Fara á efnissvæði
Frétt

Leggja til ívilnanir um endurgreiðslu námslána

Starfshópur heilbrigðisráðherra hefur lagt til hvernig nýta megi heimildir í lögum um Menntasjóð námsmanna til að beita tímabundnum ívilnunum við endurgreiðslu námslána, til að styrkja mönnun sérfræðinga í heilbrigðisþjónustu í dreifðum byggðum, þar á meðal hjúkrunarfræðinga.

Starfshópur heilbrigðisráðherra hefur lagt til hvernig nýta megi heimildir í lögum um Menntasjóð námsmanna til að beita tímabundnum ívilnunum við endurgreiðslu námslána, til að styrkja mönnun sérfræðinga í heilbrigðisþjónustu í dreifðum byggðum, þar á meðal hjúkrunarfræðinga.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur ítrekað hvatt stjórnvöld til að virkja þessar lagaheimildir og fagnar því að skýrsla starfshópsins sé komin út.

Starfshópurinn var skipaður af Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra haustið 2022, í hópnum var einn hjúkrunarfræðingur, Baldvina Ýr Hafsteinsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Starfshópurinn vann út frá markmiðum byggðaáætlunar til 2036 um að jafna sem mest sérfræðiþjónustu óháð búsetu.

Í lögum um Menntasjóð námsmanna eru ákvæði um sértækar aðgerðir sem lúta að tímabundnum ívilnunum við endurgreiðslu námslána við sérstök skilyrði.

Annars vegar er samkvæmt 27. gr. laganna heimilt að beita ívilnuninni ef fyrir liggja upplýsingar um viðvarandi eða fyrirsjáanlegan skort á fólki með tiltekna menntun. Markmiðið er að skapa sérstakan hvata fyrir fólk til að sækja sér þá tilteknu menntun og til að starfa í tiltekinni starfsgrein.

Hins vegar er samkvæmt 28. gr. laganna heimilt að beita umræddri ívilnun til að bregðast við ástandi þar sem skortur er á menntuðum einstaklingum á ákveðnum svæðum. Ívilnunin er þá bundin því skilyrði að lánþegi sem búsettur er á viðkomandi svæði nýti menntun sína til starfa í a.m.k. 50% starfshlutfalli í viðkomandi byggð í að lágmarki tvö ár.

Lagt er til að Byggðastofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga hefji þegar vinnu við að kortleggja þörf á heilbrigðisstarfsfólki. Samkvæmt grófu kostnaðarmati er gert ráð fyrir að ívilnunin geti jafngilt um 70.000 kr. hækkun mánaðarlauna fyrir skatt á hvern lánþega á svæðum þar sem mestur skortur er fyrir.

Hér má lesa skýrsluna í heild sinni.