Fara á efnissvæði
Frétt

Hæfni, þjálfun og viðhorf heilbrigðisstarfsfólks til starfa í hópslysum og náttúruhamförum samkvæmt viðbragðsáætlun

Ritrýnd grein, megindleg þversniðsrannsókn. Birt í 3. tbl. Tímarits hjúkrunarfræðinga 2023. doi: 10.33112/th.99.3.2.

Höfundar

Karólína Andrésdóttir. Heilbrigðisstofnun Austurlands.

Árún K. Sigurðardóttir. Heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri.

Hrafnhildur Lilja Jónsdóttir. Mennta- og vísindadeild á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Inngangur

Á undanförnum árum hefur tíðni veðurofsa, hópslysa og fjöldaskotárása aukist sem krefst þess að hjúkrunarfræðingar séu undirbúnir til að takast á við stórslys og hamfarir (Labrague o.fl., 2018; Loke o.fl., 2021). Þrátt fyrir það upplifa hjúkrunarfræðingar sig almennt illa undirbúna til þess að vinna við stórslys (Labrague o.fl., 2018).

Til að skilgreina færni og hlutverk hjúkrunarfræðinga við vinnu við stórslys eða hamfarir gaf International Council of Nurses (ICN) og World Health Organization (WHO) út hæfniviðmið fyrir hjúkrunarfræðinga (Al-Maaitah o.fl., 2019). Þar eru tiltekin átta svið sem leggja ber áherslu á við undirbúning hjúkrunarfræðinga til þessara starfa en þau eru meðal annars að þekkja til viðbragðsáætlana, stjórnun og samskipti (Loke o.fl., 2021). Í bandarískri rannsókn þar sem skoðað var mat hjúkrunarfræðinga (n=307) á eigin hæfni í vinnu við stórslys kom í ljós að 40% mátu hæfni sína ekki viðunandi og 45% svarenda töldu sig hafa litla eða enga þekkingu á viðbragðsáætlun sjúkrahússins. Hjúkrunarfræðingar af bráðamóttökunni mátu hæfni sína betri heldur en hjúkrunarfræðingar af öðrum deildum (Hodge o.fl., 2017). Hins vegar sýndi rannsókn frá Svíþjóð að hjúkrunarfræðingar af bráðamóttökum ofmátu eigin hæfni til að takast á við stórslys og hamfarir (Murphy o.fl., 2021). Íslenskir hjúkrunarfræðingar (n=52) sem störfuðu á landsbyggðinni og taka á móti og sinna bráðveikum mátu hæfni sína mesta við að stjórna aðstæðum. Þeir sem voru með viðbótarnám og lengri starfsreynslu mátu hæfni sína meiri til þess að taka á móti og sinna bráðveikum og slösuðum sjúklingum en hinir (Íris Kristjánsdóttir og Herdís Sveinsdóttir, 2018). Af rannsóknum hér að ofan má ráða að þjálfa þurfi fagfólk til starfa við stórslys og mikilvægt sé að leggja áherslu á að fagfólk kynni sér viðbragðsáætlun vinnustaðar síns.

Árangur af æfinga- og kennsluáætlun á afskekktari svæðum Taílands hjá fagfólki (n=71) þriggja heilsugæsla var metið þrisvar sinnum út frá hæfni í meðhöndlun bráðatilfella. Fyrst án þess að hljóta fræðslu og þjálfun, aftur strax að lokinni þjálfun og að lokum, átta vikum síðar. Marktæk betri hæfni varð átta vikum eftir þjálfunina heldur en fyrir og fagfólkið upplifði meira sjálfsöryggi í meðhöndlun bráðveikra og slasaðra (Stanley, o.fl. 2015).

