Fara á efnissvæði
Umsögn

Umsögn um val, geymslu og meðferð lyfja

Umsögn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um breytingu á reglugerð nr. 241/2004 um val, geymslu og meðferð lyfja á sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnum.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) fagnar því að endurskoða eigi ofangreinda reglugerð. Nauðsynlegt er að vera vakandi fyrir tækifærum sem bæta heilbrigðisþjónustuna til sjúklinga og tryggja um leið enn frekar öryggi og gæði hennar. Jafnframt þarf að endurskoða störf heilbrigðisstétta og leita allra leiða til að hámarka nýtingu á menntun, hæfni og þekkingu heilbrigðisstarfsfólks við störf sín, án þess að öryggi og gæðum þjónustunnar sé ógnað á nokkurn hátt. Fíh vill koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri:

Ein algengustu mistök í heilbrigðisþjónustu eru lyfjamistök og geta þau haft alvarlegar afleiðingar fyrir öryggi sjúklinga eins og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur bent á. Af því tilefni var stofnað til alþjóðlegs átaks, Lyf án skaða, og er Fíh einn af bakhjörlunum í því stóra verkefni hér á landi. Umsýsla lyfja er flókið ferli og hefur til þessa verið m.a. í höndum og á ábyrgð hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra. Þetta ferli felst í því að taka til lyf sem læknir hefur ávísað, meta þörf fyrir lyf sem gefa má eftir þörfum, gefa sjúklingi lyfin, fylgjast með verkun þeirra og aukaverkunum, meta árangur og skrá lyfjagjöf. Hjúkrunarfræðingur verður að ganga úr skugga um hvort að réttu lyfi, skammti og lyfjaformi hafi verið ávísað til tiltekins sjúklings á tilteknum tíma, sbr. notkun vinnureglnanna um R-in 6 við lyfjagjafir. Eftir lyfjagjöf til sjúklings þarf að fylgjast náið með ástandi hans, meta áhrif hennar, fylgjast með mögulegum aukaverkunum, bregðast við og skrá. Ekki er síður mikilvægt að muna að hjúkrunarfræðingur þarf stundum að grípa inn í fyrirfram ákveðna lyfjagjöf þar sem hún getur haft áhrif á þá rannsókn/meðferð sem sjúklingur er að fara í/fá. Verður því viðkomandi að hafa þekkingu og menntun til að geta metið heildrænt þjónustuna til sjúklings en ekki bara einblína á lyfjagjöfina eina og sér. Þannig er hjúkrunarfræðingur síðasti hlekkurinn í öryggisneti stofnunarinnar þegar kemur að lyfjaumsýslu og að geta komið í veg fyrir lyfjamistök. Því er ljóst að lyfjaumsýsla og lyfjagjafir þurfa áfram að krefjast fullnægjandi menntunar og þjálfunar með öryggi sjúklings að leiðarljósi og á að fara fram á háskólastigi. Fíh telur því ekki raunhæft að ófaglærður starfsmaður geti framkvæmt þetta flókna ferli sem lyfjaumsýsla er.

Jafnframt er ofangreind breytingartillaga á reglugerðinni mjög óljós í hverju náms- og þjálfunarkröfurnar eiga að vera fólgnar og hvaða heilbrigðisstéttir eiga að koma að þessu. Það er ekki hlutverk Embættis landlæknis að setja fram námskeiðs- og menntunarkröfur heldur menntakerfisins, þó embættið sinni eftirlitshlutverki. Er það hlutverk Embætti landlæknis að fylgja eftir að menntunin sé í samræmi við Evrópulöggjöfina um grunnám í hjúkrunarfræði og taki mið af 3. gr. reglugerðar 512/2013 um menntun, réttindi og skyldur hjúkrunarfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og uppfylli jafnframt skilyrði tilskipunar 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi (Directive 2005/36/EC).

Samkvæmt 10. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 er fagleg ábyrgð á hjúkrunarþjónustu í höndum framkvæmdastjóra hjúkrunar og hjúkrunardeildarstjórnenda. Það skýtur því skökku við, eins og fram kemur í breytingartillögunni, að yfirlæknir eigi að geta veitt ófaglærðum starfsmanni leyfi til lyfjaumsýslu, að uppfylltum þjálfunarkröfum. Það eru hjúkrunardeildarstjóri sem annast daglegan rekstur og stjórnun hjúkrunardeildar og hafa þ.m.t. mannaforráð yfir m.a. ófaglærðu starfsfólki og sjúkraliðum. Hjúkrunardeildarstjóri hefur innsýn og yfirlit yfir hæfni og þekkingu starfsfólksins sem þar starfar við daglega umönnun sjúklinga, en ekki læknar. Jafnframt kemur fram í 16. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012 um aðstoðarmenn og nema, að það er heilbrigðisstarfsmaður sem ber ábyrgð á því að aðstoðarmenn og nemar hafi næga hæfni og þekkingu og fái nauðsynlegar leiðbeiningar til að inna af hendi störf sem hann felur þeim. Einnig skiptir máli að þar sem fagleg ábyrgð á veittri hjúkrunarþjónustu liggur hjá hjúkrunarstjórnanda, getur viðkomandi talist saknæmur samkvæmt núgildandi refsilöggjöf, fyrir þá þjónustu sem hans starfsfólk veitir. Er það með öllu óásættanlegt.

Fíh leggur því til að orðalag í b hluta 1. greinar breytingartillögunnar: „Í undantekningartilvikum getur yfirlæknir, á sína ábyrgð, veitt ófaglærðum starfsmanni heimild skv. 2. mgr. uppfylli sá starfsmaður þjálfunarkröfur embættis landlæknis“, verðið tekin út.

Fíh óskar eftir að koma að vinnunni í frekari útfærslu á þessu efni, ef af verður.