Fara á efnissvæði
Viðtal

Vantar fleiri hjúkrunarfræðinga í doktorsnám

Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir, kennslustjóri Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar

Viðtal: Þórunn Sigurðardóttir | Myndir: Úr einkasafni

Í mars síðastliðnum tók Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir hjúkrunarfræðingur við starfi kennslustjóra Hjúkrunarog ljósmóðurfræðideildar Háskóla Íslands. Hún er þó ekki ókunnug starfi deildarinnar því frá árinu 2013 hefur hún sinnt þar kennslu í bráðahjúkrun, fyrst sem lektor og síðar dósent og prófessor. Auk þess gegndi hún starfi forstöðumanns á Rannsóknarstofu Landspítala og HÍ í bráðafræðum á árunum 2018 til 2023. Þórdís lauk doktorsnámi í heilbrigðisvísindum við Háskólann í Gautaborg, Sahlgrenska Akademin, árið 2011 og starfaði sem sérfræðingur á Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsinu á árunum 2011 til 2014.

„Starfsferillinn hefur skapast af tilviljunum og eftir á get ég sagt að það var ekkert endilega meðvitað hjá mér að feta þennan veg heldur voru þetta þær dyr sem opnuðust í hvert skipti. Þegar mig vantaði áskoranir og aðstæðurnar voru þannig að það hentaði fjölskyldunni þá fór ég í doktorsnám. Þetta var því ekki alveg meðvitað hjá mér að fara í doktorsnám. Ég vildi upprunalega fara í hjúkrun af því að mig langaði að vinna á spítala, vinna með sjúklingum og sjá hvert það leiddi mig. Þegar ég var lítil þá langaði mig til að vera kennari, þannig að þangað er ég komin líka.“

Hvernig kom það til að þú tókst við stöðu kennslustjóra? „Í fyrra var ég á þeim stað að mig langaði að breyta til þannig að ég sagði upp á spítalanum og er nú komin hingað sem kennslustjóri. Það er ekkert sem segir að ég verði hér alltaf, ég þarf alltaf að hafa nýjar áskoranir og verkefni sem ég get tekist á við. Ég hef verið kennslustjóri hjá Hjúkrunar- og ljósmóðurdeildinni síðan 1. mars en ég hef starfað hjá deildinni mun lengur, eða síðan árið 2013. Hér var ég í hálfri stöðu ásamt því að vera í 50% vinnu á Rannsóknarstofu í bráðafræðum. Ég er áfram prófessor í bráðahjúkrun og er svo kennslustjóri deildar á móti en hef líka verið í kennslumálum nánast frá því ég byrjaði. Þegar ég hóf störf við deildina fór ég strax í nám í kennslufræði fyrir háskólakennara og fór ég þá í kjölfarið inn í kennslumálanefnd Heilbrigðisvísindasviðs og í námsnefnd Hjúkrunarfræðideildar. Núna er ég formaður kennslumálanefndar sviðsins og fulltrúi í kennslumálanefnd háskólaráðs og finnst þau málefni mjög áhugaverð.“

Rödd hjúkrunarfræðinnar þarf að heyrast

„Í kennslumálanefndunum eru málefni fleiri aðila en bara okkar deildar, við hugum að háskólamenntun og hlustum bæði á raddir kennara og nemenda og reynum að gera það besta úr því. Mér finnst ekki síður mikilvægt að vera rödd hjúkrunarfræðinnar í víðara samhengi og vil tala fyrir þeim málefnum sem eru sérstök á heilbrigðisvísindasviði miðað við Háskólann. Okkar kennsluhættir eru mögulega öðruvísi en á öðrum sviðum skólans. Við erum ekki einu sinni með venjuleg misseri, við byrjum fyrr að kenna og erum með blöndu af klíník og hefðbundinni skólastofukennslu. Við erum með færnistofu og byggjum námsmat upp á verkefnum og prófum, erum með marga nemendur og stórt svið og okkar raddir þurfa að heyrast. Vegna staðsetningar höfum við líka verið svolítið utan við Háskólann, við erum ekki saman í húsi og erum dreifð um höfuðborgarsvæðið, allt frá Grafarholti og vestur á Haga. Það þurfum við að fá Háskólann í heild til að hugsa um.“

Þórdís Katrín ásamt kollegum á ráðstefnu ESNO í júní 2023.