Rannsókn var gerð á sjúkrahúsinu á Akureyri þar sem skoðað var hvað fagfólk vildi leggja áherslu á í þjálfun fyrir stórslys. Tekin voru rýnihópaviðtöl við hjúkrunarfræðinga og lækna (n=17). Þar vildu þátttakendur skilgreina betur hlutverk stjórnenda í stórslysum og þjálfa fagfólk í þau hlutverk. Stjórnandi telst til dæmis stjórnandi í greiningarsveit, afleysing deildarstjóra eða stjórnandi læknir. Þátttakendur töldu að styrk stjórnun væri mikilvægur þáttur í hópslysum og stjórnandinn þyrfti að hafa góða þekkingu á viðbragðsáætlun og skipulagi hennar (Hulda Ringsted og Árún K. Sigurðardóttir, 2014). Mikilvægt er að stjórnandi í teymi sé ekki sjálfur að vinna í tilfellinu með framkvæmd nauðsynlegra inngripa eða verka heldur standi til hliðar og hafi yfirsýn. Ef stjórnandi vann sjálfur í tilfellinu og missti yfirsýn, voru meiri líkur á að verk eða inngrip kæmu of seint inn í ferlið eða gleymdust (Tschan o.fl., 2019).

Í vinnu heilbrigðisstarfsfólks við stórslys er teymisvinna mikilvæg, en góð teymisvinna dregur úr mistökum og bætir öryggi og meðferð sjúklinga (Herzberg, 2018). Að æfa teymisvinnu eykur skilning heilbrigðisstarfsfólks á hlutverkum hvers og eins sem og færni og getu teymismeðlima (Ikram o.fl., 2017; Kim og Lee, 2020). Teymisvinna er talin mikilvægur þáttur í vinnu við stórslys og hamfarir en mikilvægt er að þjálfa teymisvinnu reglulega og tengja inn í dagleg störf fagfólks (Hulda Ringsted, 2012).

Við hópslys innan þjónustusvæðis HSA eru boðaðir á staðinn viðbragðsaðilar úr ýmsum áttum og er greiningarsveit HSA hluti af þeim. Eitt af hlutverkum hennar er að aðstoða við bráðaflokkun og bregðast við lífsógnandi áverkum á meðan beðið er eftir flutningi. Við bráðaflokkun er notað Smart-Tag-bráðaflokkunarkerfi en það er flæðirit sem forgangsraðar slösuðum út frá lífsmörkum og einkennum. Þeir sem flokkast grænir geta gengið, sjúklingar sem flokkast gulir geta ekki gengið en lífsmörk þeirra eru innan ákveðinna marka og rauðir eru með lífshættuleg lífsmörk og/eða breytingu á meðvitundarstigi (Heilbrigðisstofnun Austurlands, 2020-b). Mikilvægt er að æfa bráðaflokkun eins og rannsókn á bráðamóttöku í Katar sýndi fram á. Þátttakendur voru hjúkrunarfræðingar og læknar (n=100) sem var skipt í tvo hópa og fékk annar hópurinn (n=50) skriflegar leiðbeiningar um framkvæmd bráðaflokkunar og hinn fékk 60 mínútna skrifborðsæfingu í bráðaflokkun. Þeir sem fengu skrifborðsæfingu, bráðaflokkuðu 20 tilfelli á 5,4 mínútum og voru með 90% rétt flokkað en viðmiðunarhópurinn var með 70% rétt flokkað og var 8,2 mínútur að klára sama tilfellafjölda (Khan, 2018).

Vorið 2020 gaf Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) út viðbragðsáætlun eftir leiðbeiningum frá Almannavörnum. Viðbragðsáætlun er verkáætlun sem heilbrigðisstofnun vinnur eftir þegar sinna þarf meiri fjölda slasaðra eða sjúkra en dagleg starfsemi ræður við, oftast yfir stuttan tíma. Í viðbragðsáætlun er farið yfir móttökugetu stofnunarinnar, stjórnskipulag útskýrt, verkaskipting útlistuð og samskipta- og fjarskiptaleiðir settar upp. Almannavarnir snúast um skipulag og stjórnkerfi sem virkjast á hættustundu og hefur það markmið að koma í veg fyrir eða takmarka eftir því sem unnt er líkams- og/eða heilsutjón almennings (Reglugerð um efni og gerð viðbragðsáætlana; Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, e.d.-a, e.d.-b, e.d.-c). Í rannsókn sem gerð var á 13 heilbrigðisstofnunum kom í ljós að allar stofnanirnar höfðu skýra viðbragðsáætlun, en skortur var á þjálfun, kennslu og endurmati á hæfni fagfólks til að starfa við stórslys eða hamfarir (Bin Shalhoub o.fl., 2017).

