Fara á efnissvæði
Umsögn

Umsögn um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu

Í breytingu á lögum er gert ráð fyrir að komið verði á fót sjö manna stjórn sem skipuð verði af heilbrigðisráðherra til fjögurra ára í senn og að skipun núverandi ráðgjafanefndar falli niður við gildistöku laganna.

Umsögn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar Velferðarnefnd Alþingis fyrir ósk um umsögn við frumvarpi til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007 (stjórn Landspítala), 597. mál, sem send var 11. mars 2020.

Í breytingu á lögum er gert ráð fyrir að komið verði á fót sjö manna stjórn sem skipuð verði af heilbrigðisráðherra til fjögurra ára í senn og að skipun núverandi ráðgjafanefndar falli niður við gildistöku laganna. Í greinargerð með frumvarpinu kemur meðal annars fram að:

  • Gagnrýni hefur verið á skorti á aðkomu fulltrúa fagstétta að stjórn spítalans.
  • Margþætt og valdamikið hlutverk forstjóra og framkvæmdastjórnar þekkist ekki annars staðar á norðurlöndum.
  • Ákvæði var í fyrri lögum um stjórn yfir ríkisspítala, nú einungis ákvæði um ráðgjafanefnd Landspítala. Var gagnrýnt í aðdraganda laganna árið 2007.

Þegar lögum um heilbrigðisþjónustu var breytt árið 2007 gerði Fíh ekki athugasemdir við breytingar á 20. gr. laganna þar sem sett var inn ákvæði um ráðgjafanefnd Landspítala í stað stjórnarnefnd Landspítala. Fíh taldi á þeim tíma ekki þörf fyrir stjórn yfir spítalanum og hefur sú skoðun félagsins ekki breyst. Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru að mati félagsins ekki til góða heldur þvert á móti. Nýbúið er að breyta skipuriti Landspítala og lítil reynsla komin á þá breytingu. Það að setja á stofn stjórn yfir stofnunina væri til þess fallið að auka flækjustig á stjórn spítalans og bæta einu lagi til viðbótar í stjórnskipulagið. Breytingin myndi draga úr valdi forstjóra og framkvæmdastjórnar spítalans. Fjarlægð á milli heilbrigðisráðherra/ heilbrigðisráðuneytis og Landspítala lengist auk þess sem breytingin gefur ráðuneytinu aukið tækifæri til þess að varpa frá sér ábyrgð á stjórn stofnunarinnar. Að lokum telur Fíh að áhersla stjórnvalda ætti frekar að felast í því að styrkja enn frekar fjármögnun og rekstrargrundvöll Landspítalans frekar en að leggja til breytingar á stjórnskipulagi spítalans. Félagið leggur því til að lögunum verðu ekki breytt á þann hátt sem lagt er til í breytingartillögunni.

Nánari útlistun á rökum Fíh gegn breytingum á stjórn Landspítala:

1. Nýtt skipurit.
Árið 2019 voru gerðar breytingar á skipuriti Landspítala. Nánari umfjöllun um breytingarnar má sjá hér í pistli forstjóra Landspítala í september 2019: https://www.landspitali.is/um-landspitala/fjolmidlatorg/frettir/stok-frett/2019/09/27/Forstjorapistill/
Þessi breyting tók gildi þann 1. október sl. og telur Fíh að þessi breyting á skipuriti hafi ekki fengið nægilega reynslu til þess að hægt sé að segja nákvæmlega fyrir um hvernig hún hafi reynst.

2. Aukið flækjustig í stjórn Landspítala.
Fíh álítur að fyrirhugaðar breytingar komi til með að auka flækjustig í stjórn spítalans og bæta enn einu laginu í stjórnskipulagið. Í dag er forstjóri yfir spítalanum og framkvæmdastjórn sem meðal annars sitja í framkvæmdastjóri hjúkrunar og lækninga. Meðferðar- og þjónustukjörnum sviða er síðan stýrt af forstöðumönnum. Innan hvers kjarna eru minni starfseiningar sem stýrt er af hjúkrunardeildarstjórum og yfirlæknum. Það að bæta enn einu stjórnskipulagi ofan á þetta skipurit gerir lítið annað að mati Fíh en að flækja enn frekar stjórnun spítalans. Í rekstri stofnanna eins og Landspítalans er nauðsynlegt að stjórnskipulagið sé einfalt og ábyrgðarsvið stjórnenda og vald til ákvarðanatöku sé skýrt. Þessu ætti að vera hægt að ná fram með núverandi stjórnskipulagi. Fagfólk er í flestum stjórnlögum í skipuriti Landspítala og telur Fíh ekki þörf á að auka aðkomu fagfólks að stjórn spítalans og þar með óþarfi að skipa stjórn yfir Landspítala

