Efni: Umsögn við skýrslu starfshóps heilbrigðisráðherra um framtíðarskipulag heilbrigðisþjónustu fyrir börn og ungmenni með neyslu- og fíknivanda, mál nr. 133/2021.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar fyrir tækifæri til veita umsögn við skýrslu starfshóps heilbrigðisráðherra um Framtíðarskipulag heilbrigðisþjónustu fyrir og ungmenni með neyslu – og fíknivanda, og fagnar niðurstöðum hópsins en það er löngu tímabært að styrkja heilbrigðisþjónustu til barna og ungmenna með slíkan vanda. Fíh vill þó koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.
Í skýrslunni er lögð rík áhersla á heilsuvernd skólabarna þar sem markmiðið er að efla heilbrigði, þ.m.t. geðheilbrigði, barna og ungmenna á skólaaldri. Hjúkrunarfræðingar hafa verið í forystu frá upphafi í heilsuvernd og frumheilsugæslu og gegna meginhlutverki á þeim vettvangi um heim allan. Þekking hjúkrunarfræðinga og nálægð þeirra við almenning er grundvöllur markvissra forvarna og heilsueflingar og á sér stað á öllum þremur stigum heilbrigðisþjónustunnar. Er það í samræmi við þriðja heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun um heilsu og vellíðan.
Fíh hefur um árabil bent á nauðsyn þess að veita framhaldsskólanemum heilbrigðisþjónustu í framhaldsskólunum, þar sem m.a. rannsóknir sýna að ýmis áhættuhegðun margfaldast á því ári sem ungmenni útskrifast úr grunnskóla. Fíh telur brýnt að efla heilbrigðisþjónustu í framhaldsskólum enda engin markviss þjónusta veitt þar í dag og er það óásættanlegt. Hjúkrunarfræðingar eru sérlega vel fallnir til að sinna þessari heilbrigðisþjónustu þar sem menntun þeirra snýr að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu og sérhæfing hjúkrunarfræðinga í heilsugæsluhjúkrun felur m.a. í sér skólahjúkrun. Þeir hafa víðtæka þekkingu á þeim þáttum er lúta að heilsuvernd og heilsueflingu ungmenna í framhaldsskólum líkt og í grunnskólum og eru í lykilaðstöðu til að veita altækar forvarnir sem miða að því að efla verndandi þætti og draga úr áhrifum þekktra áhættuþátta á börnum og ungmennum. Skólahjúkrunarfræðingar eru einnig mikilvægir tengiliðir milli ungmennanna og heilsugæslunnar og þeirrar sérfræðiþjónustu sem hægt er að sækja þangað. Því fagnar Fíh sérstaklega tillögunni um stofnun svonefndra skólaheilsugæsluteyma sem geta skipt hér sköpum og einnig er nauðsynlegt að starfrækt verði fjölskylduteymi í öllum grunn- og framhaldsskólum landsins en því er ábótavant í dag.
Svo hægt sé að veita slíka samfellda sérfræðiþjónustu verður að styrkja öflug þverfagleg geðheilsuteymi sem skortur er á í heilsugæslunni í dag. Því þarf að ráða til starfa fleiri geðhjúkrunarfræðinga og sérfræðinga í geðhjúkrun sem yrðu mikilvægir aðilar í geðheilsuteymi heilsugæslunnar. Á þann hátt er hægt að mynda sterka og samfellda þjónustu úr grunn- og framhaldsskólum, inn í heilsugæsluna með viðeigandi inngripum og úrræðum, með heilsu og vellíðan barna og ungmenna að leiðarljósi. Einnig getur það styrkt enn frekar þá þjónustu sem þverfagleg teymi sérfræðiaðila geta veitt í svonefndu fjölskylduhúsi en Fíh styður heils hugar þá tillögu að slík hús verði stofnuð hér á landi svo hægt sé að veita heildstæðan þjónustuferil fyrir fjölskyldur landsins.
Auknu fjármagni þarf að veita til Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri til að hægt sé að auka frekara framboð á sérfræðimenntun heilsugæslu- og geðhjúkrunarfræðinga og nauðsynlegt er að fjölga sérfræðingum í heilsugæsluhjúkrun og geðhjúkrun svo þjónustan verði sem best úr garði gerð. Öryggi barna og ungmenna, sem og gæði þjónustunnar er undirstaðan að góðri heilsu og vellíðan þeirra og eykst ótvírætt með aukinni menntun hjúkrunarfræðinga.
Að lokum vill Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga koma á framfæri vilja sínum til að koma að frekari vinnu við nýtt framtíðarskipulag í heilbrigðisþjónustu fyrir börn og ungmenni með vímuefnavanda, þegar farið verður í það verkefni að setja markmið og mælanlegar leiðir til að ná þeim.
Umsögn við skýrslu starfshóps heilbrigðisráðherra um framtíðarskipulag heilbrigðisþjónustu fyrir börn og ungmenni með neyslu- og fíknivanda
Hjúkrunarfræðingar hafa verið í forystu frá upphafi í heilsuvernd og frumheilsugæslu og gegna meginhlutverki á þeim vettvangi um heim allan. Þekking hjúkrunarfræðinga og nálægð þeirra við almenning er grundvöllur markvissra forvarna og heilsueflingar og á sér stað á öllum þremur stigum heilbrigðisþjónustunnar.