Fara á efnissvæði
Viðtal

Starfaði á smitsjúkdómadeild í Svíþjóð þegar Covid skall á

Jóna Margrét Guðmundsdóttir flutti til Uppsala í Svíþjóð til að fara í framhaldsnám, fékk starf á smitsjúkdómadeild og upplifði ástandið þegar Covidfaraldurinn hófst í Svíþjóð.

Texti: Sigríður Elín Ásmundsdóttir

Myndir: Úr einkasafni

Sumir hjúkrunarfræðingar eiga sér þann draum að starfa við fagið í fjarlægu landi, nálægu nágrannalandi eða jafnvel bara úti á landsbyggðinni í heimalandinu. Það er áhugavert að fá innsýn í líf og störf hjúkrunarfræðinga sem hafa látið drauminn rætast, eða þar sem lífið hefur einfaldlega æxlast þannig að viðkomandi hefur farið til starfa fjarri heimahögunum.

Í næstu tölublöðum ætlum við að heyra í hjúkrunarfræðingum sem vinna við fagið í fjarlægum löndum eða nálægum eins og Jóna Margrét. Hún flutti til Uppsala í Svíþjóð til að fara í nám, neyddist til að vinna með náminu því námslánin dugðu ekki, fékk starf á smitsjúkdómadeild og upplifði ástandið þegar Covid-faraldurinn hófst í Svíþjóð. Síðan eru liðin fimm ár og í dag er Jóna Margrét í sambúð með sænskum manni en parið eignaðist sitt fyrsta barn saman síðasta sumar, Leuh Margréti, sem er augasteinn foreldra sinna. Jóna Margrét var meira en til í svara nokkrum spurningum um líf sitt og störf fyrir lesendur Tímarits hjúkrunarfræðinga.

Hver er Jóna Margrét og hvenær fórstu í hjúkrunarfræði?

Ég fæddist á Akureyri árið 1990, flutti í Kópavoginn þegar ég var tveggja ára og ólst þar upp hjá foreldrum mínum og tveimur systrum sem ég er mjög náin. Ég á líka tvö eldri hálfsystkini sem ég er í góðu samband við. Árið 2011 ákvað ég að flytja norður og læra hjúkrunarfræði við HA, sem reyndist vera góð ákvörðun því það var æðislegt að vera í háskólanámi á Akureyri. Við vorum góður hópur saman í náminu og margir komu, eins og ég, gagngert norður til að læra hjúkrun. Námsárin voru því mjög skemmtilegur tími en eftir útskrift flutti ég aftur suður.

Var það alltaf framtíðardraumurinn að verða hjúkrunarfræðingur?

Nei, ég get ekki sagt það. Ég ákvað að læra hjúkrun eftir að hafa unnið með hjúkrunarfræðingum á Landakoti og Hrafnistu, þar kviknaði áhuginn. Svo var amma mín hjúkrunarfræðingur og hún talaði alla tíð svo jákvætt og vel um fagið og starfið sem hafði eflaust líka áhrif á ákvörðun mína að læra hjúkrun.

Hvar starfaðir þú áður en þú fluttir til Svíþjóðar?

Ég fór að vinna á smitsjúkdómadeild A-7 á LSH eftir útskrift og starfaði þar þangað til ég flutti til Svíþjóðar árið 2018. Á þessum tíma, þegar ég var að byrja, vorum við nokkuð margar sem vorum ungar og nýjar í starfi á deildinni, við höfðum því stuðning hver frá annarri sem var mjög gott. Þarna voru líka margir reyndir hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar sem ég lærði mikið af. Þessi fyrstu ár sem hjúkrunarfræðingur voru því mjög lærdómsríkur og skemmtilegur tími.

Hvernig hjúkrun langar þig helst að starfa við?

