Fara á efnissvæði
Umsögn

Umsögn um drög að reglum um fjárframlög háskóla

Umsögn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um drög að reglum um fjárframlög háskóla. Mál nr. 192/2023.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar tækifæri til umsagnar um drög að reglum um fjárframlög háskóla. Fíh fagnar jafnframt markmiðum nýrra reglna sem er að auka gagnsæi í fjárveitingum til háskóla og hvetja til aukinna gæða í kennslu og rannsóknum.

Í ár eru 50 ár frá því að nám í hjúkrunarfræði hófst á háskólastigi á Íslandi og varð þá bylting í hjúkrunarfræðinámi í Evrópu. Nám hjúkrunarfræðinga á Íslandi er meðal þess besta á heimsvísu samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum. Mikilvægt er að viðhalda gæðum námsins og þeirri breidd í þekkingu og færni sem nemendur öðlast á námstímanum. Áhersla hefur verið lögð á krefjandi og heildstætt nám sem undirbýr hjúkrunarfræðinga til að sinna allri almennri hjúkrun á öllum sérsviðum á öllu landinu.

Kennsla í klínískri hjúkrun hefst strax á fyrsta námsári en góðir og nútímalegir kennsluhættir eru einkennandi fyrir öll námsárin. Aukin þörf er fyrir hjúkrunarfræðinga og námið er samfélagslega mikilvægt. Það þarf fjölbreytta kennsluhætti, t.a.m. herminám, öflugt lausnaleitarnám og nýtingu tækninnar til þess að áfram verði boðið upp á framúrskarandi nám í hjúkrunarfræði á Íslandi og því þarf réttláta fjárveitingu.

Í greinargerð sem finna má í samráðsgátt stjórnvalda með drögum um reglur um fjárframlög til háskóla er hjúkrunarfræði sett í flokk C. Þar kemur fram að röðun í flokka sé samkvæmt ISCED flokkun, annar vegar frá 1997 og hins vegar frá 2013, en þar er klínískum heilbrigðisgreinum s.s. hjúkrunarfræði, ljósmóðurfræði, læknisfræði, sjúkraþjálfun og tannlæknisfræði, ekki raðað í mismunandi flokka. Ekki er heldur vitað til þess að gerð hafi verið úttekt eða kerfisbundið mat af hálfu opinberra aðila eða annarra á kennsluháttum klínískra heilbrigðisvísindagreina á Íslandi m.t.t. reikniflokka og fjár/kostnaðar. Kennsla í hjúkrunarfræði er flókin og þegar tekið er tillit til kennsluhátta og eðli þeirrar kennslu sem námsgreinarnar krefjast, er ljóst að hjúkrunarfræði er gróflega rangflokkuð í drögunum. Flokkur C lýsir á engan hátt þeirri kennslu sem hjúkrun, sem klínísk fræðigrein, krefst. Í 5. gr. segir að við flokkun skuli fylgja ákveðnum viðmiðum, segir þá um flokk C „almennt bóknám með sérhæfðum búnaði og / eða starfsnámi og / eða krefst sérhæfðs húsnæðis, stuðull 2“. Til samanburðar eru viðmið fyrir flokk D „listnám, búvísindi, læknisfræði og tannlæknisfræði, stuðull 4“. Í drögunum og greinargerð með henni kemur síðan fram að m.a. sé tekið mið af kennsluháttum. Hér skal enn bent á að hjúkrunarfræði krefst hvort tveggja fjölbreyttra kennsluhátta og nákvæmrar leiðbeiningar og þjálfunar einstaklinga og smærri hópa. Telur Fíh því með öllu óásættanlegt að hjúkrunarfræði raðist í flokk C. Viðurkennt er í dag að kennsla í hjúkrunarfræði krefst nákvæmrar einstaklingsmiðaðrar leiðsagnar og kennslu í litlum hópum, við afar sérhæfðar aðstæður og ætti því með réttu að vera í sama fjármögnunarflokki og aðrar klínískar vísindalegar heilbrigðisgreinar, þ.e. flokki D skv. fyrirliggjandi drögum að nýjum reglum um fjárframlög til háskóla.

Í skýrslunni Tillögur til fjölgunar útskrifaðra hjúkrunarfræðinga sem Heilbrigðisráðuneytið gaf út árið 2020 er bent á mikilvægi akademískra kennara, sérfræðikennara, aðbúnað í kennsluhúsnæði og klíník, auk stuðnings við nemendur, sem grunnforsendur farsæls náms til framtíðar. Byggt á niðurstöðum þeirrar skýrslu er ótrúlegt að ekki skuli nýtt tækifærið nú við gerð reglna um fjárframlög til háskóla, og leiðrétt löngu tímabærar breytingar á fjárveitingum til háskóla, og þá ekki síst það réttlætismál að leiðrétta fjármögnun í hjúkrunarfræðinámi þar sem ákall er um framtíðarfjölgun hjúkrunarfræðinga.

Að lokum vill Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga koma á framfæri vilja sínum til að koma að frekari samstarfi við yfirvöld um reglur að fjárframlögum til háskóla.