Í samráðsgátt stjórnvalda er að finna áform um breytingu á lögum nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn varðandi hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsmanna ríkisins í 75 ár. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) vill koma á framfæri að breytingarnar verði í samræmi við gildandi kjarasamninga og að þær munu ekki hafa nein áhrif á lífeyrisréttindi. Í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða kemur fram að öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er rétt og skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði frá og með 16 ára til 70 ára aldurs. Verði þessar breytingar samþykktar þarf að tryggja að lífeyrisréttindi hjúkrunarfræðinga haldist og að framlag hjúkrunarfræðings og mótframlag verði í samræmi við starfsaldur.
Markmið lagasetningarinnar er að mæta mönnunarvanda í opinberri heilbrigðisþjónustu. Fíh hefur ákveðnar vísbendingar um að þessar aðgerðir munu ekki leysa hann, því einungis 25% hjúkrunarfræðinga á aldrinum 68 til 70 ára eru enn að störfum. Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 kemur fram að mönnun heilbrigðisþjónustunnar er forsenda þess að hægt sé að veita örugga og skilvirka heilbrigðisþjónustu og því afar mikilvægt að tryggja næga mönnun sem fellur að þörfum heilbrigðiskerfisins. Í stefnu Fíh í hjúkrunar- og heilbrigðismálum kemur fram að þrátt fyrir að hjúkrunarfræðingar séu fjölmennasta heilbrigðisstéttin hér á landi er sífelldur viðvarandi skortur á þeim til starfa. Vöntun á hjúkrunarfræðingum er alvarlegt vandamál sem vegur að öryggi innan heilbrigðisþjónustunnar og stendur í vegi fyrir því að unnt sé að veita nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og nýta innviði heilbrigðiskerfisins til fullnustu. Í tillögum heilbrigðisráðuneytisins um Mönnun hjúkrunarfræðinga, frá árinu 2020, er meðal annars lagt til að gera þurfi breytingar á starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga, að heilbrigðisþjónustan sé ávallt mönnuð hæfu starfsfólki með þá menntun sem þörf er á. Skilgreina þarf mönnun og samsetningu m.t.t. þjónustuþarfar heilbrigðisþjónustunnar og setja fram viðmið um mönnum heilbrigðisstofnana.
Að lokum vill Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga koma á framfæri vilja sínum að koma að frekari vinnu við verkefnið.