Eftir að ég kláraði hjúkrunarfræðinámið langaði mig að læra eitthvað meira og þar sem hjúkrunarfræðin er mjög praktíkst nám hef ég leyft mér að skrá mig á námskeið og námsleiðir sem hafa vakið áhuga minn án þess að einblína á hvernig námið nýtist mér í starfi. Strax eftir útskrift skráði ég mig til að mynda í 30 eininga diplómanám í þróunarfræði við HÍ, það nám samanstóð af þremur kúrsum sem opnuðu augu mín fyrir félagsvísindum. Ég hef alltaf haft áhuga á hjálparstarfi og stefni á að vinna fyrir samtök á borð við Lækna án landamæra (MSF) og út frá ráðleggingum norsku skrifstofu MSF tók ég kúrs í norskum háskóla sem heitir Tropical medicine. Þetta var árið 2017 og kúrsinn samanstóð meðal annars af þriggja vikna dvöl í Tanga í Tansaníu. Þar fengum við fyrirlestra og fórum í heimsóknir á heilbrigðisstofnanir. En árið áður hafði ég verið í tæpa tvo mánuði í Moshi í Tansaníu ásamt tveim íslenskum iðjuþjálfum. Þar starfaði ég á spítala en var ekki með hjúkrunarleyfi í landinu og var því meira eins og skugginn af öðrum hjúkrunarfræðingum sem þar störfuðu. Þessi tími gaf mér innsýn í starfið í öðruvísi menningarheim en mér fannst hamlandi að tala ekki tungumálið og treysti mikið á kanadískan lækni sem þarna starfaði, sú hafði verið þarna lengi og gaf sér tíma til að túlka og kynna mig fyrir starfseminni. Það má segja að ég hafi meira verið gestur og áhorfandi þarna á sjúkrahúsinu en ég fann að mig langaði að læra meira. Aðstaðan á sjúkrahúsinu í Tansaníu var mjög ólík því sem ég átti að venjast, það voru til dæmis engin lyf eða útbúnaður á spítalanum. Sjúklingar þurftu að treysta alfarið á aðstandendur að kaupa það sem vantaði hvort sem það voru verkjalyf eða þvagleggur. Það voru kannski tuttugu sjúklingar á einni deild, allir í sama rými og ekki pláss eða möguleiki á að virða einkalíf sjúklinga. Þegar ég fór svo ári seinna í gegnum kúrsinn í norska háskólanum áttaði ég mig betur á hvernig heilbrigðiskerfið þarna var uppbyggt og hversu mikið þrekvirki starfsfólkið vinnur á hverjum degi við erfiðar aðstæður.

Hópurinn sem tók námskeiðið Tropical Medicine haustið 2017 í Tanga, Tanzaniu

Langar þig að fara aftur í hjálparstarf í framandi landi?

Já það væri mjög áhugavert og ég stefni að því að gera það. Í rauninni væri mér alveg sama hvert ég færi, bara að mín þekking kæmi að góðu gagni.

Hvers vegna fluttir þú til Svíþjóðar?

Ég ákvað að fara í masters-nám í alþjóðalýðheilsuvísindum (global health) og flutti ein út haustið 2018. Ég var ekki búin að reikna út hvað ég fengi í námslán áður en ég fór en ég hafði verið að vinna mikið og fékk þar af leiðandi ekki nógu há námslán til að geta lifað af þeim. Ég varð því að fá mér vinnu með náminu og fór að vinna á smitsjúkdómadeild á Akademíska sjúkrahúsinu í Uppsölum. Ég var þar í tímavinnu með náminu á mjög stórri deild, kosturinn við það var að ég gat valið mér vaktir. Ég fékk samt bara fimm aðlögunarvaktir og var í upphafi ekki góð í sænsku, ég rataði varla um spítalann og kunni ekki vel á kerfið. Það voru alls konar praktísk atriði sem ég vissi ekki og hafði hreinlega ekki orku í að hugsa um, ég var gjörsamlega búin á því við að koma mér inn í allt til að byrja með. Ég fékk launin til dæmis send í pósti fyrstu mánuðina, í marga mánuði vissi ég ekki að ég fengi ekki matartímana borgaða og að ég væri ekki skráð í stéttarfélag. Ég þurfti bara að koma mér inn í allt og redda mér en Svíar eru mjög þolinmóðir og veittu mér stuðning og einnig sjúkraliðar sem komu frá fjarlægum löndum til að vinna á spítalanum. Þeir höfðu upplifað það að vera í mínum sporum og voru mjög hjálplegir. Ég tók vaktir á deildinni með náminu en þegar ég var á síðustu önninni í háskólanum og bara að skrifa lokaverkefnið mitt skall heimsfaraldurinn á.

