Fara á efnissvæði
Umsögn

Umsögn um bann við umskurði drengja

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) og Fagdeild barnahjúkrunarfræðinga innan Fíh bendir á að við öll inngrip í líkama barna sé mikilvægt að hafa hagsmuni þeirra að leiðarljósi við ákvarðanatöku er þau varða.

Allsherjar og menntamálanefnd Alþingis

Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (bann við umskurði drengja)
Þingskjal 183 - 114. mál

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) og Fagdeild barnahjúkrunarfræðinga innan Fíh bendir á að við öll inngrip í líkama barna sé mikilvægt að hafa hagsmuni þeirra að leiðarljósi við ákvarðanatöku er þau varða.

Umskurður á drengjum, í öðrum tilgangi en þegar læknisfræðilegar ábendingar liggja fyrir, þjónar ekki hagsmunum barnsins. Aðgerðin veldur varanlegum og óafturkræfum breytingum á líkama drengja og brýtur í bága við sjálfsákvarðanarétt þeirra um eigin líkama. Forhúðin verndar þvagrásaropið og gegnir hlutverki við kynörvun og kynlíf. Aðgerðin sjálf getur valdið drengjum sársauka, sérstaklega ef hún er framkvæmd án deyfingar og getur haft ýmsa fylgikvilla í för með sér.

Margir hafa viljað réttlæta umskurð með þeirri staðhæfingu að sýkingartíðni sé lægri hjá drengjum sem eru umskornir. Sú staðreynd réttlætir þó ekki umskurð á fjölda drengja sem annars aldrei hefðu haft nein vandamál tengd sýkingum eða forhúð, en innan við 2% drengja þarfnast aðgerðar vegna of þröngrar forhúðar.

Fíh vill hins vegar árétta að bann við umskurði drengja getur haft í för með sér að slíkar aðgerðir séu framkvæmdar við óviðundandi aðstæður og af aðilum með ófullnægjandi þjálfun, en við slíkar kringumstæður er tíðni fylgikvilla töluvert hærri.

Því telur Fíh að skoða þurfi betur á hvern annan hátt hægt er að vernda sjálfsákvörðunarrétt barna um eigin líkama en að setja bann við umskurði drengja sem viðbót inn í núverandi hegningarlög.