Fara á efnissvæði
Umsögn

Umsögn um lagafrumvarp um dánaraðstoð

Umsögn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um þingmál nr. 771: Lagafrumvarp um dánaraðstoð

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar tækifærið til þess að senda inn umsögn varðandi lagasetningu um dánaraðstoð.

Í siðareglum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga segir:

Hjúkrunarfræðingur er málsvari skjólstæðings og stendur vörð um reisn hans og rétt og stuðlar að því að komið sé fram af virðingu og heiðarleika. Hjúkrunarfræðingur stendur vörð um sjálfsákvörðunarrétt skjólstæðings og rétt til bestu mögulegrar þjónustu á hverjum tíma.

Enn fremur segir:

Hjúkrunarfræðingur hefur samráð við skjólstæðing og virðir rétt hans til að taka ákvarðanir um eigin meðferð.

Og

Hjúkrunarfræðingur stendur vörð um rétt skjólstæðings til að deyja með reisn.

Ekkert innan siðareglna Fíh er beinlínis andstætt dánaraðstoð. Aftur á móti er viðfangsefnið vandmeðfarið og huga þarf vel að ýmsum hliðum þessa siðferðilega flókna máls.

Frumvarp þetta sem fjallað er um hér, er að miklu leyti byggt á skýrslu heilbrigðisráðherra um viðhorf heilbrigðisstarfsfólks, sjúklinga og almennings til dánaraðstoðar. Sú skýrsla fjallar um viðhorfskönnun sem heilbrigðisráðuneyti fól Gallup að framkvæma á vordögum 2023. Þar er því haldið fram að 86% hjúkrunarfræðinga séu hlynntir því að dánaraðstoð sé leyfð á Íslandi. Það er ekki svo enda úrtakið aðeins 400 hjúkrunarfræðingar og einungis 115 sem tóku afstöðu við spurningunni hvort þeir væru hlynntir eða andvígir þvði að dánaraðstoð verði leyfð hér á landi. Ef úrtak og svarhlutfall er sett í samhengi við fjölda starfandi hjúkrunarfræðinga þá voru það eingöngu 3% starfandi hjúkrunarfræðinga sem svöruðu þessari spurningu. Því er alls ekki hægt að álykta út frá þessari viðhorfskönnun, eða að taka ákvarðanir um svo flókið og viðkvæmt mál sem dánaraðstoð er, út frá svo litlu svarhlutfalli.

Að auki hefur hugtakaruglingur og þróun í íslensku máli gert allan samanburð við fyrri viðhorfskannanir um efnið ómarktækan. Gætt hefur misskilnings þegar spurt er út í dánaraðstoð og það talið hliðstæða líknarmeðferðar sem það er ekki. Til að niðurstaða könnunar endurspegli raunverulega afstöðu heilbrigðisstarfsfólks er því mikilvægt að hugtök séu rétt notuð og í samræmi við það tungutak sem notað er í heilbrigðisþjónustu.

Orðun spurninga skapar ákveðin hughrif og hlutdrægni getur gætt í því hvernig málefni er sett fram. Í því samhengi má benda á Félagsstofnun HÍ sem hlutlausan og faglegan aðila með mikla reynslu í könnunum af þessu tagi. Að auki kallar viðfangsefnið á dýpri þekkingu á efninu af hendi löggjafans heldur en þá sem fæst með megindlegum aðferðum og stökum könnunum.

Innan Fíh starfa um 30 deildir sem eru landsvæða- og sérgreinaskiptar og vinna að framgangi hjúkrunar hver á sínu sérsviði. Fíh hefur undanfarið átt samtal við deildirnar um frumvarp þetta er liggur hér fyrir og í þeim samtölum er ljóst að ekki er einhugur við frumvarpið eins og það lítur út í dag.

