Fara á efnissvæði
Umsögn

Umsögn um lagaumbreytingu á lögum um ávana- og fíkniefni

Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) og fagdeild geðhjúkrunarfræðinga tekur hér með heils hugar undir frumvarp heilbrigðisráðherra til laga um breytingu á lögum um ávana-og fíkniefni, nr.65/1974, um afglæpavæðingu neysluskammta.

Efni: Umsögn um frumvarp til lagaumbreytingu á lögum nr. 65/1974, um ávana-og fíkniefni (afglæpavæðing neysluskammta)

Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) og fagdeild geðhjúkrunarfræðinga tekur hér með heils hugar undir frumvarp heilbrigðisráðherra til laga um breytingu á lögum um ávana-og fíkniefni, nr.65/1974, um afglæpavæðingu neysluskammta.

Það er fagnaðarefni að frumvarpið boðar skref í átt að því að meðhöndla skuli vanda vímuefnanotenda í íslensku samfélagi í heilbrigðiskerfinu fremur en dómskerfinu. Refsistefna eykur á jaðarsetningu og takmarkar möguleika einstaklinga á bata, bæði hvað varðar líkamlegt heilbrigði og samfélagslega þátttöku. Með því að afglæpavæða meðferð og vörslu vímuefna í skammtastærðum sem ætlaðar eru til eigin nota er tekið mikilvægt lýðheilsuskref sem getur aukið jákvæða heilsufarslega útkomu, líkt og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna getur um. Þá fagnar stjórn Fíh og fagdeild geðhjúkrunarfræðinga umfjöllun um lögleiðingu í frumvarpinu þar sem afglæpavæðing ein og sér dugar ekki til að lýðheilsa og mannréttindi einstaklinga sem eru hvað jaðarsettastir í samfélaginu sé tryggð. Það þarf að leita allra leiða til að draga úr jaðarsetningu og fækka þröskuldum að heilbrigðis-og félagsþjónustu.

Líkt og í fyrri umsögn ítrekar stjórn Fíh og fagdeild geðhjúkrunarfræðinga mikilvægi þess að áformin verði innleidd sem hluti af opinberri stefnu málaflokksins, bæði hvað varðar áfengis-og vímuefnavarnir en líka heimilisleysi.

Til viðbótar skal áréttað að hugmyndafræði skaðaminnkunar hefur sterka skírskotun til lýðheilsufræða og mannréttinda. Kjarni hugmyndafræðinnar er að draga úr þeim skaðlegu áhrifum sem vímuefnanotkun getur haft á notandann, aðstandendur og samfélagið.

Að lokum vill stjórn Fíh og fagdeild geðhjúkrunarfræðinga leggja áherslu á fyrri umsögn og ítreka að félagið býður fram sérþekkingu sinna félagsmanna sem nálgast málefnin heildrænt og eru reiðubúnir til að vera heilbrigðisráðuneytinu til ráðgjafar um áformin.