Fara á efnissvæði
Umsögn

Umsögn um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, 10. og 13. gr.

Fíh ítrekar umsögn sína um fagráð frá 4. október 2019 þess efnis að óráðlegt sé að leggja niður hjúkrunar- og læknaráð með sömu rökum og áður þ.e. að umfangsmesta starfsemi heilbrigðisstofnana er hjúkrun og lækningar.

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007 (þjónustustig, fagráð o.fl.).

Umsögn um 10. gr.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) fagnar því að í 10. gr. laganna um fagstjórnendur skuli áfram vera kveðið á um að á heilbrigðisstofnun skuli starfa framkvæmdastjóri hjúkrunar og framkvæmdastjóri lækninga. Fíh telur það mikilvægt til að tryggja gæði og öryggi þjónustunnar þar sem umfangsmesta starfsemi heilbrigðistofnana er hjúkrun og lækningar sbr. umsögn Fíh frá 4. október 2019.
Þá telur Fíh mikilvægt að í lögunum sé kveðið skýrt á um að deildarstjórar hjúkrunar innan heilbrigðisstofnana beri faglega ábyrgð á þeirri hjúkrun sem undir þá heyra gagnvart framkvæmdastjóra hjúkrunar og gerir að tillögu sinni að 3. mg. núgildandi laga falli ekki út eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu heldur haldist inni til að leggja áherslu á mikilvægi ábyrgðar stjórnenda í hjúkrun á þeirri hjúkrunarþjónustu sem þeir veita.

Umsögn um 13. gr.
Tillaga Fíh að 13. gr. um fagráð er að hún standi óbreytt frá núgildandi lögum um heilbrigðisþjónustu.

Fíh ítrekar umsögn sína um fagráð frá 4. október 2019 þess efnis að óráðlegt sé að leggja niður hjúkrunar- og læknaráð með sömu rökum og áður þ.e. að umfangsmesta starfsemi heilbrigðisstofnana er hjúkrun og lækningar.

Í annarri málsgrein núgildandi laga kemur fram að heimilt er að hafa eitt sameiginlegt fagráð og því er engin ástæða til að breyta núverandi lögum hvað varðar fagráð.

Í þriðju málsgrein núgildandi laga kemur fram að leita beri álits fagráðs um mikilvægar ákvarðanir sem varða heilbrigðisþjónustu stofnunarinnar.
Hjúkrunarráð skal kosið lýðræðislegri kosningu af hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum viðkomandi stofnunar en ekki skipað einhliða af forstjóra.
Fíh telur óþarfa að ráðherra setji reglugerð um verklag og skipan fagráð heilbrigðisstofnana heldur sé nóg að forstjóri staðfesti starfsreglur hjúkrunarráðs þar sem núgildandi verklag hefur gengið mjög vel og í góðri samvinnu við forstjóra.