3. Dregið úr valdi forstjóra og framkvæmdastjórnar Landspítala; vantraust á forstjóra.
Með boðuðum breytingum telur Fíh að verið sé að draga úr völdum forstjóra og framkvæmdastjórnar spítalans. Eins telur félagið að með breytingunum felist ákveðin vantraustsyfirlýsing á núverandi forstjóra spítalans og framkvæmdastjórn. Nauðsynlegt er að forstjóri sem stýrir stærstu ríkisstofnun landsins njóti fulls traust og hafi umboð og ábyrgð til þess að rekja stofnunina í samræmi við stefnu íslenskra stjórnvalda hverju sinni. Það að skipa stjórn yfir Landspítala dregur úr þessu valdi forstjórans og gerir honum erfitt um vik í starfi. Ekki kemur fram í greinargerðinni hvert hlutverk forstjóra eða framkvæmdastjórnar ætti að verða nái breytingin fram að ganga um að skipuð verði stjórn yfir Landspítala.

4. Aukin fjarlægð milli heilbrigðisráðherra/ heilbrigðisráðuneytis og Landspítala; óljós ábyrgð.
Fíh telur mikilvægt að skilvirkt og gott samtal og samstarf sé á milli æðstu stjórnenda Landspítala og heilbrigðisyfirvalda. Með því að skipa stjórn yfir Landspítala væri kominn milliliður á milli ráðuneytisins, ráðherra og æðstu yfirmanna spítalans sem myndi gera það að verkum að skilaboð um stefnu, ákvarðanir og fjármögnun kæmust verr til skila á milli stjórnenda og ráðuneytisins. Auk þess telur félagið að með því að skipa stjórn yfir Landspítala
væri ráðuneyti og heilbrigðisráðherra gefið aukið tækifæri til þess að varpa ábyrgð á stefnu, fjármögnun og starfsemi stofnunarinnar frá sér og vísa á stjórn spítalans. Slíkt tækifæri á að mati Fíh ekki að bjóða upp á.

5. Frekari áhersla á að styrkja fjármögnun og rekstrargrundvöll Landspítalans.
Að mati Fíh ætti áhersla íslenskra stjórnvalda, jafnt löggjafavaldsins sem og framkvæmdavaldsins að leita leiða til þess að styrkja fjármögnun og rekstrargrundvöll Landspítalans frekar en að leggja til breytingar á stjórnskipulagi spítalans. Landspítalinn er rekinn á föstum fjárlögum sem ákveðin eru í lok hvers árs fyrir komandi rekstrarár árið eftir. Rekstur stórs sjúkrahúss eins og Landspítala er síbreytilegur, aðallega vegna utanaðkomandi þátta, sem stofnunin á erfitt með að gera áætlanir um. Lengi hefur verið uppi ágreiningur á milli stjórnenda spítalans og stjórnvalda um fjármögnun stofnunarinnar, hvort að fjárhæðin sem ætluð er í reksturinn sé nægjanlega há og hvort hún dugi til þess að Landspítali geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Landspítalinn er í þeirri undarlegu stöðu að eftir því sem aðsóknin verður meiri eftir þjónustu stofnunarinnar þeim mun meiri verður hallinn. Fíh hvetur til þess að löggjafar- og framkvæmdavald íslenskrar stjórnsýslu beiti sér fyrir því að Landspítali verði fjármagnaður til samræmis við umfang og starfsemi Landspítala en ekki á þann hátt að reynt sé að aðlaga starfsemina að einhverri fastri krónutölu sem stjórnvöld telji að þurfi til þess að reka stofnunina. Núverandi faraldur sem gengur yfir heimsbyggðina og íslenskt samfélag ætti að vera stjórnvöldum áminning um það.