Hvernig var að starfa á smitsjúkdómadeild í Svíþjóð í heimsfaraldri?

Ég var upphaflega forvitin og því tilbúin að taka allar vaktir sem ég gat á smitsjúkdómadeildinni en þetta voru skrítnir tímar og það gerðist allt mjög hratt. Viðbrögðin við auknum smitum voru allt önnur í Svíþjóð en heima á Íslandi, ég fylgdist vel með fréttum og á meðan verið var að loka öllu heima var allt opið í Svíþjóð; barir, líkamsræktarstöðvar og aðrir staðir þar sem margt fólk kom saman og smithættan var mikil. Ég upplifði mjög blendnar tilfinningar og fannst Svíar ekki bregðast nógu hratt við því sem var að gerast. Ég sá í mínu starfi á smitsjúkdómadeildinni hvaða áhrif Covid hafði og á sama tíma vissum við lítið um sjúkdóminn, einkenni hans og útbreiðslu. Þetta gerðist allt svo hratt, nánast á einni nóttu. Einungis nokkrum vikum áður en Covid skall á hafði ég í fyrsta skiptið verið með sjúklingi sem lést og þá kunni ég ekki einu sinni að segja, ég samhryggist þér á sænsku og það fannst mér erfitt. Svo skall Covid á, deildin varð fljótt yfirfull og sjúklingar létust í hrönnum. Við vorum fáliðuð til að byrja með og ég vann örugglega meira en fulla vinnu á sama tíma og ég var að skrifa lokaverkefnið. Það var að sumu leyti flókið að vera ekki fastráðin á spítalanum, auk þess var ég mikið á næturvöktum og missti því af fundum og fræðslu og leið stundum eins og ég væri ekki hluti af hópnum þegar kom að upplýsingaflæði og öðru. Samstarfsfólkið var samt frábært og þetta var mikill lærdómur en eftir á hugsaði ég að best hefði verið að fresta því að fresta ritgerðinni um eina önn því þetta var of mikið. Ég keyrði mig út og hætti að vinna á spítalanum haustið 2020 af því ég gat ekki meira, fékk nóg og margir hjúkrunarfræðingar sem unnu með mér á spítalanum hættu einnig. Ég áttaði mig á að ég yrði að hætta í ágústmánuði þegar ég var með deyjandi sjúklingi og fór að gráta en það hafði aldrei gerst áður. Ég ákvað þá að fara að vinna annars staðar en á spítala í smátíma. Ég fékk vinnu hjá sveitarfélaginu í Uppsölum, á skammtímavistun sem er eins konar endurhæfingardeild. Í Svíþjóð fá sveitarfélög dagsektir ef þau geta ekki tekið við sjúklingum sem eru að útskrifast frá spítalanum og þurfa skammtímavistun eða endurhæfingu. Það gerir það að verkum að allt gengur hraðar fyrir sig en til dæmis heima og sjúkrahúsin fyllast ekki af fólki sem er að bíða eftir úrræðum eftir að hafa þurft innlögn á spítala.

Á vaktinni á smitsjúkdómadeild í heimsfaraldri.

Hvernig tók nýja starfið á móti þér eftir álagið á spítalanum?

