Fara á efnissvæði
Viðtal

Inga Valgerður vill nýta doktorsverkefnið til að gera heimahjúkrun betri

Inga Valgerður Kristinsdóttir er hjúkrunarfræðingur úr Hafnarfirði sem lengi hefur starfað við heimahjúkrun. Hún er langt komin í doktorsnámi, segir námið opna á ýmis ný tækifæri en að það sé umfangsmeira en hún átti von á því hún sé sífellt að skoða nýja vinkla.

Viðtal: Þórunn Sigurðardóttir | Myndir: Úr einkasafni

Inga Valgerður er praktísk að eðlisfari, hún brennur fyrir heimahjúkrun og hyggst nýta niðurstöður rannsókna sinna í doktorsverkefninu til þess að gera heimahjúkrun á Íslandi betri. Eftir að hafa lokið BS-námi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1992 hóf Inga Valgerður störf á bráðamóttöku og síðar hjartadeild Landspítalans en eftir barnsburðarleyfi skipti hún um starfsvettvang. „Þegar ég var beðin um að taka að mér heimahjúkrun í Hafnarfirði man ég að ég hugsaði með mér að þessi starfsvettvangur væri nú líklega ekki fyrir mig, en það hentaði mér að vera bara í dagvinnu þar sem ég var með tvö lítil börn, ég væri nú ekki að fara að ráða mig fyrir lífstíð en hér er ég enn,“ segir hún og brosir.

Ætlaði sér ekki í frekara nám

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og Inga Valgerður er búin að vera viðloðandi heimahjúkrun alla tíð síðan. Hún var verkefnastjóri á Íslandi í evrópskri rannsókn, IBenC (Identifying best practices for care-dependent elderly by Benchmarking Costs and outcomes of Community Care), og notar gögn úr þeirri rannsókn í doktorsverkefnið sitt. „Það er í raun ástæðan fyrir því að ég fer í doktorsnám, það var svo mikið af gögnum og mér fannst ég þurfa að gera eitthvað við þetta fyrir Ísland.“ Inga kláraði meistaranám í heilsugæsluhjúkrun árið 2009 frá Háskóla Íslands og ætlaði sér þá ekki að fara í frekara nám. „Ég hugsaði; aldrei aftur skóli, aldrei. En það greinilega breyttist.“

Árið 2019 byrjaði Inga svo í doktorsnáminu og vinnur með gagnasafn þessarar rannsóknar. „Þetta eru gögn um skjólstæðinga heimahjúkrunar sem stóðust ýmis viðmið um inngöngu í rannsóknina, eins og að vera eldri en 65 ára og myndu ekki útskrifast úr heimahjúkrun næstu sex mánuði ásamt fleiri viðmiðum. Í rannsókninni voru notaðar niðurstöður interRAI-Home Care-mat skjólstæðinganna. InterRai-matið var gert í upphafi rannsóknar, eftir hálft ár og svo eftir ár, þannig að rannsóknartímabilið spannar eitt ár,“ útskýrir hún.

Bakdyramegin inn í heimahjúkrun í Reykjavík

Tengdist þetta eitthvað meistaranáminu þínu?

„Í meistaraverkefninu gerði ég kerfisbundinn samanburð á álagi aðstandenda aldraðra sem búa heima og það er í raun hluti af því sem ég er að skoða í doktorsverkefninu.“ Heimaþjónusta Reykjavíkur er stofnunin sem tók þátt í evrópsku rannsókninni hér á Íslandi. „Ég segi alltaf að ég hafi komið bakdyramegin inn í heimahjúkrun í Reykjavík, sem var mjög gaman, enda hafði ég alltaf verið í Hafnarfirðinum. Þar unnum við með heimahjúkrun í Garðabæ og Kópavogi við að koma á fót sameiginlegri kvöldþjónustu og helgarþjónustu með Garðabæ. Það var gott og ánægjulegt að sjá að starfsemin í Reykjavík var bara alveg sambærileg því sem við vorum að gera í Hafnarfirði, Kópavogi og Garðabæ,“ segir Inga Valgerður.

Þá að öðru, hvert er markmið þitt með doktorsnáminu?