Í desember árið 2020 féllu aurskriður á Seyðisfjarðarkaupstað og ollu miklum skemmdum á bænum án mannskaða. Við þennan atburð var óvissustig viðbragðsáætlunar HSA virkjað, sem er lægsta háskastigið af þremur og snúast aðgerðir á því stigi um aukið eftirlit. Annað háskastig viðbragðsáætlunar kallast hættustig þar sem reynt er að lágmarka afleiðingar yfirvofandi hættu og þriðja háskastigið er neyðarstig, þar hefur atburðurinn átt sér stað og verkefnin eru lífsbjargandi aðgerðir (Embætti landlæknis, 2017). Skriðuföllin á Seyðisfirði sýndu að nauðsynlegt var að tryggja viðeigandi viðbrögð við hópslysum eða öðrum hamförum samkvæmt viðbragðsáætlun HSA. Til þess að viðbragð heilbrigðisstofnunar sé viðunandi verður að vera til virk viðbragðsáætlun sem heilbrigðisstarfsmenn þekkja. Einnig verða þeir að hafa fengið fræðslu og þjálfun í þeim starfshlutverkum sem þeim er ætlað. Aðeins þannig er hægt að draga úr þeim skaða sem hamfarir eða hópslys geta valdið (Beyramijam o.fl., 2020; Lo o.fl., 2017).

Þjónustusvæði HSA er víðfeðmt en bandarísk samantekt sýndi að það er krefjandi verkefni fyrir viðbragðsaðila að viðhalda góðri heilbrigðisþjónustu þegar þjónustusvæðið er stórt og dreifbýlt. Bráðatilfelli eru almennt færri í dreifbýli og því getur verið erfitt að viðhalda þekkingu fagfólks. Því er mikilvægt að fagfólk fái þjálfun og fræðslu reglulega svo hæfni og færni sé viðhaldið (Viswanathan o.fl, 2012).

Á heilbrigðisstofnunum er vel þekkt að ráða til sín hjúkrunarfræðinga sem halda utan um skipulag, þjálfun, æfingar, eftirlit og eftirfylgni mála þar sem viðbragðsáætlun er virkjuð. Talið er að með þessu verði sjúkrahúsin betur í stakk búin til þess að taka á móti hópslysum samkvæmt viðbragðsáætlunum (Weeks, 2019). HSA hefur ráðið hjúkrunarfræðing í hlutastarf til að sinna þessum málum. Tilgangur þessarar rannsóknar var að skoða hæfni, þjálfun og viðhorf heilbrigðisstarfsfólks HSA til starfa í hópslysum eða náttúruhamförum bæði sem einstaklingar og í teymum. Einnig að meta viðhorf til þjálfunar og kennslu og skoða hversu vel undirbúna þau telja stofnunina og sig vera til þess að takast á við þess konar verkefni og vinna samkvæmt viðbragðsáætlun HSA.

Aðferð

Rannsóknin er megindleg þversniðsrannsókn.

Þátttakendur

Þýði rannsóknarinnar var hjúkrunarfræðingar, læknar og sjúkraliðar HSA sem störfuðu á heilsugæslum HSA og á sjúkrahúsinu í Neskaupstað. Þeir sem svöruðu könnuninni voru úrtak rannsóknarinnar. Heilbrigðisstarfsmenn HSA sem störfuðu á hjúkrunarheimilum HSA fengu ekki boð í rannsóknina þar sem hlutverk þeirra innan viðbragðsáætlunarinnar er viðaminna en hjá starfsfólki heilsugæsla og sjúkrahúsins. Hlutverk þeirra í viðbragðsáætluninni er að veita stuðning og aðstoða eftir þörfum og sneri rannsóknin eingöngu að lykilstarfsmönnum viðbragðsáætlunarinnar (Heilbrigðisstofnun Austurlands, 2020-b).

