Fara á efnissvæði
Umsögn

Umsögn um geðheilbrigðismál fyrir árin 2023-2027

Umsögn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um tillögu til þingsályktunar í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023-2027, 857. mál.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) fagnar nýrri aðgerðaráætlun heilbrigðisráðuneytisins í geðheilbrigðismálum og er það álit Fíh að í henni eru að finna mikilvægar tillögur að bættri geðheilbrigðisþjónustu. Ánægjulegt er meðal annars að sjá sérstaka áherslu á geðheilbrigðisþjónustu barna frá fæðingu og út menntaskóla árin.

Fíh vísar í fyrri umsögn félagsins frá 22. mars 2022 þar sem fram kemur að áhersla er lögð á að notandinn sé í fyrirrúmi og þjónusta við einstaklinga með geðraskanir og fjölskyldur þeirra þarf að vera samþætt og samfelld auk forvarna sem eru undirstaða góðrar heilbrigðisþjónustu. Er það í samræmi við þriðja heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun um heilsu og vellíðan sem og markmið og undirmarkmið aðgerðaráætlunnar.

Í skýrslu Fíh og fagdeildar geðhjúkrunarfræðinga, Geðhjúkrun, framlag hjúkrunar-fræðinga til eflingar geðheilbrigðisþjónustu á landinu, frá júní 2017, kemur fram að svo þjónusta við einstaklinga með geðræn vandamál verði einstaklingsmiðuð, heildræn og örugg, þarf að vera til staðar þekking og færni í geðhjúkrun auk viðeigandi mönnunar geðhjúkrunarfræðinga og annars fagfólks. Fíh ítrekar því mögulegt framlag geðhjúkrunarfræðinga og geðhjúkrunar til eflingar geðheilbrigðisþjónustu hér á landi.

Í aðgerðaráætluninni er tekið fram að meta þurfi mönnun í samræmi við hlutverk og verkefni geðheilbrigðisþjónustunnar. Í dag eru engin viðurkennd mönnunarviðmið í hjúkrun og víða annars staðar í heilbrigðisþjónustunni. Því er mjög brýnt að þessu markmiði verði náð í aðgerðarætluninni svo hægt sé að tryggja mönnun i samræmi við hlutverk og verkefni geðheilbrigðisþjónustunnar.

Í aðgerðaráætluninni kemur fram að núverandi sérnám heilbrigðisstétta verði fullfjármagnað og Fíh ítrekar að auka þurfi fjármagn til Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri til að byggja upp frekari sérfræðimenntun geðhjúkrunarfræðinga og fjölga þarf sérfræðingum í geðhjúkrun. Öryggi notenda og gæði þjónustunnar er undirstaða að góðri heilsu og vellíðan almennings og eykst með aukinni menntun hjúkrunarfræðinga. Ráða þarf fleiri geðhjúkrunarfræðinga og sérfræðinga í geðhjúkrun til starfa í svo hægt að ná markmiðum aðgerðaráætlunarinnar.

Fíh tekur heilshugar undir það að skólaheilsugæsla í framhaldsskólum verði þróuð með sérstakri áherslu á geðrækt og forvarnir. Skólahjúkrunarfræðingar gegna mikilvægu starfi þar sem þeir vinna að forvörnum og lífstílstengdum heilsueflandi aðgerðum og inngripum á sviði geðheilbrigðismála.

Í stefnu Fíh í hjúkrunar- og heilbrigðismálum til ársins 2030 kemur fram að hjúkrun er ein af meginstoðum heilbrigðisþjónustunnar og bera hjúkrunarfræðingar ábyrgð á hjúkrunarþjónustu í landinu, þ.m.t. geðhjúkrun.

Stefnumið Fíh til 2030 sem tengjast geðhjúkrun eru:

  • Sérfræðingar í geðhjúkrun starfa sjálfstætt sem meðferðaraðilar í hugrænni atferlismeðferð, ráðgjöf og gagnreyndri samtalsmeðferð.
  • Öflugar hjúkrunarmóttökur eru til staðar innan heilbrigðiskerfisins sem sinna 1. og 2. stigs heilbrigðisþjónustu.
  • Sérfræðingar í endurhæfingarhjúkrun eru virkir meðferðaraðilar í endurhæfingu á sérhæfðum endurhæfingarmiðstöðvum, í heilsugæslu, á geðdeildum og göngudeildum.
  • Fjarheilbrigðisþjónusta og rafrænar lausnir eru virkir þættir í forvörnum, meðferð endurhæfingu og eftirfylgd hjúkrunarfræðinga við skjólstæðinga sinna.
  • Í lögum um Sjúkratryggingar er kveðið á um að sjúkratryggingar taki til nauðsynlegrar hjúkrunarmeðferðar framkvæmda af sérfræðingum í hjúkrun og til nauðsynlegrar geðheilbrigðisþjónustu sem veitt er af sérfræðingum í geðhjúkrun og setningu reglugerðar þar um.
  • Öryggismenning innan heilbrigðiskerfisins sé á þann hátt að heilbrigðisstarfsfólk sé ekki ásakað eða sakfellt fyrir að benda á það sem úrskeiðis fer heldur sé tekið á óvæntum atvikum með þeim hætti að læra af þeim og leitast við að koma í veg fyrir að þau endurtaki sig.

Eins og sjá má eru ofangreind stefnumið Fíh í hjúkrunar- og heilbrigðismálum í samræmi við tillögur í aðgerðaráætluninni og sýnir fram á mikilvægt hlutverk, hæfni hjúkrunarfræðinga og reynslu í geðheilbrigðismálum. Er nauðsynlegt fyrir yfirvöld að nýta slíka þekkingu meðferðaraðila við gerð áætlunarinnar.

Að lokum vill Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga koma á framfæri vilja sínum til að koma að frekari samstarfi við yfirvöld um stefnumótun í geðheilbrigðismálum.