Hjukrun.is-print-version
Rétt í styrktarsjóð öðlast félagsmaður þegar greiðslur hafa borist í 6 mánuði í sjóðinn, þar af 3 mánuði samfellt áður en atburður sem veitir rétt til styrks úr sjóðnum átti sér stað. Sótt er um styrk í Styrktarsjóð á Mínum síðum, en til að hafa aðgengi að þeim þarf annað tveggja: Íslykil eða rafræn skilríki.

Veittur er styrkur í heild allt að 60.000 krónur á ári vegna heilsutengdra útgjalda. Greiðslur úr sjóðnum eru almennt staðgreiðsluskyldar og er staðgreiðsla dregin af fjárhæð fyrir útborgun. Heilsurækt/endurhæfing er þó undanþegin skatti. 

Mikilvægt er að senda inn kvittanir með umsókn sem sýna fram á að greitt hafi verið fyrir viðburðinn. 

Sótt er um styrkinn á mínum síðum.

Styrkumsóknir eru afgreiddar annan hvern mánuð: febrúar, apríl, júní, ágúst, október og desember. Umsóknum ásamt viðeigandi gögnum skal skila inn í síðasta lagi 9. dag mánaðar fyrir næstu úthlutun.

Að jafnaði er greitt út 24.-26. dag mánaðar eða næsta virka dag á eftir. Umsóknir sem berast sjóðnum eftir 9. desember verða teknar fyrir á fyrsta fundi stjórnar sjóðsins næsta ár og telst styrkurinn til liðins árs.

Heilsurækt/endurhæfing er undanþegið skatti en heilbrigðiskostnaður er skattskyldur. Hér má sjá dæmi um hvað flokkast undir hvorn þátt.

Líkamsrækt
Sjúkraþjálfun
Sjúkranudd
Kiropraktor
Næringaráðgjöf
Sálfræðiþjónusta

Áhættumat vegna hjarta- og æðasjúkdóma
Gleraugnakaup
Göngumæling/Innlegg
Kaup á heyrnartæki
Krabbameinsskoðun
Námskeið til að hætta að reykja
Tannlæknakostnaður

Fæðingastyrkur er að hámarki kr. 250.000 til foreldris vegna hvers barns. Upphæð styrksins ákvarðast af starfshlutfalli. Sækja þarf um styrkinn innan eins árs frá fæðingu barns. Sótt er um styrkinn á Mínum síðum og eru styrkir að jafnaði greiddir út 24.-26. dag mánaðar eða næsta virka dag á eftir.

Umsókninni þurfa að fylgja:

 • Fæðingarvottorð barns
 • Afrit af nýjasta launaseðli (mynd/skjáskot eða PDF skjal)

 

Hámarks mánaðargreiðsla þeirra er starfa hjá ríki er kr. 400.000.
Hámarks mánaðargreiðsla þeirra er starfa á almenna markaðinum er kr. 610.000.
Nánari upplýsingar  er að finna í úthlutunarreglum sjóðsins. 

Fylla þarf inn umsóknareyðublað og því skilað inn ásamt viðeigandi gögnum á skrifstofu Fíh, Suðurlandsbraut 22, 108 Reykjavík. Sjúkradagpeningar eru að jafnaði greiddir út 24.-26. dag mánaðar eða næsta virka dag á eftir.

Umsókninni þurfa að fylgja:

 • Læknisvottorð
 • Launaseðill með starfshlutfalli
 • Vottorð vinnuveitanda um tæmingu veikindaréttar
 • Skattkort (valkvætt)

Aðstandendur geta sótt um útfararstyrk vegna fráfalls félagsmanns  að upphæð kr. 350.000.   Sótt er um útfararstyrk  með tölvupósti á sjodir@hjukrun.is.   Útfararstyrkur er að jafnaði greiddur út 24.-26. dag mánaðar eða næsta virka dag á eftir. Nánari upplýsingar um útfararstyrk er að finna í úthlutunarreglum sjóðsins. 

Útfararstyrkur er greiddur vegna:

 • Útfarar virks sjóðsfélaga
 • Útfarar sjóðsfélaga sem látið hefur af störfum og andast innan árs frá því að greiðslur hættu að berast fyrir hann í sjóðinn
 • Útfarar barna (18 ára og yngri) sjóðsfélaga

Nauðsynleg gögn:

 • Dánarvottorð

Heiti, varnarþing og heimili

Sjóðurinn heitir Styrktarsjóður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (SFíh).