Mælitæki

Mælitæki rannsóknarinnar var íslenskur spurningalisti sem metur hlutverk, hæfni og þjálfun til starfa í stórslysum og hamförum (Hulda Ringsted, 2012). Leyfi var fengið frá höfundi til að nota spurningalistann og var hann staðfærður að starfsumhverfi HSA. Spurningalistinn var forprófaður af fimm hjúkrunarfræðingum frá þremur mismunandi heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni sem höfðu mismunandi þekkingu á viðbrögðum almannavarna og viðbragðsáætlun heilbrigðisstofnana og störfuðu á ólíkum sviðum. Breytingar sem gerðar voru á spurningalistanum eftir forprófun voru minniháttar. Spurningalistinn skiptist upp í fjóra efnisflokka auk sex bakgrunnsspurninga; a) viðbragðsáætlun og viðbragðsgeta (sex spurningar), þrjár með Likert-kvarða; b) starfshlutverk í viðbrögðum við stórslysi eða hamförum (sex spurningar) allar með Likert-kvarða; c) þekking og þjálfun (18 spurningar), níu með Likert-kvarða og d) teymisvinna (sex spurningar), fimm með Likert-kvarða. Sjá Likert-kvarða í töflum 2-6.

Við spurningar sem ekki voru með Likert-kvarða var svarmöguleikum raðað upp út frá því sem spurt var um hverju sinni. Dæmi er spurningin um hversu mörgum bráðveikum einstaklingum HSA geti tekið á móti, með svarmöguleikum; a). 1-2, b) 3-4, c) 5-6, d) 7-8, e) 9 eða fleiri.

Umhverfi og framkvæmd

Þjónustusvæði HSA er um 16.200 ferkílómetrar og er íbúafjöldi um 11 þúsund, starfsstöðvar eru 13 talsins og starfsmenn eru um 450. HSA rekur 11 heilsugæslur, stærstu heilsugæslurnar eru á Egilsstöðum, Reyðarfirði og í Neskaupstað og þar er einnig Umdæmissjúkrahús Austurlands. Aðrar heilsugæslur eru með minni starfsemi, styttri opnunartíma og færra starfsfólk. HSA rekur einnig fimm hjúkrunarheimili (Heilbrigðisstofnun Austurlands, 2020-a; Heilbrigðisstofnun Austurlands, e.d.).

Vefforritið SurveyMonkey var notað, það gerði þátttakendum kleift að svara spurningalistanum nafnlaust á netinu. Allir þátttakendur fengu í tölvupósti kynningarbréf rannsóknarinnar þar sem rannsóknin var kynnt og óskað eftir þátttöku þeirra sem og veftengil á spurningalistann. Netföng starfsmanna fengust hjá launaskrifstofu HSA og voru send netskeyti til 104 starfsmanna. Spurningalistinn var opnaður í byrjun nóvember 2021 og var opinn í fjórar vikur. Sendur var tölvupóstur vikulega til áminningar og einnig var rannsóknin auglýst inni á sameiginlegu spjallsvæði starfsmanna.

Gagnagreining

Við gagnavinnslu var farið yfir bakgrunnsupplýsingar og breytingar gerðar þannig að hópaskipting yrði tiltölulega jöfn. Þannig voru allir læknar settir í einn hóp hvort sem þeir voru sérfræðilæknar, sérnámslæknar eða sérnámsgrunnlæknar. Ákveðið var að sameina starfsaldurinn í þrjá hópa úr fjórum og skipta aldurshópunum niður í tvo hópa í stað fjögurra. Einnig voru þátttakendur frá Vopnafirði settir í hóp með Egilsstöðum, Seyðisfirði og Borgarfirði eystri þar sem næsta heilbrigðisstofnun við Vopnafjörð er Egilsstaðir. Þátttakandinn frá Djúpavogi sameinaðist heilsugæslunni í Fjarðabyggð vegna sömu ástæðu og þeir sem skráðu sig í annað fylgdu Umdæmissjúkrahúsi Austurlands vegna þess að það er stærsta starfsstöð innan HSA.

