta sjálfa mig með því að fara í blak og sund og svo prjóna ég, mér finnst það góð leið til að slaka á og tæma hugann eftir erfiðan vinnudag.

Að lokum hvað er það besta við vera hjúkrunarfræðingur?

Að vera hjúkrunarfræðingur er fjölbreytt starf en það er þessi mannlegi þáttur, að vera til staðar fyrir aðra og styðja oft á tíðum á erfiðustu stundum fólks. Að hjúkra fólki aftur til heilsu.