Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar fyrir að fá tækifæri til að veita umsögn um þingsályktunartillögu varðandi neyðargeðheilbrigðisteymi og fræðslu viðbragðsaðila.
Ljóst er að bæta þarf þjónustu við einstaklinga á öllum aldri sem glíma við geðraskanir til lengri eða skemmri tíma. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga leggur áherslu á að þjónusta við einstaklinga með geðraskanir og fjölskyldur þeirra þarf að vera samþætt og samfelld auk forvarna sem eru undirstaða góðrar heilbrigðisþjónustu. Til þess að svo megi verða þarf þverfaglega nálgun og meðferð þar sem margar fagstéttir koma að málum.
Íslenskir hjúkrunarfræðingar hafa víðtæka, hagnýta og fræðilega þekkingu á sviði almennrar og sérhæfðrar hjúkrunar. Styrkur geðhjúkrunarfræðinga sem starfa innan geðheilbrigðisþjónustunnar er m.a. þekking þeirra á lífeðlisfræðilegum ferlum, sjúkdómafræði og meðferð líkamlegra kvilla sem skapar þá heildrænu nálgun sem geðhjúkrunarfræðingar beita í störfum sínum. Geðhjúkrunarfræðingar hafa víðtæka þekkingu og reynslu sem nýtist vel í þverfaglegum teymum. Þátttaka þeirra í þverfaglegum teymum ásamt aukinni sérhæfðri meðferð á sínum sérsviðum eflir geðheilbrigði landsmanna og þjónustar einstaklinga með geðræn vandamál og geðsjúkdóma á gagnreyndan hátt með umhyggju fyrir einstaklingnum og fjölskyldu hans.
Hjúkrunarfræðingar hafa menntun og reynslu til að starfa í og leiða þverfagleg teymi sem er nauðsynlegt til að slík þjónusta verði virk og nýtist skjólstæðingunum á sem bestan hátt. Sem dæmi hafa þeir verið leiðandi í uppbyggingu og stýringu geðheilsuteyma, vettvangsgeð-og samfélagsgeðteyma og skaðaminnkandi þjónustu á vettvangi út um land t.d. Geðheilsustöð Breiðholts, Samfélagsgeðteymi geðsviðs Landspítala, Vettvangsgeðteymis Reykjavíkur, BUG teymi Sjúkrahússins á Akureyri, geðteymi HSS og Frú Ragnheiði. Það liggur mikil þekking og reynsla hjá geðhjúkrunarfræðingum sem vert er að nýta til áframhaldandi uppbyggingar geðheilsuteyma bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.
Geðhjúkrunarfræðingar eru því vel til þess fallnir að leiða og starfa í neyðargeðheilbrigðisteymi eins og því sem sett er fram í þingsályktunartillögu þessari. Einnig fellur þingsályktunartillagan sem fjallað er um vel að stefnu og sýn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hvað varðar þverfaglega nálgun og samþættingu þjónustu.
Skortur á mönnun er þó áhyggjuefni.
Ef þessi tillaga á að ná fram að ganga þarf að styrkja stöðu hjúkrunarfræðinga og þá sérstaklega sérfræðinga í hjúkrun. Til að heilbrigðisþjónustan geti sinnt þeim verkefnum sem henni er ætlað að sinna þarf nauðsynlega að tryggja nýliðun hjúkrunarfræðinga og snúa við atgervisflótta úr stéttinni. Það má gera með því m.a. að fjölga nemendum í hjúkrunarfræði, skapa aðlaðandi og öruggt starfsumhverfi, auka starfsánægju, minnka álag í starfi, huga að heilsueflingu, endurskoða vinnufyrirkomulag og efla sí- og endurmenntun. Jafnframt þarf að fjölga sérfræðingum í hjúkrun og víkka starfssvið þeirra með staðfestingu löggjafans. Auka þarf fé í fjölgun stöðugilda sérfræðinga í hjúkrun á öllum stigum heilbrigðisþjónustunnar svo fjöldi þeirra verði í samræmi við heilbrigðisþarfir landsmanna, en í dag er þar stórt gap sem afar brýnt er að laga.