Lýsandi tölfræði og ályktunartölfræði voru notaðar til að lýsa viðhorfum þátttakenda til einstakra spurninga. T-próf óháðra hópa var gert til að bera saman viðhorf eftir kyni og aldurshópum. Einhliða dreifigreining (ANVOA) með Tukey-eftiráprófi var notuð þegar áhrif annarra bakgrunnsbreyta á spurningarnar svo sem starfsaldurs, voru greind. Marktektarmörk voru sett við p<0,05.

Siðfræði

Vísindasiðanefnd mat rannsóknina ekki leyfisskylda en leyfi var fengið frá framkvæmdastjórn HSA fyrir rannsókninni. Litið var á svörun spurningalista sem upplýst samþykki.

Niðurstöður

Samtals fengu 104 einstaklingar spurningalistann og var svarhlutfallið um 64% (n=66). Sjá frekari bakgrunnsupplýsingar þátttakenda í töflu 1, en þar sést að hjúkrunarfræðingar voru um 49% þátttakenda.

Spurt var hversu mörgum alvarlega slösuðum eða alvarlega veikum einstaklingum HSA gæti í heild tekið við í einu og svöruðu um 58% að getan væri einn til fjórir einstaklingar. Móttökugetu HSA töldu um 62% lækna vera einn til tveir einstaklingar en um 60% hjúkrunarfræðinga og 47% sjúkraliða telja móttökugetuna vera einn til fjórir alvarlega slasaðir eða alvaralega veikir einstaklingar. Þeir sem höfðu 0-5 ára starfsaldur töldu HSA geta tekið á móti fleirum heldur en þeir sem höfðu hærri starfsaldur (p=0,046).

Aðeins 29% þátttakenda höfðu verið við störf þegar viðbragðsáætlun HSA var virkjuð. Starfsmenn með meira en 15 ára starfsaldur voru líklegri til þess að hafa verið við störf við virkjun viðbragðsáætlunar (p=0,010). Meirihluti þátttakenda (um 71%) höfðu aldrei unnið eftir viðbragðsáætluninni.

Spurt var um hversu vel fagfólk hafði kynnt sér innihald viðbragðsáætlunar HSA. Í ljós kom að rúmlega 35% höfðu ekkert skoðað hana, um 22% vissu hvar hún var en ekki skoðað hana, 22% höfðu flett henni lauslega, 17% höfðu lesið það sem átti við þeirra starfseiningu og aðeins um 5% höfðu lesið hana alla. Starfsfólk með 0-5 ára starfsreynslu hafði minna kynnt sér viðbragðsáætlunina heldur en þeir sem höfðu meiri starfsreynslu (p=0,008).

Tafla 2 sýnir skoðun þátttakenda á gagnsemi viðbragðsáætlunar og að flestir töldu hana vera gagnlega eða mjög gagnlega fyrir starfsemi HSA, fyrir starfsstöðvar HSA og sitt starfshlutverk. Í töflu 3 kemur fram að 29% af þátttakendum sögðust þekkja starfshlutverk sitt við stórslys eða hamfarir vel/mjög vel en 39% þátttakenda þekktu hlutverk sín illa/mjög illa. Þá mátu 53% svarenda hæfni sína góða/mjög góða til þess að takast á við starfshlutverk sitt í stórslysum og hamförum. Læknar þekktu starfshlutverk sitt marktækt betur heldur en hjúkrunarfræðingar (p=0,016). Hins vegar höfðu 58% svarenda aldrei tekið þátt í neinni hópslysaæfingu á HSA þar sem viðbragðsáætlunin var virkjuð.

Tafla 4 sýnir svör við spurningum um þekkingu og þjálfun í stórslysa- og hamfaraviðbúnaði. Þar kemur fram að 64% eru frekar ósammála/mjög ósammála því að þeir fái nægjanlega þjálfun í stórslysa- og hamfaraviðbúnaði á sínum vinnustað. Stærsti hluti svarenda hafði aldrei fengið neinskonar kennslu eða þjálfun í stórslysa- eða hamfaraviðbúnaði eða 43%. En 25% svarenda sögðu það vera meira en fimm ár síðan kennsla fór síðast fram. Læknar höfðu oftar fengið þjálfun og fræðslu í stórslysaog hamfaraviðbúnaði heldur en sjúkraliðar (p=0,041). Ekki var marktækur munur milli hjúkrunarfræðinga og annarra faghópa. Þegar spurt var hverskonar kennslu eða þjálfun fagfólk fékk seinast voru flestir sem svöruðu stórslysaæfingu, eða um 37%. Næststærsti hópurinn fékk seinast kennslu sem hluta af grunnnámi sínu.