Ég mætti á fyrstu vaktina í nýju starfi haustið 2020 og þá kom í ljós að nánast helmingur starfsfólksins var smitað af Covid og stór hluti vistmanna líka, sama ballið byrjaði því aftur á nýjum vinnustað. Kaldhæðni örlaganna var að ég hætti á smitsjúkdómadeildinni af því ég gat ekki meira af Covid en svo var Covid það fyrsta sem tók á móti mér á nýjum vettvangi og ég fór því má segja úr öskunni í eldinn. Munurinn var að þarna hafði ég ekki tækin og tólin sem ég hafði á sjúkrahúsinu. Við gátum lítið gert fyrir smitaða og þurftum annaðhvort að hringja á sjúkrabíl eða veita líknandi meðferð. Þarna voru flestir vistmenn eldri borgarar og þrátt fyrir að Covid hafði tekið á móti mér þegar ég var að byrja og reyndi að forðast Covid er ég enn að vinna á þessari endurhæfingardeild og mæti þangað í ágúst þegar fæðingarorlofinu lýkur.

Hvers vegna ílengdist þú þarna, hverjir eru kostirnir við að starfa á endurhæfingardeild hjá sveitarfélagi?

Það var ágæt tilbreyting að fara úr akút aðstæðum á sjúkrahúsi í aðeins öðruvísi takt. Vissulega er oft mikið að gera en munurinn er að á spítala kemur alltaf annar hjúkrunarfræðingur og tekur við þínum sjúklingum áður en þú ferð heim. Þar sem ég starfa núna mæti ég klukkan sjö og er til fjögur á daginn, þess á milli er engin hjúkrunarfræðingur á staðnum þannig að sjúkraliðar og aðrir starfsmenn hringja í vaktsíma ef þess þarf. Það tók mig smátíma að læra að sleppa og forgangsraða rétt til að geta farið heim úr vinnunni á réttum tíma. Þetta starf hefur hjálpaði mér mikið að skilja betur sænska heilbrigðikerfið og hvernig það virkar þar sem ég þarf að redda öllu mögulegu fyrir skjólstæðinga mína. Mér finnst það líka vera kostir við starfið að ég vinn bara dagvinnu og fjórðu hverju helgi. Ég hef svo verið sjálfboðaliði hjá samtökunum Läkare i världen (Médecins du Monde) sem er með móttöku í Uppsala einu sinni viku. Þar er tekið á móti flóttafólki sem hefur ekki getað fengið þá heilbrigðisþjónustu sem það á rétt á í gegnum almenna kerfið, við aðstoðum það við að leita réttar síns og segjum hvert það geti leitað ef við erum ekki á staðnum. Við getum sinnt minni sárum, tekið HIV-próf, þvagprufur og annað smávægilegt en móttakan í Stokkhólmi er með stærri starfsemi og getur aðstoðað flóttafólk meira.

Finnst þér að Svíar hefðu átt að bregðast öðruvísi við þegar Covid skall á?

Þeir voru lengi að bregðast við, það var ekki fyrr en í janúar 2021, þegar ég var farin að vinna á öðrum stað, að það komu fyrst reglur um grímuskyldu á vinnutíma. Ég var að vinna með sjúklingum í áhættuhópi og fram að því vorum við starfsfólkið bara með grímur og hlífðarbúnað þegar við sinntum sjúklingum sem voru smitaðir. Ræktin var opin, fólk hélt veislur eins og ekkert hefði í skorist en á sama tíma og fólk var að deyja úr Covid á spítalnum. Þetta fannst mér erfitt að horfa upp á. Mér finnst að yfirvöld hefðu átt að bregðast fyrr við, sérstaklega á stöðum eins og á öldrunarheimilum og á stofnunum þar sem viðkvæmir hópar voru. Það var ekki fyrr en um sumarið 2020 að almenningur hafði möguleika á fara í einkennasýnatöku. Ég upplifði líka að það vantaði hlífðarbúnað og annan nauðsynlegan búnað í upphafi faraldursins. Að mínu mati voru Svíar ekki tilbúnir í heimsfaraldur og svona stórt áfall, þeir eru almennt vanir því að hafa það gott og áttu eflaust ekki von á neinu í líkingu við það sem Covid varð, ekki frekar en nokkur annar. Í byrjun apríl, bara nokkrum vikum eftir að faraldurinn byrjaði, voru til að mynda næstum bara Covid-smitaðir sjúklingar á spítalanum, hann var undirlagður og það þurfti að fá hjúkrunarfræðinga frá öðrum stofnunum til að manna hann á sama tíma og skurðlæknar höfðu ekkert að gera.