„Í doktorsnámi við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands þarf að skrifa þrjár vísindagreinar og svo ritgerð sem tekur allt saman og skapar eina heild um verkefnið. Mitt meginmarkmið með doktorsnáminu er að kanna hvort það sé einhvern veginn hægt að efla heimahjúkrun þannig að fólk geti búið lengur heima og í því samhengi hvort við getum einhvers staðar gripið inn í svo fólk þurfi ekki að flytja á hjúkrunarheimili of snemma. Ég er búin að fá fyrstu greinina birta en hún fjallar um að fólk sem býr heima og þiggur þjónustu heimahjúkrunar er með skertari getu, líkamlega og vitræna, árið 2014 samanborið við 2001. Sem þýðir að heimahjúkrun hefur þyngst á þessum árum. Að sama skapi hefur þjónusta sem fólk fær frá formlega kerfinu aukist á þessum tíma, þjóðfélög eru að veita meiri aðstoð í klukkustundum talið. Þetta á við um þau sex lönd sem tóku þátt í rannsókninni, einstaklingar eru að fá meiri þjónustu, nema á Ítalíu. Þar er hefð fyrir því að fjölskyldan hugsi um þann aldraða og fái jafnvel til sín aðila inn á heimili til að hugsa um hann.“

Staðan kortlögð með tölulegum gögnum

Hvernig skiptist þjónustan niður á skjólstæðingana, fá allir sama magn af þjónustu?

„Það er líka eitthvað sem ég hef verið að skoða og velta fyrir mér, hvort þeir sem þurfa á mestri þjónustu að halda fái meiri þjónustu en hinir sem þurfa á minni þjónustu að halda? Í helmingstilfella hjá okkur fengu þeir sem skoruðu hæst á þessum kvörðum, ADL og CPS (metur vitræna getu), meiri aðstoð en þeir sem skoruðu lægra. Það er svo mikilvægt að kortleggja hvernig staðan er, með tölulegum gögnum, svo við getum gert umbætur og farið af stað í verkefni sem byggja á einhverju haldbæru. Hingað til hefur stundum verið farið af stað í verkefni án þess að skoða það í grunninn fyrst, en það er vegna þess að tölurnar og gögnin eru ekki til. Þess vegna skipta rannsóknir í hjúkrun og heimahjúkrun svo miklu máli.“

Ertu byrjuð að vinna að næstu vísindagrein?

„Já, lýsandi gögn úr rannsókninni bentu til þess að 32% aðstandenda á Íslandi upplifðu áhyggjur, kvíða eða reiði, tengt umönnunarhlutverki þeirra á meðan 15% aðstandenda á Ítalíu (sem kom næst á eftir okkur) upplifðu álag. Við hér á landi skoruðum langhæst í þessu. Í annarri greininni reyni ég að skoða hvort það sé eitthvað í fari hins aldraða sem eykur líkur á að aðstandandi upplifi þetta álag. Svo vil ég helst kanna hvað veldur því að aðrar þjóðir finna ekki eins mikið fyrir þessu og við hér á landi. Mig langar til að skoða þessi tengsl og svo mögulega finna hvort þjóðfélagsgerðin hafi eitthvað að segja, eins og hjá Ítalíu, þar sem stórfjölskyldan tekur mikinn þátt í umönnun. Það er spurning hvort við á Norðurlöndunum, sem erum vön þessu skandinavíska módeli, ætlumst til að fá þessa aðstoð, að kerfið sjái um okkar aldraða aðstandanda. Ég held að það sé ekkert ólíklegt.“

Upplifun á álagi umönnunaraðila hefur aukist mikið hérlendis

Samkvæmt Ingu Valgerði þá voru birtar sambærilegar niðurstöður úr rannsókninni, AdHOC (The Aged in Home Care project), sem var gerð árið 2001 en þá voru einungis 2,6% umönnunaraðila á Íslandi sem upplifðu álag í umönnunarhlutverki. Hlutfallið hefur því hækkað um 29% á 13 árum. „Það eru miklar breytingar að eiga sér stað á þessum árum, konur eru farnar að vinna úti meira og mögulega í meira krefjandi störfum, samfélagsmiðlar koma til sögunnar og þrátt fyrir að karlarnir séu farnir að taka meiri þátt í heimilisstörfum þá virðist það ekki vera nóg. Annað sem kom í ljós er að eftir því sem klukkustundir í þjónustu eru fleiri eru meiri líkur á að aðstandandi upplifi álag. Þetta finnst manni vera öfugmæli en það gæti verið að þjónustan sem þau fá sé hreinlega ekki nægjanleg. Fólk fær 3,5 klukkustundir á viku að meðaltali á Íslandi frá opinbera kerfinu en í Belgíu fá einstaklingar 8,5 klukkustundir og 5,1 klukkustund í Finnlandi.