Kennsla til framtíðar í hjúkrunarfræði

Í hverju er starf þitt fólgið? „Ég er kennslustjóri allrar deildarinnar og allra námsstiga. Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild er með grunnnám, framhaldsnám, diplómanám, meistaranám og doktorsnám. Mitt mikilvægasta hlutverk næstu árin verður að skoða og endurskoða námsskrárnar. Við erum mikið að velta því fyrir okkur hvernig á að kenna hjúkrunarfræði til framtíðar og erum ekki ein í þeim pælingum, það er verið að huga að því um allan heiminn. Við á Íslandi erum með fjögurra ára BS-nám og starfsleyfi í kjölfarið, á meðan margar aðrar faggreinar eru með þriggja ára nám og tvö ár í meistaranámi sem er í samræmi við námsviðmið í Evrópu. Stundum er fyrirkomulagið þannig að starfsleyfi er veitt eftir meistaranám. Það eru til ýmis módel í háskólum sem við þurfum að skoða og spá í. Við erum kannski svolítið að tapa á því sem hjúkrunarfræðingar að vera ekki komin fyrr með BS-gráðuna. Þetta skiptir máli kjaralega, faglega og virðingarlega.“

Áskoranir í fjársveltu umhverfi

„Svo eru það kennsluhættir daglega og hvernig við tökumst á við stækkandi nemendahóp. Það á að vera pláss fyrir 140 nemendur, það miðast við klínísku plássin, en það er samt sem áður púsl að koma þeim fyrir, þetta er áskorun. Eitt af því sem mér finnst erfiðast er að við erum ekki einu sinni með skólastofur sem taka svona marga nemendur. Við erum staðnámsskóli og kennum í staðnámi en erum ekki með kennsluhúsnæði sem getur tekið á móti nemendum, a.m.k ekki hér í Eirbergi. Það er verið að beita ýmsum tæknilausnum, með því að streyma eða taka upp fyrirlestra fyrir þá sem ekki eru í tímum en við þurfum jafnvel að ganga enn lengra í þeim lausnum. Eins og staðan er núna þá erum við samt ekkert endilega með fjárveitingu fyrir því, þar má t.d. nefna að fara að kenna í minni hópum, tvíkenna eða eitthvað slíkt. Við erum hvorki með kennarafjölda, aðstöðu né fjárveitingu til þess að gera það. Þetta eru áskoranir sem þyrfti að ræða frekar.“

Krafa um að útskrifa fleiri hjúkrunarfræðinga

„Við eigum að fjölga nemendum í hjúkrunarfræði og útskrifa fleiri hjúkrunarfræðinga en á móti þá erum við ekki með þessa grunnþætti sem þarf til að sinna þeim og kenna þessi fög. Það eru 31 akademískur starfsmaður við deildina á meðan það eru hátt í 500 nemendur í grunnnámi sem er allt of hátt hlutfall nemenda á kennara og það er ekki fyrirsjáanleg fjölgun kennara. Það er rétt svo að við fáum inn nýja kennara í stað þeirra sem hætta. Okkar helstu frumkvöðlar í hjúkrunarfræðinni eru að hætta þessi árin og við erum því að sjá að baki þeim sem drógu vagninn hér í upphafi og það vantar fagfólk til að taka við.“

Þórdís segir að verið sé að leita leiða til að gera doktorsnám í hjúkrunarfræði aðlaðandi í því skyni að fá fleiri í námið. „Það er meðal annars gert með styrkjum og við myndum vilja að það væru fleiri sérstakir styrkir til doktorsnáms í hjúkrunarfræði. Við erum með samning við háskólann í Minnesota um ókeypis doktorsnám sem er spennandi valkostur og það er líka kostur fyrir okkur sem deild að fá fagfólk sem er menntað annars staðar en hér á landi. Það eru 11 doktorsnemar í námi við deildina núna en við sjáum að það fólk er komið á þann stað í sinni starfsþróun að það er mjög upptekið og eftirsótt í starfi sem getur hægt á námi þessara doktorsnema,“ segir Þórdís og þá spyrjum við hana hvort þessir nemar séu þá ekki að skila sér í störf við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildina?

„Ekki nógu ört. Við myndum vilja sjá fleiri sem geta alfarið helgað sig framhaldsnáminu og ná að klára það á styttri tíma, er þá jafnvel yngra og á lengri starfsferil með þá menntun í farteskinu. Það er svoleiðis nýliðun sem við þurfum, við viljum fá yngri kennara inn í fasta kennarahópinn. Þegar við höfum verið að ráða inn nýja kennara þá eru þeir flestir á mínum aldri ef ekki eldri. Við fjölgum ekki hjúkrunarfræðingum nema við fjölgum fyrst hjúkrunarfræðingum með framhaldsnám að baki, þá ekki síður með meistaranám og fá inn fleiri klíníska sérfræðinga í hjúkrun sem eru hér mikilvægir kennarar. Þeir eru svo mikilvægir í grunnkennslu hjúkrunar, í formi fyrirlestra og í færnistofu, að ég tali nú ekki um klínísku kennsluna. Þeir verða að vera til staðar úti á stofnunum, það þarf aldeilis að fjölga þar. Við sjáum ekki heldur nógu hraða aukningu á fjölda sérfræðinga í hjúkrun.“

Kallar eftir betri stuðningi við hjúkrunarfræðinga í framhaldsnámi

Veistu hvað veldur því að það er ekki aukning sérfræðinga í hjúkrun? „Ég myndi vilja sjá miklu betri stuðning við hjúkrunarfræðinga í framhaldsnámi. Því miður sjáum við að fólk fær ekki endilega námsleyfi og ekki heldur hvatningu eða stuðning frá sínum vinnustöðum. Sjálf hef ég verið með nemendur til dæmis af stofnunum utan af landi sem fá ekki leyfi til að fara í námið og það veldur mikilli togstreitu af því við erum staðnámsskóli og við viljum hitta nemendur en þau fá ekki frí til að mæta í tíma. Auk þess fá þau jafnvel ekki stuðning í formi ferðakostnaðar eða styrki fyrir húsnæði. Þarna má vettvangurinn alveg taka smá ábyrgð á sig. Þetta er lykilatriði og á alveg eins við háskólasjúkrahúsið, þar mætti vera meiri hvatning, samvinna og tækifæri fyrir hjúkrunarfræðinga að fara í framhaldsnám og sinna því.“

Klíníska starfið gengur fyrir

Samkvæmt Þórdísi Katrínu er ekki nóg að fólk fái vilyrði frá sínum vinnustað til að hefja framhaldsnám heldur þarf að fylgja því eftir. „Þegar vantar í klíníkina þá gengur hún alltaf fyrir og þá situr námið á hakanum. Þarna held ég að þurfi viðhorfsbreytingu því þetta er vondur spírall sem hjúkrunin er komin inn í; það vantar hjúkrunarfræðinga en svo fáum við ekki reyndu hjúkrunarfræðingana til þess að verða kennarar því þeir komast aldrei í að klára það sem þarf til þess. Þarna finnst mér þurfa aðeins að lyfta sér yfir þetta daglega basl, flæði sjúklinga og rekstur og bara ákveða að styðja hjúkrunarfræðinga til framhaldsnáms. Það er ekki bara hver sem er sem kennir verðandi hjúkrunarfræðingum.“

Er eitthvað sérstakt sem þarf að huga að varðandi kennslu hjúkrunarfræðinema; eru þarfir í þessari deild frábrugðnar þörfum í öðrum deildum? „Við erum með ótrúlega skemmtilegt og krefjandi nám. Mér finnst alltaf svo gaman að hitta nýnema en mér finnst ég alltaf þurfa að leiðrétta þann misskilning að námið sé létt af því að það vanti hjúkrunarfræðinga. Námið er krefjandi og til þess að verða góður hjúkrunarfræðingur sem sinnir þörfunum fyrir hjúkrun þá þarf alla þessa menntun og reyna allt þetta sem við erum að bjóða upp á. Við erum með flókið nám; við þurfum að hafa bóklegu og fræðilegu þekkinguna og þurfum að þekkja þessar grunnundirstöður um líkama mannsins, mannlega hegðun, félagslegt samhengi og siðfræðilega þekkingu. Svo þarf að taka mark á rannsóknum, blanda þessu saman og framkvæma til að vera fær og góður hjúkrunarfræðingur. Ég held í raun að maður átti sig ekki endilega á því hvað maður er að læra í heildina fyrr en svona tveimur árum eftir útskrift. Starfsþróunarkenningar okkar segja það. Maður nær þessari heildrænu sýn seinna, þegar maður tvinnar saman bóklegu og fræðilegu þekkinguna og svo það sem maður lærir í færnistofum og í klíník.“

Þurfum að sinna þörfum alls samfélagsins

Er verið að huga að breytingu á náminu sjálfu? „Við erum með alþjóðlega viðurkennt nám og förum eftir Evrópustaðli varðandi námið og hversu margar klínískar stundir eru í því. Við erum byrjuð í fyrstu þarfagreiningu en við ætlum að gefa okkur tíma í að skoða hvort og hvernig breytingar á námsfyrirkomulagi ættu að vera og það er gert í samvinnu. Það þarf að tala um þetta við ráðuneytið og félagið og aðra háskóla og líka bera okkur saman við það sem er verið að gera erlendis og finna hagkvæma lausn. Í Svíþjóð t.d. er þriggja ára nám en þar er öðruvísi námsfyrirkomulag. Þegar ég bjó þar var námið þannig að nemendur fóru ekki í allar sérgreinar heldur völdu á milli mismunandi greina. Á Íslandi höfum við kosið að gera þetta ekki svona. Við þurfum að sinna þörfum alls samfélagsins og vera viðbúin að vinna hvar sem er. Það eru ákveðið margar klínískar stundir í náminu og eins og er þá er þetta í reglugerðum sem við verðum að fara eftir. En við beitum okkur fyrir því að þetta sé endurskoðað á einum vettvangi fyrir alla. Ég er svolítið dugleg að fylgjast með starfi og sækja fundi hjá European Specialist Nursing Organization, eða ESNO. Þetta eru samtök sem eru að reyna að hasla sér völl hjá Evrópuþinginu og hafa áhrif á þingmenn þar og kynna fyrir þeim hvað hjúkrunarfræðingar gera alveg frá grunni sem að mínu mati er mikilvægt.“

Vannýttur mannauður

Heldurðu að það væri hægt að nýta krafta hjúkrunarfræðingana betur að einhverju leyti? „Við erum mjög vannýttur mannauður. Við erum með mikla klíníska reynslu sem er alls ekki nægjanlega metin til launa eða virðingar. Hún er ekki metin formlega með því að geta kallað sig sérhæfðan hjúkrunarfræðing, óháð því hvort maður hafi farið í diplómunám eða ekki, þannig að slíkir hjúkrunarfræðingar fái aukið starfssvið eða tækifæri á að taka að sér aukin verkefni. Vissulega fyrirfinnast sjálfstæðar móttökur hjúkrunarfræðinga á Íslandi, til dæmis hjá sérfræðingum í hjúkrun, en þetta mætti vera í mun fleiri sérgreinum og hæfnistigum. Það mætti líka betur nýta krafta hjúkrunarfræðinga með því að skilgreina hæfni þeirra og hagnýta þá hæfni sem hjúkrunarfræðingar hafa aflað sér og færnina sem þeir hafa. Þetta þekkist víða erlendis þar sem hjúkrunarfræðingar geta þjálfað sig í einhverju ákveðnu, sýnt fram á færni í því og geta þannig tekið að sér og afgreitt viðkomandi verkefni. Mikilvægt væri að slíkt væri líka metið til launa. Með sama hætti ætti að vera betur skilgreint hverjir eru nýir í starfi, hverjir eru reynsluboltarnir sem geta þjálfað og tekið út verk hjá þeim reynsluminni svo þeir komist á flug í sinni starfsþróun.“

Þórdís Katrín ásamt eiginmanni sínum Ásgeiri Thoroddsen á toppi Kilimanjaro í febrúar 2023.

Starfsánægja tengist því að hafa markmið og fá ábyrgð til að vinna sjálfstætt

Gætu hjúkrunarfræðingar á einhvern hátt létt á álaginu í heilbrigðiskerfinu? „Já, ekki spurning. Ég held að það væru fleiri í starfi sem hjúkrunarfræðingar ef þeir hefðu fengið tækifæri til þess að vinna með sína hæfni og á sínu hæfnistigi. Einnig ef þeir sæju fram á að störf þeirra væru að þróast í átt að því að vinna meira sjálfstætt. Það eru rannsóknir sem sýna að starfsánægja, minni streita og minni kulnunareinkenni í starfi eru tengd því að hafa bæði markmið, þannig að maður sjái hvert maður er að þróast í starfi, og að fá ábyrgð til þess að vinna sjálfstætt. Þegar verið er að slá á puttana á fólki og setja niður störf fólks þá koðnar það niður sem fagmenn og finna sér jafnvel annan starfsvettvang. Þá kem ég aftur að því að þegar fólk hefur áhuga á að fara í framhaldsnám og er með hugmyndir um hvað það langar að gera en fær svo ekki frí í vinnunni eða fær ekki styrki, hvatningu eða stuðning frá sínum yfirmönnum og samstarfsmönnum, þá fljótlega missir fólk dampinn. Það má gera svo miklu betur í þessum málum.“

Skortur á hjúkrunarfræðingum í forystusveitir

Að mati Þórdísar Katrínar eiga hjúkrunarfræðingar að vera sjálfsagðir þátttakendur í stýrihópum, stjórnum o.fl. sem lúta að þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Því miður hefur maður oft séð að það vantar alveg hjúkrunarfræðinga í stýrihópa, stjórnir og nefndir á vegum ráðuneytisins eða stofnana og í umræður um vísindi, þróun þjónustu og stjórnun. Þegar maður fer að taka eftir þessu þá verður maður leiður að sjá hvað það vantar sárlega hjúkrunarfræðinga í þessar forystusveitir. Ástæðan er ekki sú að hjúkrunarfræðingar hafi ekki áhuga, getu eða hæfni heldur kannski að þeir séu uppteknir við að halda skútunni á floti, það fer svo mikill tími og orka í það en einnig að okkur er ekki boðið að koma að borðinu. Svo eru til fjöldamargar skýrslur um það hvað vantar af hjúkrunarfræðingum og hvernig eigi að bregðast við en það þarf líka að framkvæma. Ein rödd segir að það þurfi að fjölga hjúkrunarfræðingum og leggja áherslu á það meðan önnur rödd segir að það þurfi að skera niður eða að það sé ekki hægt að leggja til aukafé sem vantar til þess að fjölga. Hjúkrunarfræðingar geta og eiga að hafa mikilvægt hlutverk við að framkvæma lausnirnar,“ segir Þórdís Katrín ákveðin.

Samstarf og nýsköpun

Hvernig er framtíðarsýn þín varðandi menntun og störf hjúkrunarfræðinga? „Ég held að við leysum ekki þá áskorun að útskrifa fleiri hjúkrunarfræðinga nema með því að búa fyrst til fleiri framhaldsmenntaða hjúkrunarfræðinga. Þá myndi ég líka vilja sjá enn betra og formlegra samstarf milli vettvangsins sem hjúkrunarfræðingar vinna á og háskólans. Í fyrsta lagi að taka meira tillit til þess þegar fólk fer í framhaldsnám en þar þarf að koma til stuðningur og styrkir frá þeim stofnunum sem einstaklingarnir starfa á og frá öðrum opinberum aðilum til að þau geti sótt námið. Í öðru lagi að nemendur í framhaldsnámi vinni að hagnýtum verkefnum, rannsóknum og nýsköpun sem er tengt við þeirra klíník. Þannig er námið alltaf að skila þróun. Það sem doktorsnámið gefur fólki er ákveðin víðsýni og góður grunnur. Í þessu samspili klíníska vettvangsins og háskólans verður eitthvað til og við sköpum nýjar lausnir til að þróa heilbrigðisþjónustu,“ útskýrir hún að endingu og vonandi verður þetta spjall til þess að fleiri hjúkrunarfræðingar íhugi að skella sér í doktorsnám.