Smitaðist þú ekki af Covid þegar þú starfaðir á smitsjúkdómadeildinni?

Nei, ég smitaðist ekki fyrr en 2021, ég var í hlífðarbúnaði í vinnunni og einangraði mig mikið utan vinnutíma. Við sem unnum saman á spítalanum grínuðumst stundum með það að öruggasti staðurinn fyrir okkur að vera á væri líklega á smitsjúkdómadeildinni þar sem við fengum hlífðarbúnað. Ég var í upphafi hrædd um að smitast og varð meira hrædd um fólkið mitt heima á Íslandi. Á þessum tíma fækkaði flugferðum heim mikið og ef einhver af mínum nánustu hefði veikst hefði ég ekki getað bara hoppað upp í næstu vél og farið heim til að vera til staðar. Eftir á að hyggja var þetta mikill og góður skóli, allur heimurinn var í raun að upplifa það sama. Þetta tímabil sýndi mér hvað aðlögunarhæfnin er mikil, einungis nokkrum vikum eftir að faraldurinn byrjaði varð það nýr hversdagsleiki má segja og maður tókst á við hann.

Hvaða áskorunum hefur þú mætt í nýju landi?

Tungumálið hefur verið stærsta áskorunin, mig vantaði orðaforða til að tjá mig og vinna úr upplifunum tengdum Covid. Það að vera alveg nýr á vinnustað í landi þar sem maður getur ekki almennilega tjáð sig á tekur rosalega á og misskilningur getur orðið en maður getur sem betur fer hlegið að því eftir á. Það var líka áskorun að vera langt frá fjölskyldunni, sérstaklega á tímum Covid þegar ég upplifði mikla óvissu og ólík viðbrögð við faraldrinum á Íslandi og í Svíþjóð.

Hefur þú leitað þér hjálpar eftir álagið sem fylgdi því að starfa á smitsjúkdómadeild í heimsfaraldri?

Ég talaði einu sinni við sálfræðing haustið 2020 en ég var á þeim tíma búin að skipta um vinnu, taka mér langt frí og náði að jafna mig að miklu leyti. En það var gott að fara og fá staðfestingu á því að ég væri ekki bara rosalega mikill aumingi heldur að þetta hafi hreinlega verið mikið.

Hvað kenndi þessi lífreynsla þér?

Að maður er fær um meira en maður heldur og einnig hvað það er mikilvægt að ætla sér ekki of mikið. Lífið fer ekki alltaf eins og planað var og þá er líka allt í lagi að beygja aðeins út af sinni braut og taka pásur ef þess þarf.

Er starfsumhverfið öðruvísi þar sem þú starfar núna í Svíþjóð en á Íslandi?

Aðgengi að sérnámi innan hjúkrunar er gott í Svíþjóð og það er mikið í boði. Grunnnámið er þrjú ár í háskóla og svo er hægt að sérhæfa sig í eitt til eitt og hálft ár. Margar stofnanir bjóða einnig upp á launað sérnám og almennt er gefið mikið svigrúm fyrir framhaldsnám. Mér fannst vera skýrari verkaskipan á milli starfsstétta á spítalanum sem ég starfaði á hér í Svíþjóð og almennt fleira starfsfólk, ég hef þó ekki unnið á nógu mörgum ólíkum deildum til að dæma um það hvort það sé raunverulegur munur.

Hvað hefur Svíþjóð fram yfir Ísland?