Þegar kannað var hversu oft fagfólk myndi vilja fá kennslu eða þjálfun í stórslysa- og hamfaraviðbúnaði vildu flestir fá kennslu/ þjálfun árlega eða 43%. Næstflestir svöruðu á tveggja ára fresti, eða 35%. Þátttakendur voru beðnir um að haka við það kennslu- eða þjálfunarform sem þeir óskuðu einna helst eftir og fékk hópslysaæfing í samvinnu við aðra viðbragðsaðila flest atkvæði. Síðan komu verkþáttaæfingar, hópslysaæfingar innan HSA og endurlífgunaræfingar. Fyrirlestrar og skrifborðsæfingar fengu fá atkvæði og það var enginn áhugi á sjálfsnámi og lestri bæklinga. Þátttakendur voru spurðir hversu mörg háskastig væru í viðbragðsáætlun HSA og svaraði 41% rétt að háskastigin væru þrjú.

Það var mikilvægast fyrir þátttakendur að fá kennslu og þjálfun í forgangsflokkun og áverkamati en fæstir höfðu áhuga á að fá fræðslu um almannavarnakerfið eða þjálfa hæfni í stjórnun. Þátttakendur með 15 ára eða lengri starfsaldur treystu sér betur til þess að starfa með greiningarsveit HSA (p=0,012) og þekking þeirra á búnaði greiningarsveitarinnar var einnig betri (p=0,035). Sjúkraliðar þekktu Smart-Tag bráðaflokkunarkerfið minna heldur en læknar og hjúkrunarfræðingar (p=0,018) (tafla 5).

Tafla 6 sýnir svör þátttakenda við teymisvinnu og þar sést að þeir álíta teymisvinnu mikilvæga, það sé mikilvægt að þjálfa teymisvinnu og það geti fækkað mistökum í starfi. Þegar þátttakendur voru spurðir hvað þeir teldu vera mikilvægustu atriðin í teymisvinnu fengu samskipti og samvinna mesta svörun. Næst á eftir kom stjórnun og svo frumkvæði. Læknar töldu þverfaglega teymisvinnu betri á sínum vinnustað heldur en sjúkraliðar (p=0,022), en ekki kom í ljós munur milli hjúkrunarfræðinga og annarra faghópa.

Kannað var hvaða starfsstöðvar þátttakendur teldu að gegndu lykilhlutverki í viðbragðsáætlun HSA og fékk heilsugæslan og sjúkrahúsið í Neskaupstað flest atkvæði. Næst á eftir var heilsugæslan á Egilsstöðum og þar á eftir heilsugæslan á Reyðarfirði.

Umræða

Rannsóknin veitir nýja og mikilvæga þekkingu um hæfni, viðhorf og þekkingu heilbrigðisstarfsmanna á Austurlandi til starfa í hópslysum og hamförum. Niðurstöðurnar sýndu að meirihluti þátttakenda hafði ekki kynnt sér innihald viðbragðsáætlunarinnar, 43% höfðu aldrei fengið þjálfun eða kennslu í stórslysa- og hamfaraviðbúnaði og meirihlutinn taldi nægileg tækifæri til þjálfunar ekki hafa verið til staðar. Þekking fagfólks á búnaði greiningarsveitarinnar og verkferlum eins og Smart-Tag bráðaflokkunarkerfinu og uppbyggingu á almannavarnakerfi Íslands var yfir heildina léleg og gátu 47% þátttakenda ekki svarað með vissu hvort að þeir treystu sér til að starfa í greiningarsveit. Þó mátu 53% þátttakenda sig hæfa til þess að vinna við stórslys eða hamfarir. Því má spyrja hvort fagfólkið hér sé að ofmeta hæfni sína, samanber rannsókn þar sem hjúkrunarfræðingar á bráðamóttökum ofmátu hæfni sína til vinnu við hamfarir og stórslys (Murphy o.fl., 2021). Þessu til viðbótar taldi um helmingur þátttakenda að þeir hefðu nægilega þekkingu og þjálfun til að leysa af hendi þau verkefni sem koma í kjölfar stórslysa og hamfara, þó flestir segjast ekki fá næga þjálfun. Mikilvægt er að þjálfa viðbrögð við stórslysi en Stanley, o.fl. (2015) fundu að átta vikum eftir fræðslu og kennslu um meðhöndlun bráðveikra og slasaðra, hélst hæfni og færni heilbrigðisstarfsfólksins betri en fyrir kennsluna. Út frá þessu má álykta að heilbrigðisstarfsfólk HSA gæti náð upp viðeigandi þekkingu og hæfni til að starfa í stórslysum og hamförum ef það fengi fræðslu og kennslu við hæfi.