Mögulega fá einstaklingar á Íslandi ekki nægilega mikla þjónustu til að létta á álagi af umönnunaraðilum. Svo kom líka í ljós, hjá öllum þátttökulöndum, að ef hinn aldraði var með þunglyndi eða þunglyndiseinkenni þá voru meiri líkur á að aðstandandi upplifði álag í umönnunarhlutverki,“ útskýrir Inga Valgerður og heldur áfram:

„Í þriðju greininni, sem ég er aðeins byrjuð á, mun ég skoða hvað það er í fari skjólstæðingi sem mögulega veldur því að hann flytur á hjúkrunarheimili, eða ekki. Gögn úr rannsókninni sýna að mesta fylgni við það að einstaklingur flytji á hjúkrunarheimili er ef aðstandandi upplifir álag í umönnunarhlutverki sínu, auk þess er fylgni við hærra skor á CPS-kvarðanum, einnig ef einstaklingur er með alzheimersjúkdóminn eða annan heilabilunarsjúkdóm. Það kemur svo sem ekki á óvart þar sem meirihluti þeirra sem búa á hjúkrunarheimilum er með vitræna skerðingu. Þarna erum við þá kannski komin á sporið með það hvað við þurfum að gera, til dæmis að sinna aðstandendum betur. Ég hef oft hugsað í gegnum tíðina hvort við gætum gert heimahjúkrun einhvern veginn öðruvísi, hvort við getum bætt eitthvað. Það kom einnig fram í rannsókninni að við hverja klukkustund aukalega sem einstaklingur fær þjónustu aukast líkur á að hann flytji á hjúkrunarheimili. Sem gæti þýtt að þrátt fyrir að hann fái aukna þjónustu hrakar honum svo mikið að hann þurfi engu að síður að fara á hjúkrunarheimili. Það sem er áhugavert líka er að sjá að það eru spurningar í RAI-matinu sem snúa að viðhorfi einstaklingsins til eigins heilsufars. Eftir því sem hann svarar hærra (mjög gott eða gott) eru 60% minni líkur á að hann flytji á hjúkrunarheimili. Einnig ef hann fer alla jafna út úr húsi og ef hann eða aðstandandi telur hann geti bætt sjálfsbjargargetu sína þá eru minni líkur á að hann flytji á hjúkrunarheimili.“

Engin markviss aðstoð í boði fyrir aðstandendur

Hvað segja þessar niðurstöður þér?

„Þriðja vísindagreinin mín fjallar annars vegar um meðhöndlun þunglyndis hjá fólki á þessum aldri og það að fyrirbyggja líkamlega hnignun og hins vegar hvað hægt sé að gera til að umönnunaraðilum líði betur.“ Þegar við skoðum þetta allt saman þá erum við komin með einhverja útgangspunkta til að vinna með og sjá hvar tækifærin liggja varðandi hvað við getum gert betur. Ég er mjög praktísk að eðlisfari og vil nýta niðurstöðurnar. Í heimahjúkrun erum við ekki með neina markvissa aðstoð fyrir aðstandendur svo dæmi sé nefnt. Í rannsókninni eru 50% aðstandenda börn þeirra og 30% eru makar og við þurfum að skoða hvernig, eða hvort, svör þessara aðila séu ólík.“

Leiðbeinandinn var fyrst Íslendinga til að útskrifast með doktorspróf í hjúkrun

Fyrir utan að vera í krefjandi doktorsnámi er Inga Valgerður í hlutastarfi hjá Heimahjúkrun Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. „Ég er í stöðu sérfræðings í hjúkrun en undanfarið hefur starfið þar að mestu verið í tengslum við þróun nýrrar skráningar í heimahjúkrun innan Sögu og appið Smásögu, þar sem hægt er að skrá þá meðferð sem veitt er heima hjá skjólstæðingnum í rauntíma. Einnig hef ég fengið námsstyrki og þess vegna gat ég minnkað við mig vinnu.“

Var erfitt eða flókið að sækja um styrki og hvaðan koma þeir?

