Fara á efnissvæði
Umsögn

Umsögn um breytingu á reglugerð um sérfræðileyfi sjúkraliða

Umsögn Fíh um drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um menntun, réttindi og skyldur sjúkraliða og skilyrði til að hljóta starfsleyfi, nr. 511/2013. Mál nr. 128/2023.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar tækifæri til samráðs varðandi drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um menntun, réttindi og skyldur sjúkraliða og skilyrði til að hljóta starfsleyfi.

Í dag eru skilyrði sérfræðileyfa heilbrigðsstétta mjög skýr. Samkvæmt núgildandi reglugerðum fyrir sérfræðileyfi t.d. sjö heilbrigðisstétta; hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra, félagsráðgjafa, sálfræðinga, sjúkraþjálfara, lífeindafræðinga og lyfjafræðinga gætir mikillar samræmingar og jafnræðis í leyfisveitingunni og er það af hinu góða. Í öllum framangreindum reglugerðum kemur fram að forsendan fyrir slíku sérfræðileyfi er að viðkomandi hafi lokið grunnnámi á háskólastigi í viðkomandi fagi, sbr. 2. grein um starfsheiti auk diplóma- eða meistaranámi sem er að öllu jöfnu 80-120 eininga nám á framhaldsstigi háskóla.

Samkvæmt 6. grein reglugerðanna eru skilyrði fyrir sérfræðileyfi eftirfarandi:

Viðkomandi skal hafa:

  • lokið grunnnámi á háskólastigi í viðkomandi fagi, sbr. 2. gr um starfsheiti,
  • lokið meistaraprófi eða doktorsprófi í viðkomandi fagi frá viðurkenndum háskóla eða hafa sambærilega menntun, og
  • starfað við fagið að loknu því prófi í að minnsta kosti 2 ár í fullu starfi á því sérsviði sem umsókn um sérfræðileyfið tekur til. Sé starfshlutfall lægra lengist starfstíminn sem því nemur. Auk þess þurfa hjúkrunarfræðingar að starfa undir leiðsögn sérfræðings í hjúkrun á meðan á tímabilinu stendur.

Fyrirliggjandi reglugerð um sérfræðileyfi fyrir sjúkraliða er að mati Fíh, því ekki í neinu samræmi við þær forsendur sem í dag eru fyrir veittum sérfræðileyfum innan heilbrigðiskerfisins. Um er að ræða grunnám sjúkraliða sem er á framhaldsskólastigi og viðbótin er 60 einingar í fagnámi sem veitir diplómu á grunnstigi háskólanáms en ekki formlega prófgráðu. Auk þess er engin krafa gerð um að starfa við fagið í að minnsta kosti 2 ár í fullu starfi að loknu prófi eins og hjá öðrum heilbrigðisstéttum. Í tilfelli hjúkrunarfræðinga er um að ræða tveggja ára starfsþjálfun, ýmist undir handleiðslu reynds sérfræðings í hjúkrun eða sérstakt starfsnám til sérfræðiviðurkenningar í tvö ár sem í dag er til staðar á Landspítala. Hér skortir því allt samræmi við núverandi reglugerðir og með öllu óásættanlegt að áform séu í fagráðuneyti heilbrigðisstétta að veita einni stétt slíkan afslátt af sérfræðileyfi innan heilbrigðiskerfisins.

Starfssvið sérfræðings í hjúkrun er fjölþætt starf og skiptist í fimm meginhlutverk; hjúkrun, fræðslu/kennslu, ráðgjöf, rannsóknir, gæða- og þróunarstörf og faglega þróun. Þegar fagnám sjúkraliða á grunnstigi háskólanáms er rýnt, uppfyllir það engan veginn þær forsendur sem þurfa að vera til staðar að mati Fíh til að geta talist sérfræðingur. Meginmarkmið fagnámsins er að styrkja og auka þekkingu og færni sjúkraliða en kemur ekki inn á þá þætti sérfræðingsstarfsins sem lúta til að mynda að rannsóknum, gæða- og þróunarstörfum og ráðgjöf sem vega mjög þungt hjá hjúkrunarfræðingum, sem og öðrum heilbrigðisstéttum með sérfræðileyfi.

