Fara á efnissvæði
Umsögn

Umsögn um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu (stjórn Landspítala)

Fíh leggur ríka áherslu á að stjórn Landspítala sé skipuð einstaklingum sem búa yfir faglegri þekkingu auk menntunar og hæfni á flóknu rekstrarumhverfi eins og Landspítala.

Efni: Umsögn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu (stjórn Landspítala), mál nr. 11/2022

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar fyrir að fá tækifæri til að veita umsögn um ofangreint frumvarp og vill koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.

  • Fíh leggur ríka áherslu á að stjórn Landspítala sé skipuð einstaklingum sem búa yfir faglegri þekkingu auk menntunar og hæfni á flóknu rekstrarumhverfi eins og Landspítala. Hjúkrun er ein af meginstoðum heilbrigðisþjónustunnar. Hjúkrunarfræðingar bera faglega ábyrgð á hjúkrunarþjónustu í landinu, þeir eru fjölmennasta heilbrigðisstéttin og límið sem heldur saman starfsemi heilbrigðiskerfisins og þjónustu við notendur. Gæði hjúkrunar hafa þess vegna mikil áhrif á notendur heilbrigðiskerfisins, heilsu þeirra og vellíðan. Þess vegna telur Fíh mjög mikilvægt að í stjórn spítalans sitji fulltrúi hjúkrunarfræðinga sem hefur skilning og þekkingu á flóknu starfsumhverfi þeirra, reynslu af stjórnun og forystu klínískrar þjónustu, þekkingu á vísindastarfi og menntun stéttarinnar. Landspítali er jafnframt einn helsti samstarfsaðili Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri þegar kemur að grunn- og framhaldsmenntun hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstétta. Því er gífurlega mikilvægt að á Landspítala verði efld enn á ný vísindastarfsemin sem er svo mikilvæg fyrir frekari þekkingarþróun í hjúkrunar- og heilbrigðisfræðum, verandi ein helsta samstarfsstofnun háskólanna.
  • Fram kemur í frumvarpinu að skipa eigi sjö manna stjórn og skulu tveir stjórnarmenn vera fulltrúar starfsfólks með málfrelsi og tillögurétt án atkvæðisréttar. Fíh telur þetta ekki farsælt og leggur til að fulltrúar starfsfólks fái einnig atkvæðisrétt og þar með sama vægi og aðrir stjórnarmenn, því annars er um að ræða fimm manna stjórn með málfrelsi og tillögurétt tveggja annarra fulltrúa (starfsfólk og notendur). Þannig skapast ákveðið ójafnvægi innan stjórnarinnar, en full þörf er á að á einum stærsta og flóknasta vinnustað landsins sé stjórnin skipuð fleiri en færri stjórnarmönnum.
  • Í frumvarpinu kemur fram að stjórnarseta sé til tveggja ára í senn. Verkefni stjórnar Landspítala eru flókin og yfirgripsmikil og ljóst að það getur tekið stjórnarmenn dágóðan tíma að ná yfirsýn yfir þau. Þess vegna leggur Fíh til að stjórnarseta verði lengd í þrjú til fjögur í ár í stað tveggja og að skipunartími stjórnarmanna skarist, þannig að stjórn sé að hluta til endurnýjuð en aldrei öll á sama tíma.
  • Að lokum leggur Fíh til að fulltrúar notenda þjónustu Landspítala fái eitt sæti í stjórn spítalans með málfrelsi og tillögurétt án atkvæðisréttar.