Hér þekkti aðeins um þriðjungur fagfólksins starfshlutverkin sín vel innan viðbragðsáætlunar HSA, þrátt fyrir að þau séu vel útlistuð í texta viðbragðsáætlunar.

Ekki er nóg að setja fram vandaða viðbragðsáætlun eins og HSA hefur gert en þessi rannsókn sýndi að mikið rými er til endurbóta í fræðslu og kennslu í hamfaraviðbúnaði. Samræmist það rannsókn frá Sádi-Arabíu um að þrátt fyrir skýra viðbragðsáætlanir hjá heilbrigðisstofnunum var skortur á eftirfylgni þeirra (Bin Shalhoub o.fl., 2017). En niðurstöður þessarar rannsóknar voru einnig að þátttakendur óskuðu eftir reglulegri þjálfun og fræðslu. Staðfesti rannsókn Hollister o.fl. frá árinu 2021 það einnig en þar kom fram að æfingar sem eru minni í sniðum en haldnar oftar en stærri hópslysaæfingar skila árangri í að viðhalda þekkingu og hæfni heilbrigðisstarfsfólks. Einnig hefur komið fram að heilbrigðisstarfsmenn sem fengu skrifborðsæfingu bráðaflokkuðu réttar og hraðar en hinir sem fengu einungis skriflegar leiðbeiningar (Khan, 2018).

Samkvæmt niðurstöðunum áleit fagfólk að teymisvinna væri mikilvæg og yfirgnæfandi meirihluti var sammála um að mikilvægt væri að þjálfa teymisvinnu þar sem það telur að teymisvinna geti dregið úr mistökum og aukið öryggi sjúklinga. Rannsókn frá Líbanon staðfesti að það að gefa heilbrigðisstarfsfólki tækifæri til að æfa teymisvinnu með hermikennslu skilaði sér í aukinni klínískri færni og betri samskiptum (Sharara-Chami o.fl., 2020). Þar sagði meirihluti þátttakenda að þverfagleg teymisvinna á sinni starfseiningu væri góð/mjög góð. Eitt af því sem skilgreinir gott teymi er að teymismeðlimir þekkja hver annan sem leiðir til betri samskipta og gæði þjónustunnar verða betri (Rogers og Hampson, 2020). Samkvæmt þessu má álykta að þar sem fjöldi starfsmanna HSA á hverri starfsstöð er ekki mikill, þekkja þeir samstarfsfélaga sína tiltölulega vel sem getur skilað sér í góðri teymisvinnu.

Hér kom fram að fagfólk HSA taldi ekki mikilvægt að þjálfa stjórnun í viðbragði við stórslysi eða hamförum. Það er á skjön við niðurstöður Huldu Ringsted (2012), þar töldu þátttakendur mikilvægt að skilgreina betur hlutverk stjórnenda og að styrk og góð stjórnun væri einn af mikilvægari eiginleikum viðbragðsaðila og nauðsynlegt að æfa hana.