Í fyrirliggjandi reglugerðardrögum er talað um sérfræðileyfi í sjúkraliðun og skal það standa á traustum fræðilegum grunni og eiga sér samsvörun á viðurkenndum alþjóðlegum vettvangi. Orðið sjúkraliðun á sér enga stoð í þeim fræðum sem námið byggir á. Tilgangur sjúkraliðanáms er að undirbúa nemendur undir krefjandi störf við hjúkrun og kemur það skýrt fram, bæði hjá Sjúkraliðafélagi Íslands og framhaldsskólum þar sem sjúkraliðanámið er kennt. Jafnframt er áherslan í fagnámi sjúkraliða við Háskólann á Akureyri á sérhæfingu í hjúkrun. Sjúkraliðar, eins og hjúkrunarfræðingar, sinna hjúkrun. Hjúkrunarfræði byggir á traustum vísindalegum grunni með viðurkennda samsvörun á alþjóðlegum vettvangi og eiga kenningar og rannsóknir í hjúkrunarfræði sér langa sögu og ríka þekkingarsköpun. Nám sjúkraliða og þekking byggir á hjúkrunarfræði en ekki sjúkraliðun. Engin hugmyndafræði, kenningar, kennismiðir né rannsóknir eru þekktar í sjúkraliðun og því vekur furðu að slíkt sé sett fram í þessum reglugerðardrögum. Dæmi er um erlendis að sjúkraliðar afli sér framhaldsmenntunar á einhverju sérsviði hjúkrunar og leiðir það þá til sérhæfingar þeirra og teljast sérmenntaðir sjúkraliðar en ekki sérfræðingar. Því telur Fíh að hér sé um misskilning og hugtakarugling að ræða, þ.e. sérhæfingu en ekki menntun á einu sviði hjúkrunar sem veitir sérfræðileyfi.

Í dag hafa um 50% starfandi hjúkrunarfræðinga á Landspítala lokið diplóma eða meistaranámi (80 – 120 ECTS) á framhaldsstigi háskólanáms og meginþorri þeirra innan hjúkrunar. Það sama er að segja um 40% starfandi hjúkrunarfræðinga annars vegar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og hins vegar á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þetta eru 3 stærstu vinnustaðir hjúkrunarfræðinga og telja um 80% starfandi hjúkrunarfræðinga á landinu. Þessir hjúkrunarfræðingar geta ekki sótt um sérfræðingsleyfi á grunni sinnar framhaldsmenntunar eingöngu en hafa sérhæft sig á ákveðnu sérsviði í hjúkrun. Aukin menntun er þó metin til launaframgangs. Að mati Fíh hefur ekki verið nægilega vel ígrundað hvað reglugerðardrögin geta þýtt fyrir þennan hóp hjúkrunarfræðinga, sem nú þegar hefur mun meiri menntun á hærra menntunarstigi en fagnám sjúkraliða er, færu drögin í gegn.

Í ljósi hækkandi aldurs þjóðarinnar og flóknari heilsufarsvandamála, krefst hjúkrun og umönnun skjólstæðinga hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða enn frekari sérfræðiþekkingar og sérhæfingar. Fíh hefur því fagnað frekara námi sjúkraliða og telur það af hinu góða. Aftur á móti skal í upphafi endinn skoða og spurningunum um hvert verksvið sjúkraliða skal vera sem lokið hafa diplómanámi á grunnstigi háskólanáms eða hvert verður þeirra ábyrgðarsvið í starfi ekki verið svarað. Þessu er mjög brýnt að heilbrigðisráðuneytið svari, áður en lengra er haldið.

Fíh mótmælir harðlega ofangreindum reglugerðardrögum og hvetur heilbrigðisráðuneytið til að draga þau til baka.

Að lokum vill Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga koma á framfæri vilja sínum til að koma að frekari vinnu við að skilgreina störf, menntun og starfsleyfi þeirra sem sinna hjúkrun á Íslandi.