Heimili sjóðsins og varnarþing er í Reykjavík og er starfsstöð sjóðsins staðsett á sama stað og starfsstöð Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) er hverju sinni. Sjóðurinn er eign Fíh en úr honum er úthlutað í samræmi við starfsreglur þessar og úthlutunarreglur settar á grundvelli starfsreglna. 

Hlutverk

Sjóðnum skal varið til þess að styrkja sjóðsfélaga með fé og koma þannig til móts við:

 • tekjutap vegna ólaunaðrar fjarveru sjóðsfélaga frá vinnu vegna veikinda sjóðsfélaga, nákominna eða vegna annarra persónulegra aðstæðna,
 • útgjöld vegna andláts sjóðsfélaga eða barna þeirra 18 ára og yngri,
 • útgjöld sjóðsfélaga vegna íþróttaiðkunnar, heilsuræktar, endurhæfingar eða annarra heilsutengdra málefna, sbr. úthlutunarreglur sjóðsins, 2. gr., lið 5.
 • Sjóðurinn veitir einnig fæðingarstyrki.

Form og aðild

 1. Styrktarsjóður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (SFíh) er bundinn sjóður innan vébanda Fíh. Sjóðurinn stundar ekki atvinnurekstur og snýr rekstur sjóðsins eingöngu að hlutverki hans sem styrktarsjóðs hjúkrunarfræðinga. Eingöngu er heimilt að nýta fjármuni sjóðsins í samræmi við hlutverk hans samkvæmt 2. gr. reglna þessara og til rekstrar sjóðsins.
 2. Sjóðsaðild öðlast hjúkrunarfræðingur vegna greiðslna sbr 3. mgr. á iðgjöldum í sjóðinn (styrktarsjóðsframlag) í þeirra nafni á grundvelli liða a-d:

  1. Ákvæðis í kjarasamningi Fíh við ríki eða sveitarfélag,
  2. Ákvæðis í kjarasamningi Fíh við sjálfseignarstofnun sem starfar í almannaþágu samkvæmt lögum, er á fjárlögum eða nýtur fjárframlaga til launagreiðslna úr ríkissjóði af daggjöldum eða úr sveitarfélagssjóði, sbr. 2. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna,
  3. Ráðningarsamnings við sjálfseignarstofnun skv. b-lið,
  4. Laga, kjarasamnings eða ráðningarsamnings sé launagreiðanda skylt að greiða af heildarlaunum sjóðfélaga í styrktarsjóð. Ákvæðið tekur einnig til sjálfstætt starfandi aðila sem standa skil á gjaldi sbr. framangreint.
 3. Réttur sjóðsfélaga til úthlutunar úr sjóðnum er háður því að greitt hafi verið styrktarsjóðsframlag vegna sjóðsfélaga samtals í 6 mánuði og þar af samfellt í 3 mánuði áður en atburður, sem veitir rétt til styrks úr sjóðnum, átti sér stað. Auk þess þarf hjúkrunarfræðingur að hafa sjóðsaðild sbr. 2. mgr 3. greinar í reglum þessum. Nýr réttur myndast ekki vegna greiðslna vinnuveitanda á launum í uppsagnarfresti eða vegna annars konar launagreiðslna í tilefni af starfslokum. Sjóðsfélagar sem ekki eru starfandi halda réttindum sínum í sjóðnum að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