Það er mikill skortur á hjúkrunarfræðingum almennt í Svíþjóð eins og heima en mér hefur fundist vera fleiri almennir starfsmenn og fleiri sjúkraliðar þar sem ég hef verið að vinna að minnsta kosti. Það er einnig betra flæði frá spítalanum og sjúklingar eru ekki fastir á bráðadeildum í fleiri vikur að bíða eftir úrræðum, almennt eru útskriftarmál í betri farvegi.

Hvað hefur Ísland fram yfir Svíþjóð?

Ég sakna stundum „þetta reddast“ hugarfarsins sem er ríkjandi heima. Ef það koma upp vandamál þá er þeim bara reddað, en hér í Svíþjóð hef ég upplifað að það fari allt í upplausn ef eitthvað, smáatriði jafnvel, virkar ekki eins og það á að virka. Hér fæ ég ekki matartímann greiddan og vinnudagurinn er lengri fyrir vikið. Ég átti erfitt með að venjast því að dagarnir byrja fyrr og enda fyrr hér í Svíþjóð, morgunvakt byrjar til dæmis klukkan 7 eða fyrr og kvöldmatur á stofnunum er borinn fram rétt eftir klukkan 16 síðdegis.

Er mönnunarvandinn mikill í Svíþjóð?

Já, það er mikill skortur á hjúkrunarfræðingum. Hjúkrunarfræðingar hér kvarta yfir lágum launum, miklu álagi og slæmu vinnuumhverfi. Hjúkrunarfræðingar flýja fastráðningar, margir fara í kulnun og almennt er mikil óánægja hjá stéttinni. Það sem er ólíkt er að kerfið hérna er má segja tvöfalt. Annars vegar eru það hjúkrunarfræðingar sem eru fastráðnir og hins vegar hjúkrunarfræðingar sem manna einstaka vaktir og vinna stundum í fleiri vikur og mánuði á sömu deild í gegnum ráðningarfyrirtæki. Þeir hjúkrunarfræðingar eru með mun hærri laun en þeir sem eru fastráðnir, geta valið sínar vaktir og frí á annan hátt en fastráðnir. Það eru kostir og gallar við bæði kerfin en á mörgum deildum er stór hluti starfsmanna ráðinn í gegnum ráðningafyrirtæki og það telst vera vandamál og merki um að eitthvað gangi ekki upp á viðkomandi deild ef enginn vill vera fastráðinn þar.

Ætlar þú að flytja aftur til Íslands?

Ég vona það en hef ekki ákveðið hvenær.

Hvers saknar þú helst að heiman?

Fjölskyldu og vina, það er ákveðin sorg að vera alltaf svona langt í burtu frá öllum og missa af svo miklu.

Hvernig er hversdagslífið frábrugðið þarna úti?

Ég upplifi það rólegra og það er minna stress. Ég bý miðsvæðið, samgöngur eru góðar og stutt að fara allt. Samfélagið er mjög barnvænt en ég hef ekki átt barn og verið búsett á Íslandi svo að get ekki borið það saman.

Jóna með sambýlismanni sínum Eliasi Tuffaha og dóttur þeirra Leuh Margréti.

Hvaða áhugamálum sinnir þú í frítíma þínum?

Mín helstu áhugamál eru crossfit og að dansa þótt ég sé álíka léleg í hvoru tveggja en ég hef kynnst nýju fólki í gegnum bæði áhugamálin og mæli með hvoru tveggja.

Hvar sérðu fyrir þér að þú verðir eftir tíu ár?

Ætli ég verði ekki búin með meira nám eða alla vega búin að skrá mig í meira nám. Mig langar líka að fara aftur að starfa á sjúkrahúsi, mig vantar meiri reynslu í bráðahjúkrun og vona að ég hafi náð mér í hana eftir 10 ár. Svo er draumurinn að læra að minnsta kosti eitt tungumál til viðbótar. Að lokum er planið að vinna eitthvað meira tengt mínu masters-námi, það gæti verið rannsóknarvinna, hjálparstarf erlendis eða stefnumótun og réttindamál fólks á flótta.