„Ég fékk styrki úr Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands og Rannsóknarstofu Háskólans Íslands og Landspítala í öldrunarfræði, RHLÖ. Ég vildi ekki fara í doktorsnám með fullri vinnu. Deildin aðstoðaði mig við að sækja um styrk úr Rannsóknarsjóðnum en annað hef ég sótt um sjálf. Ég er líka með mjög góðan leiðbeinanda, Dr. Kristínu Björnsdóttur prófessor, sem hefur aðstoðað mig mikið. Það þarf að ríkja gagnkvæmt traust og gott samband milli nemanda og leiðbeinanda og það er til staðar hjá okkur Kristínu. Til gamans má geta þess að hún var fyrst Íslendinga til að útskrifast með doktorspróf í hjúkrunarfræði árið 1992,“ segir Inga Valgerðir brosandi.

Samfélag doktorsnema mikilvægur stuðningur

Hvernig gengur að samræma námið vinnu og lífi?

„Þetta er meiri vinna en ég bjóst við. Ég var komin með gögn þegar ég byrjaði þannig að ég hélt að þetta yrði ekki alveg eins umfangsmikið, annað kom á daginn. Maður er alltaf að skoða nýja vinkla og þarf þá að skoða allt upp á nýtt, það ferli hefur tekið langan tíma, miklu lengri en mig grunaði. Þessi hluti doktornáms er algerlega vanmetinn. Það er lærdómurinn, þetta er ekkert klippt og skorið; þetta þarf að þróast og meltast og skoða frá mörgum hliðum, það þarf að prófa mismunandi aðferðir til að komast að niðurstöðunni. Annars gengur vel að samræma lífið og starfið. Ég var með aðstöðu á Landakoti en þegar Covid skall á fluttumst við þaðan. Ég er með góða aðstöðu heima og eins í doktorsnemaherbergi í Eirbergi.“

Hvernig heldur Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildin utan um doktorsnemendur?

„Það er svokallað doktors-seminar einu sinni í mánuði og þá hittast allir doktorsnemarnir sem eru 17 talsins. Þannig verður til samfélag og við sem erum í doktorsnámi fáum góðan stuðning hver frá annarri, þetta er þó ekki svona í öllum deildum. Við reynum líka að hittast reglulega og vinna saman í Eirbergi. Svo höfum við farið í svokallaðar „skrifbúðir“ á gömlu heimavistina á Laugarvatni og í sumarbústað. Þá stillum við tímann og skrifum sleitulaust í lotum, borðum svo hádegismat og kvöldmat og gerum eitthvað skemmtilegt saman. Þetta gefur okkur mjög mikið og maður hefur komist vel af stað eftir svona daga.“

Ný áskorun að fara að kenna við deildina

Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér? „Það er farið að pressa verulega á mig að koma í kennslu innan deildarinnar og ég er farin að verða jákvæðari gagnvart því en ég var í upphafi, það er ný áskorun fyrir mig. Ég er að kenna í sérnámi í heilsugæsluhjúkrun í Háskólanum á Akureyri, heilsugæslu eldra fólks. Ég vil alls ekki hætta í heimahjúkrun, ég vil vera þar áfram þannig að einhver blönduð staða er það sem ég sé fyrir mér í augnablikinu. Þá var mér boðið að koma inn í alþjóðlega interRAI-hópinn þar sem m.a. þróun á InterRai-matstækjunum fer fram. Doktorsnámið gefur manni ýmis ný tækifæri eins og til dæmis erlent samstarf. Svo langar mig auðvitað til að vinna áfram með niðurstöðurnar úr doktorsverkefninu mínu og að þróa ný úrræði eða ráðast í umbætur á sviði heimahjúkrunar.“

Um leið og við þökkum Ingu Valgerði fyrir gott og fróðlegt spjall óskum við henni góðs gengis með verkefnið sitt og fylgjumst spennt með væntanlegum greinum, niðurstöðum og þróunarverkefnum frá henni í framtíðinni.