  1. Í fæðingarorlofi: Sjóðsfélagar sem fara í fæðingarorlof og velja að greiða stéttarfélagsgjald af fæðingarorlofsgreiðslum meðan á því stendur halda fullum réttindum.
  2. Í veikindum: Sjóðsfélagi sem hefur fullnýtt rétt sinn til dagpeninga nýtur áfram annarra réttinda í sjóðnum í allt að eitt ár. Stofni sjóðsfélagi til réttinda í öðrum styrktarsjóði, sem er sambærilegur SFíh, fellur niður réttur í SFíh.
  3. Atvinnulausir: Sjóðsfélagar með full réttindi við upphaf atvinnuleysis halda réttindum sínum í eitt ár, enda hefjist bótatímabil eða til útgjalda sé stofnað innan árs frá upphafi atvinnuleysis. Skilyrði er að greitt sé félagsgjald af atvinnuleysisbótum til Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga,
  4. Launalaust leyfi: Sjóðsfélagar halda réttindum í launalausu leyfi í allt að þrjá mánuði. Styrkréttur miðast þó við að viðkomandi hefji störf að nýju um leið og launalausu leyfi lýkur. Ekki eru greiddir dagpeningar vegna veikinda í launalausu leyfi.
  5. Við starfslok: Sjóðsfélagar halda réttindum í 12 mánuði eftir að þeir láta af störfum og fara á lífeyri. Dagpeningar eru þó ekki greiddir lengur en í þrjá mánuði.
 4. Fyrrverandi sjóðsfélagar njóta ekki réttar til styrkja úr sjóðnum.
 5. Sjóðsaðild og réttindi eru bundin tilteknu starfshlutfalli. Sjóðsstjórn miðar úthlutunarreglur svo sem fjárhæð dagpeninga, við starfshlutfall sjóðsfélaga á þeim tíma þegar atburður sem veitir rétt til styrks úr sjóðnum, átti sér stað.
 6. Sá sem gefur rangar eða villandi upplýsingar eða lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar, missir rétt til bóta í allt að tvö ár samkvæmt ákvörðun stjórnar sjóðsins. Í slíkum tilfellum er sjóðsstjórn heimilt að endurkrefja bótaþega um alla bótafjárhæðina auk dráttarvaxta.

Sjóðsstjórn

 1. Sjóðsstjórn skipa þrír félagsmenn Fíh og tveir til vara. Starfstími stjórnar skal vera tvö ár í senn og skal stjórnarkjör fara fram á aðalfundi Fíh annað hvert ár.
 2. Sjóðsstjórn skiptir sjálf með sér verkum að öðru leyti en því sem ákveðið er í 1. mgr. 4. gr. Embætti innan stjórnarinnar eru formaður, ritari, og meðstjórnandi. Jafnframt skal ákveðið hver er 1. og hver er 2. varamaður og skulu þeir taka sæti í stjórn í þeirri röð láti einhver aðalmanna af stjórnarstörfum.
 3. Enginn stjórnarmaður skal sitja lengur en 8 ár samfellt í stjórn sjóðsins. Komi til þess að stjórnarmenn láti af störfum og ekki eru til staðar varamenn til að taka sæti í stjórn, skal stjórn Fíh skipa í stjórnina, þ.m.t. tvo varamenn, sem sitji fram að næsta aðalfundi Fíh.
 4. Sjóðsstjórn annast alla umsjón með eignum sjóðsins og fer með daglegan rekstur hans í samstarfi við fjármálastjóra Fíh og starfsmann sjóðsins. Sjóðsstjórn skal leggja fyrir aðalfund Fíh skýrslu um starfsemi og reikninga sjóðsins. Allar ákvarðanir varðandi fjárfestingar, fjárfestingarstefnu og aðrar skuldbindingar skulu háðar samþykki stjórnar Fíh.
 5. Sjóðsstjórn og þeir starfsmenn Fíh sem koma að vinnu umsókna skulu skrifa undir þagnarskyldu. 

Úthlutunarreglur

Sjóðsstjórn setur úthlutunarreglur sem skulu endurskoðaðar eigi sjaldnar en árlega og samþykktar af stjórn Fíh.

Samþykkt á aðalfundi Fíh 20. maí 2016

 

Um sjóðsaðild, rétt sjóðsfélaga og skipulag sjóðsins gilda starfsreglur Styrktarsjóðs Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (SFíh), samþykktar á aðalfundi Fíh 20. maí 2016. Samkvæmt 5. gr. þeirra setur sjóðsstjórn nánari úthlutunarreglur sem skulu endurskoðaðar eigi sjaldnar en árlega og samþykktar af stjórn Fíh.