Eitt helsta siðferðilega álitaefnið er að ef lagasetning um dánaraðstoð verður að veruleika, mun skapast ákveðin þrýstingur á sjúklinga með kostnaðarsama og langvinna sjúkdóma að velja dánaraðstoð sem leið út úr sveltu heilbrigðiskerfi þar sem skortur á umönnun er vaxandi vandamál. Því þarf að vera mjög skýrt hverjum yrði veitt dánaraðstoð og telur Fíh núverandi frumvarp ekki nógu afgerandi hvað þennan þátt varðar. Skilyrðin fyrir dánaraðstoð eru of víð að mati Fíh. Ólæknandi sjúkdómur og ómeðhöndlanleg og óbærileg þjáning geta breyst á skömmum tíma með framförum í meðferðum ýmissa sjúkdóma og einkenna. Því telur Fíh að einnig þurfi að setja inn frekari ákvæði um lokastig ákveðinna sjúkdóma.

Fíh telur einnig að vöntun sé á aðkomu hjúkrunarfræðinga í frumvarpinu, sem lýsir ákveðnu þekkingarleysi á störfum þeirra og þeim hópum sjúklinga sem dánaraðstoð gæti átt við. Bæði hvað varðar meðferðarsamband við sjúkling sem og við lyfjaumsýslu. Hjúkrunarfræðingar starfa í mikilli nálægð við sjúkling, eru hans málsvarar, mynda náið meðferðarsamband við hann og hafa þannig einstaka sýn og þekkingu á ferli ákvörðunartöku hans. Einnig eru það hjúkrunarfræðingar í langflestum tilfellum sem blanda og gefa sjúklingum lyf. Því telur Fíh það eðlilegt að hjúkrunarfræðingar og þá sér í lagi sérfræðingar í hjúkrun hafi aðkomu að ákvörðunum og eftirliti hjá þessum viðkvæma hópi sjúklinga, en eitt af grunnhlutverkum sérfræðinga í hjúkrun er sérfræðiráðgjöf.

Í frumvarpinu er eingöngu rætt um rétt lækna til þess að skorast undan því að veita dánaraðstoð ef framkvæmdin stangast á við trúarleg eða siðferðileg viðhorf hans. Mikilvægt er að tilgreina aðrar heilbrigðisstéttir hafi þann rétt einnig en í siðareglum íslenskra hjúkrunarfræðinga segir:

Hjúkrunarfræðing má leysa frá lögbundnum skyldum sínum ef þær brjóta í bága við siðferðisvitund hans.

Rannsóknir hafa sýnt að þátttaka í dánaraðstoð getur leitt til andlegrar þjáningar og því er stuðningur og eftirfylgni allra hlutaðeigandi mikilvægur þáttur sem ekkert er vikið að í frumvarpinu, og nauðsynlegt er að bæta úr því.

Fíh telur að umræðan sé of stutt á veg komin til þess að skynsamlegt sé að lögleiða dánaraðstoð á Íslandi að svo stöddu. Fíh telur að frekari umræðu sé þörf og þroska þurfi umræðuna enn frekar. Meðal hjúkrunarfræðinga er grundvallar mismunur á viðhorfum til dánaraðstoðar þar sem togast á sjálfsákvörðunarréttur sjúklings til dánaraðstoðar og þær skyldur sem sá verknaður leggur á heilbrigðisstarfsmanninn. Hefð er innan hjúkrunarfræði að fylgja hugmyndafræði líknarmeðferðar og réttinum til þess að deyja. Hefur þeirri mannúðlegu stefnu verið fylgt þar sem kærkominn dauði er ekki hindraður og markmið meðferðar er að líkna og lina þjáningar. Innan þeirra fræða er mikil framþróun sem mikilvægt er að styrkja og efla.

Að mati Fíh þarf löggjafinn að eiga dýpra og efnismeira samtal við fagfélög heilbrigðisstétta ásamt hagsmunasamtökum viðkvæmra hópa, Embætti Landlæknis og sérfræðinga í siðfræði ef halda á lengra.

Að lokum óskar Fíh eindregið eftir samráði við frekari lagasetningar og umræðu um viðfangsefni dánaraðstoðar.