Fagfólk með meiri starfsaldur taldi að HSA gæti tekið á móti færri bráðveikum en hinir. Viðbragðsáætlun HSA tiltekur að Umdæmissjúkrahús Austurlands geti ekki lagt inn sjúklinga sem flokkast rauðir (alvarlega slasaðir) samkvæmt Smart-Tag bráðaflokkunarkerfinu, en að hægt sé að leggja inn allt að 10 gula sjúklinga. Sjúklingar flokkaðir grænir myndu fá meðhöndlun á heilsugæslum HSA (Heilbrigðisstofnun Austurlands, 2020-b). Við hópslys innan starfssvæðis HSA er því líklegt að alltaf þurfi að kalla til aðstoð annars staðar frá, frá öðrum heilbrigðisstofnunum, lögreglu, björgunarsveitum og sjúkraflutningum. Mikilvægi samstarfs milli þessa aðila er ítrekað af almannavörnum (Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, e.d.-a). Þar sem HSA getur ekki sinnt alvarlega slösuðum einstaklingum þarf að flytja þá í annan landsfjórðung annaðhvort með sjúkraflugvél eða þyrlu Landhelgisgæslunnar. Viðmiðunar- útkallstími sjúkraflugvélarinnar frá Akureyri eru 35 mínútur í hæsta forgangi (F1) og næsthæsta forgangi (F2) en það tekur flugvélina um 35 mínútur að fljúga til Egilsstaða frá Akureyri. Rannsókn um sjúkraflug á Íslandi sýndi að miðgildi viðbragðstíma og flutningstíma sjúkraflugvélarinnar var 84 mínútur og 150 mínútur (Björn Gunnarsson o.fl., 2022). Sjúkraþyrla Landhelgisgæslunnar er um eina klukkustund og 30 mínútur að fljúga til Egilsstaða frá Reykjavík (Landhelgisgæsla Íslands, e.d). Það er háð aðstæðum, staðsetningu og aðgengi að flutningstækjum hvar sjúklingum er sinnt hverju sinni. Í þessari rannsókn vildu þátttakendur ekki sérvelja fagfólk sem færi til starfa í greiningarsveit. Hins vegar sýna rannsóknir að hjúkrunarfræðingar af bráðamóttöku meta hæfni og þekkingu sína á viðbragðsáætlun sjúkrahússins meiri heldur en hjúkrunarfræðingar af öðrum deildum (Hodge, o.fl. 2017). Ef það væri skilgreind bráðamóttaka innan HSA yrði fagfólk bráðamóttöku þungamiðjan í viðbragði við hópslysi innan heilbrigðisstofnunarinnar eins og þekkt er á Selfossi (Heilbrigðisstofnun Suðurlands, 2017).

Helstu styrkleikar rannsóknarinnar er góð svörun og nálægð og skilningur fyrsta höfundar á viðfangsefninu. Helstu veikleikar eru að mælitækið hefur ekki verið notað áður á svæði HSA og einnig að þátttakendur eru tiltölulega fáir og því ekki hægt að heimfæra niðurstöður yfir á aðrar stofnanir en getur gefið ákveðnar vísbendingar. Áhugavert væri að gera samskonar rannsókn á fleiri heilbrigðisstofnunum á landinu.

Lokaorð

Þjálfun hjúkrunarfræðinga og annars fagfólks til starfa eftir viðbragðsáætlun við stórslys og hamfarir er mikilvæg, sérstaklega í dreifðum byggðum. Þar getur mikið mætt á fáum fagmönnum á meðan beðið er eftir aðstoð. Leggja ber áherslu á að hjúkrunarfræðingar og annað fagfólk þekki viðbragðsáætlun síns vinnustaðar og fái nauðsynlega þjálfun til að starfa eftir henni. Leggja þarf áherslu á að auka hæfni í bráðaflokkun, teymisvinnu og stjórnun aðstæðna við stórslys eða hamfarir. Heilbrigðisstarfsfólk sem starfar í dreifbýli verður að vera viðbúið hverju sem er og því er sérlega mikilvægt að þjálfa hæfni og færni þess til að vinna eftir viðbragðsáætlun því það getur verið langt í næstu aðstoð.

Þakkir

Höfundar þakka heilbrigðisstarfsfólki HSA fyrir þátttökuna og framkvæmdastjórn HSA fyrir samvinnuna.