Umsóknir og gögn

 1. Umsóknir: Sækja þarf um styrki til sjóðsins á rafrænu formi á mínum síðum á vefsvæði Fíh http://www.hjukrun.is. Skila skal undirrituðu umsóknareyðublaði um dagpeninga á skrifstofu Fíh að Suðurlandsbraut 22, Reykjavík. Umsóknir um sjúkradagpeninga, fæðingarstyrk og útfararstyrk eru afgreiddar mánaðarlega. Aðrar styrkumsóknir eru afgreiddar annan hvern mánuð: febrúar, apríl, júní, ágúst, október og desember. Umsóknum ásamt viðeigandi gögnum skal skila inn í síðasta lagi 9. dag mánaðar fyrir næstu úthlutun. Að jafnaði er greitt út 24.-26. dag mánaðar eða næsta virka dag á eftir.  Umsóknir sem berast á tímabilinu 9.-31. desember greiðast út í febrúar en færast sem styrkur sama ár og umsókn barst.
 2. Gögn: Til að sjóðsfélagi geti fengið greitt úr sjóðnum þarf hann að skila inn eftirfarandi gögnum:
  1. Fyrir sjúkradagpeninga: Undirritaðri umsókn um sjúkradagpeninga, læknisvottorði, launaseðli með starfshlutfalli og vottorði um tæmingu veikindaréttar, skattkorti (valkvætt). Sækja skal um dagpeninga á skrifstofu Fíh að Suðurlandsbraut 22, 108 Reykjavík.
  2. Fyrir fæðingarstyrk: Fæðingarvottorði barns, afriti af nýjum launaseðli (með réttu starfshlutfalli).
  3. Fyrir útfararstyrk: Dánarvottorði.
  4. Fyrir aðra styrki: Sundurliðaðan reikning, með nafni umsækjanda og/eða kennitölu. Á reikningunum þarf að vera áritun/stimpill/merki þess sem gefur reikningana út með upplýsingum um nafn, starfsheiti, kennitölu og heimilisfang eða símanúmer. Fjöldi skipta og dagsetningar meðferða eða kaupa á vöru eða þjónustu skulu koma fram á reikningunum.
 3. Staðgreiðsla af styrkjum: Greiðslur úr Styrktarsjóði eru almennt staðgreiðsluskyldir og er staðgreiðsla dregin af við afgreiðslu styrks. Útfararstyrkur og greiðsla úr sjóðnum vegna íþróttaiðkunar, annarrar heilsuræktar og endurhæfingar er þó undanþegin staðgreiðsluskyldu.
 4. Afgreiðsla umsókna: Starfsmaður sjóðsins afgreiðir umsóknir samkvæmt úthlutunarreglum þessum. Ef sjóðsfélagi sættir sig ekki við ákvörðun starfsmanns sjóðsins, á hann ávallt rétt á að vísa máli sínu til stjórnar SFíh.
 5. Fyrning umsókna: Réttur til greiðslna úr sjóðnum fyrnist sé ekki sótt um þær innan 12 mánaða frá því að til útgjalda var stofnað eða tekjutap varð. Réttur til greiðslu samkvæmt ákvörðun sjóðsstjórnar eða starfsmanns sjóðsins fyrnist ef hennar hefur ekki verið vitjað innan 9 mánaða frá því að tilkynning um úthlutunarrétt var send til viðkomandi.
 6. Starfsmaður sjóðsins getur þó óskað eftir frekari gögnum frá umsækjanda telji stjórn sjóðsins það nauðsynlegt. 

Styrkir

Dregin er staðgreiðsla af dagpeningum.

 1. Dagpeningar vegna ólaunaðrar fjarveru frá vinnu fyrir sjóðsfélaga sem greitt er fyrir 0,75% iðgjald í sjóðinn (starfsmaður hjá hinu opinbera):
  Réttur til dagpeninga vegna sannanlegs tímabundins tekjutaps sjóðsfélaga sökum óvinnufærni vegna veikinda eða slysa, þar með talið veikinda á meðgöngu er sem hér segir:

  Mánaðargreiðsla miðast við starfshlutfall við upphaf veikinda. Full mánaðargreiðsla er kr. 400.000 sem er kr. 18.459 fyrir hvern virkan dag eða 21.67 daga. Dagpeningar eru greiddir til viðbótar sjúkradagpeningum og/eða örorkulífeyri frá Tryggingastofnun Ríkisins, lífeyrissjóði eða öðrum greiðslum sem rekja má til fjarveru frá vinnu. Sjá þó c-lið 3. mgr. 3. gr. starfsreglna sjóðsins vegna atvinnulausra. Samanlagðar greiðslur sjóðsins ofangreindra aðila og annarra styrkja skulu þó aldrei vera hærri fjárhæð en sem nemur því tekjutapi sem orðið hefur. Dagpeningar geta aldrei numið hærri upphæð en atvinnuleysisbætur sem fallið hafa niður.
  1. Veikindi eða slys sjóðsfélaga: Sjóðurinn greiðir dagpeninga í allt að 6 mánuði samanlagt vegna veikinda eða slysa sjóðsfélaga, þegar veikindarétti samkvæmt kjarasamningum sleppir. Sjóðsfélagi öðlast rétt til dagpeninga að nýju eftir sex mánaða iðgjaldagreiðslu eftir að fyrra bótatímabili lýkur.
  2. Veikindi barns sjóðsfélaga: Hægt er að sækja um dagpeninga til sjóðsstjórnar vegna ólaunaðrar fjarveru frá vinnu í kjölfar langvinnra veikinda barns (þrír mánuðir eða lengur) í allt að sex mánuði samanlagt. Með barni í reglum þessum er auk kynbarns, kjörbarns og fósturbarns átt við stjúpbarn og barnabarn sem býr á heimili sjóðsfélaga eða þarfnast greinilega umönnunar sjóðsfélaga. Dagpeningar eru einungis veittir vegna barna undir 18 ára aldri. Með langtímaveikindum er átt við veikindi sem vara samfellt lengur en í 30 almanaksdaga.
  3. Veikindi maka sjóðsfélaga: Sjóðurinn greiðir dagpeninga í allt að tvo mánuði vegna ólaunaðrar fjarveru frá vinnu vegna alvarlegra langtímaveikinda (þrír mánuðir eða lengur) maka eða sambúðarmaka. Þó er ekki greitt fyrir fyrstu tíu dagana í veikindum.
  4. Fráfall nákominna: Við fráfall maka, sambúðarmaka eða barns greiðir sjóðurinn dagpeninga í allt að tvær vinnuvikur ef starfsmanni er ekki heimiluð fjarvera án skerðingar á launum. Sama gildir um fráfall annarra nákominna.
  5. Annað: Greiddir eru dagpeningar vegna læknisrannsókna sem eru undanfari frekari aðgerða, líffæragjafar, aðgerða sem taldar eru nauðsynlegar að mati læknis, og áfengis- og fíkniefnameðferðar, í allt að 45 daga.
  6. Tæming réttar: Réttur til greiðslu dagpeninga stofnast að nýju þegar greitt hefur verið vegna sjóðsfélaga í sex mánuði eftir að síðasta greiðslutímabili dagpeninga lauk. Hámarksfjöldi mánaða sem greiddir eru hverjum sjóðsfélaga eru tvö tímabil eða að hámarki 12 mánuðir á hverju tíu ára tímabili.
 2. Dagpeningar vegna ólaunaðrar fjarveru frá vinnu fyrir sjóðsfélaga sem greitt er fyrir 1% iðgjald í sjóðinn (starfsmaður á almennum vinnumarkaði):
  Réttur til dagpeninga vegna sannanlegs tímabundins tekjutaps sjóðsfélaga sökum óvinnufærni vegna veikinda eða slysa, þar með talið veikinda á meðgöngu er sem hér segir:
  1. Dagpeningar greiðast í allt að sex mánuði enda séu launagreiðslur í veikinda- eða slysaforföllum hættar eða skertar.
  2. Upphæð dagpeninga skal nema 80% af grunni inngreiðslna launagreiðanda vegna sjóðsfélaga í sjóðinn síðustu sex mánuði áður en launagreiðslur féllu niður, þó að hámarki 610.000 kr. á mánuði (launatekjur 762.500 kr.). Hafi launagreiðandi sjóðsfélaga greitt í færri en 6 mánuði samfellt fær sjóðsfélaginn greitt hlutfallslega. Þannig hefur sjóðsfélagi sem greitt hefur verið fyrir í sjóðinn í fjóra mánuði samfellt, einungis áunnið sér rétt til dagpeninga í fjóra mánuði. Allar skattskyldar greiðslur frá öðrum aðilum, svo sem Tryggingastofnun ríkisins eða lífeyrissjóði, umfram 20% af grunni inngreiðslna síðustu sex mánuði, koma að fullu til frádráttar dagpeningum frá sjóðnum.
  3. Veikindi barns sjóðsfélaga: Hægt er að sækja um dagpeninga til sjóðsstjórnar vegna ólaunaðrar fjarveru frá vinnu í kjölfar langvinnra veikinda barns í allt að sex mánuði samanlagt. Með barni í reglum þessum er auk kynbarns, kjörbarns og fósturbarns átt við stjúpbarn og barnabarn sem býr á heimili sjóðsfélaga eða þarfnast greinilega umönnunar sjóðsfélaga. Dagpeningar eru einungis veittir vegna barna undir 18 ára aldri. Með langtímaveikindum er átt við veikindi sem vara samfellt lengur en í 30 almanaksdaga.
  4. Veikindi maka sjóðsfélaga: Sjóðurinn greiðir dagpeninga í allt að tvo mánuði vegna ólaunaðrar fjarveru frá vinnu vegna alvarlegra langtímaveikinda (þrír mánuðir eða lengur) maka eða sambúðarmaka. Þó er ekki greitt fyrir fyrstu tíu dagana í veikindum.
  5. Sjálfstætt starfandi: Greiðslur til sjálfstætt starfandi félagsmanna eru inntar af hendi sem um launþega væri að ræða. Biðtími til bótaréttar vegna sjálfstætt starfandi félagsmanna skal vera þrír mánuðir.
  6. Annað: Greiddir eru dagpeningar vegna læknisrannsókna sem eru undanfari frekari aðgerða, líffæragjafar, aðgerða sem taldar eru nauðsynlegar að mati læknis, og áfengis- og fíkniefnameðferðar, í allt að 45 daga.
  7. Tæming réttar: Réttur til greiðslu dagpeninga stofnast að nýju þegar greitt hefur verið vegna sjóðsfélaga í sex mánuði eftir að síðasta greiðslutímabili dagpeninga lauk. Hámarksfjöldi mánaða sem greiddir eru hverjum sjóðsfélaga eru tvö tímabil eða að hámarki 12 mánuðir á hverju tíu ára tímabili.
 3. Fæðingarstyrkur
  Báðir foreldrar eiga rétt séu þeir aðilar að sjóðnum.
  1. Sækja þarf um innan árs frá fæðingu barns.
  2. Styrkurinn er kr. 250.000 til foreldris vegna hvers barns, þó í hlutfalli við starfshlutfall.
  3. Sé um að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu er greiddur út hálfur fæðingarstyrkur.
 4. Útfararstyrkur
  Greiddur er útfararstyrkur að upphæð kr. 350.000 vegna fráfalls virks sjóðsfélaga eða sjóðsfélaga sem látið hefur af störfum og andast innan árs frá því að greiðslur hættu að berast fyrir hann í sjóðinn. Greiddur er styrkur til sjóðsfélaga vegna útfarar barna þeirra 18 ára og yngri. Styrkurinn er greiddur til þess sem útförina annast. Útfararstyrkur er undanþeginn staðgreiðslu skatta.
 5. Aðrir styrkir
  Einungis er greitt fyrir það sem sjóðsfélagi einn getur nýtt sér. Greiddur er árlegur styrkur að hámarki kr. 60.000 fyrir eitthvað af neðangreindu. Hægt er að skipta upphæðinni á milli einstakra liða:

  Styrkir undanþegnir skatti
  1. Íþróttaiðkun og önnur heilsurækt
   Með kostnaði við íþróttaiðkun og heilsurækt er átt við greiðslu á aðgangi að líkamsræktarstöðvum, sundlaugum og skíðasvæðum, greiðslu á æfingagjöldum í íþróttasali og félagsgjöldum í golfklúbba sem og þátttökugjöld vegna annarrar hreyfingar sem stunduð er með reglubundnum hætti.
  2. Endurhæfing
 6. Skattskyldir styrkir
  Ákveði sjóðsfélagi að nýta ekki fjárhæðina til atriða sem tilgreind eru í lið 1 a) og b) getur hann nýtt styrkinn í aðra heilsutengda hluti með því að sækja um á mínum síðum. Greidd er staðgreiðsla af þessum styrk. 

Gildistaka

Úthlutunarreglur þessar voru samþykktar í stjórn Fíh í desember 2020 og taka gildi frá og með 1. janúar 2021.

 

 

Aðalheiður D. Matthíasdóttir formaður
Sigrún Barkardóttir
Svanlaug Guðnadóttir

Varamenn:
Baldvina Hafsteinsdóttir
Ellen Stefanía Björnsdóttir

Fannst þér efnið hjálplegt?

Af hverju ekki?

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála