Fara á efnissvæði

Starfsreglur fagfélags krabbameinshjúkrunar

1. gr.

Nafn fagdeildar er fagdeild krabbameinshjúkrunarfræðinga. Fagdeildin starfar innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Heimili og varnarþing er í Reykjavík en umdæmið er landið allt. Lög Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga eru lög fagdeildarinnar.

2. gr.

Markmið fagdeildar er að stuðla að eflingu forvarna og að auka gæði hjúkrunar einstaklinga með krabbamein með því að:

  • Veita ráðgjöf til stjórnar og nefnda Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um hjúkrun einstaklinga með krabbamein og fjölskyldna þeirra.
  • Hafa áhrif á stefnu stjórnvalda í heilbrigðismálum hvað varðar forgangsröðun verkefna og standa vörð um hagsmuni einstaklinga með krabbamein.
  • Stuðla að aukinni fræðslu til skjólstæðinga um andleg, líkamleg og félagsleg viðbrögð og viðeigandi úrræði á öllum stigum krabbameins.
  • Bæta menntun á sviði hjúkrunar einstaklinga með krabbamein og hvetja hjúkrunarfræðinga til að viðhalda og efla hæfni sína og þekkingu á því sviði.
  • Hvetja til aukins samstarf við hjúkrunarfræðinga, er starfa við hjúkrun einstaklinga með krabbamein, jafnt innanlands og utan.
  • Stuðla að aukinni samvinnu við aðrar heilbrigðisstéttir til að tryggja samfellu í þeirri þjónustu sem veitt er til einstaklinga með krabbamein og fjölskyldna þeirra.
  • Hvetja til þróunar og þátttöku í rannsóknum á sviði hjúkrunar sem snúa að einstaklingum með krabbamein, og að hvetja til nýtingar á rannsóknarniðurstöðum til að efla gæði hjúkrunar.
  • Mynda og efla tengsl við stofnanir og félög sem veita þjónustu á sviði krabbameins.

3. gr. Aðild.

Rétt til aðildar að fagdeild krabbameinshjúkrunarfræðinga öðlast félagsmenn í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) hafi þeir fulla aðild, aukaaðild (hjúkrunarnemar) eða fagaðild að Fíh. Hjúkrunarfræðingar (hjúkrunarnemar) þurfa þar að auki að starfa við eða hafa starfað við krabbameinshjúkrun og/eða hafa sérfræðingsleyfi eða viðbótarmenntun í krabbameinshjúkrun. Félagsmenn sem ekki greiða félagsgjöld í tvö ár falla sjálfkrafa af félagaskrá.

4. gr.

Stjórn deildarinnar skipa 7 félagsmenn: formaður, verðandi formaður, ritari, gjaldkeri, tveir meðstjórnendur og einn varamaður. Stjórn deildarinnar skal kosin á aðalfundi. Verðandi formaður skal kosinn sérstaklega og sitja sem slíkur í að minnsta kosti eitt ár og sem formaður næstu tvö ár á eftir. Formaður situr ekki lengur en tvö ár í senn. Aðrir stjórnarmenn eru kosnir til tveggja ára í senn. Leitast skal við að aldrei gangi fleiri en þrír kjörnir stjórnarmenn úr stjórn hverju sinni. Endurkjör er heimilt. Einfaldur meirihluti ræður kjöri. Aðrir stjórnarmenn en verðandi formaður og varaformaður skipta með sér verkum. Framboðsrétt til stjórnar og atkvæðisrétt á aðalfundi hafa skráðir fagdeildarmeðlimir sem hafa greitt fagdeildargjöld á yfirstandandi starfsári.

5. gr.

Aðalfundur skal haldinn í febrúar ár hvert. Aðalfund skal boða skriflega með tveggja vikna fyrirvara hið minnsta. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað.

Dagskrá aðalfunda:

  1. Skýrsla stjórnar
  2. Endurskoðaðir ársreikningar lagðir fram
  3. Kosning stjórnar samkvæmt 4. gr
  4. Tilnefning tveggja endurskoðanda
  5. Árgjald ákveðið
  6. Önnur mál

6. gr.

Stjórn fagdeildar getur gert að heiðursfélaga, þann einstakling sem fagdeildin vill sýna sérstaka virðingu og heiðra fyrir störf í þágu krabbameinshjúkrunar. Ákvörðun um heiðursfélaga þarf samþykki allra stjórnarmeðlima. Fagdeildarmeðlimir geta komið með tillögu að tilnefningu til stjórnar fagdeildarinnar. Heiðursfélagar eru sæmdir gullnælu fagdeildarinnar og henni fylgir æviaðild að fagdeildinni.

7 . gr.

Starfsreglum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og skulu skriflegar tillögur um breytingar á reglum berast stjórn eigi síðar en viku fyrir aðalfund.

Endurskoðað af stjórn fagdeildar og samþykkt í febrúar 2016