Fara á efnissvæði

Fagdeild speglanahjúkrunarfræðinga

Speglanahjúkrun er fagsvið tengt speglunum á meltingarvegi og lungum og snýr að undirbúningi, umönnun og eftirfylgni við þá einstaklinga sem koma til rannsókna á speglanadeild.

Um fagdeildina

Innsýn, fagdeild hjúkrunarfræðinga starfandi við lungna- og meltingarfærarannsóknir, var formlega stofnuð 2. apríl 1997 en hafði þá verið starfandi frá 29. október 1983.

Verkefni speglanahjúkrunarfræðinga eru fjölbreytt og gera kröfur um að þeir geti bæði unnið sjálfstætt sem og tekið þátt í teymisvinnu. Speglanir eru margvíslegar, bæði almennar og mjög sérhæfðar. Helstu speglanir eru lungnaspeglanir, magaspeglanir, ristilspeglanir, gallvegaspeglanir og ómspeglanir bæði á meltingarvegi og lungum. Hjúkrunarfræðingar sem starfa á speglanadeildum annast einnig þrýstings- og sýrustigsmælingar í vélinda, myndhylkisrannsóknir og aðrar rannsóknir tengdar meltingarvegi.

Á síðustu árum hefur orðið ör þróun í speglunum sem krefst aukinnar færni hjúkrunarfræðinga og kallar á sífellda þróun þeirra í starfi. Hér á landi er ekki sérskipulagt nám í speglanahjúkrun en þjálfun, aðlögun og kennsla hjúkrunarfræðinga er í höndum reyndra speglanahjúkrunarfræðinga á hverjum vinnustað.

Félagar Innsýnar eru í dag um 40 talsins og starfar fagdeildin skv. reglum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um fagdeildir.

Innsýn stendur árlega fyrir vel sóttum fræðsludegi fyrir félagsmenn. Einnig eru haldnir styttri fræðslufundir í samvinnu við fyrirtæki sem koma að speglunum.

Mikill metnaður er meðal félaga í Innsýn að sækja erlendar ráðstefnur til að viðhalda og auka þekkingu sína. Á hverju ári fer fjölmennur hópur Innsýnarfélaga á hið árlega Evrópska meltingarþing UEGW og eins á ECCO þingið til að fræðast, taka þátt í vinnusmiðum, og tileinka sér nýjungar.

Námssjóður Innsýnar sem úthlutað er úr einu sinni á ári styður við símenntun speglanahjúkrunarfræðinga.

Fagdeildin vinnur eftir ákveðnum starfsreglum.

Aðalfundur Innsýnar er haldinn árlega á tímabilinu 1. febrúar til 15. mars og stjórnarfundir eru haldnir reglulega innan ársins.

Stjórn

Formaður

Margrét Marín Arnardóttir

Gjaldkeri

Elín Hilmarsdóttir

Ritari

Hulda Björk Jóhannsdóttir

Meðstjórnandi

Björg Guðmundsdóttir

Meðstjórnandi

Rebekka Björg Örvar

Námssjóður

Starfsreglur sjóðsins

  1. Sjóðurinn heitir Námssjóður Innsýnar.
  2. Stjórn Innsýnar hefur umsjón með sjóðnum. Stjórn sjóðsins skipa þrír fulltrúar úr stjórn Innsýnar formaður Innsýnar og tveir meðstjórnendur.
  3. Úthlutun styrkja fer fram einu sinni á ári.
  4. Umsækjendur skulu vera félagar í Innsýn og skuldlausir við fagdeildina, vera starfandi á speglunardeild og hafa starfað við speglanir í a.m.k. tvö ár.
  5. Umsókn um styrk skal skilað fyrir 15. mars ár hvert. Umsóknum verður svarað í síðasta lagi mánuði eftir að umsóknarfrestur rennur út. Styrkþegi fær sendan tölvupóst sem staðfestingu á að styrkurinn hafi verið veittur.
  6. Styrkir verða eingöngu veittir til náms eða ráðstefnu- og námsferða í speglunarhjúkrun.
  7. Til úthlutunar eru 200.000 kr. og er hver styrkur að upphæð 100.000 kr. Félagsmenn geta sótt um styrk á fjögurra ára fresti.
  8. Umsóknum skal raðað í forgangsröð og miðast við tímalengd aðildar að Innsýn. Þeir sem hafa hlotið styrk áður raðast aftar í röðina. Rétthærri eru þeir sem eru í hærra starfshlutfalli. Ef tveir eða fleiri eru jafnréttháir skal dregið úr þeim umsóknum. Þeir sem eru styrktir annarsstaðar frá hljóta ekki styrk það árið þó þeir séu rétthærri en aðrir. Undanskilinn er styrkur úr starfsmenntunarsjóði Fíh.
  9. Styrkþegar kynni fyrir fagdeildinni markvert efni frá námsferðinni á næsta Innsýnardegi með 15 mínútna erindi .
  10. Styrkur verður greiddur eftir framvísun reikninga í frumriti fyrir árslok þess árs sem úthlutun styrks fer fram.
  11. Sjóðurinn er í vörslu stjórnar Innsýnar og geymdur á bankareikningi. Reikningsár miðast við almanaksár frá 1. janúar til 31. desember ár hvert. Reikningar skulu endurskoðaðir árlega af skoðannamönnum reikninga Innsýnar.
  12. Breytingartillögur á reglum sjóðsins skulu lagðar fyrir aðalfund Innsýnar til samþykktar.

Þegar umsóknareyðublað er sótt þarf að vista eyðublaðið , fylla það út og setja síðan á póstviðhengi og senda á innsyn@hjukrun.is

Erlent samstarf

ESGENA

European Society of Gastroenterology and Endoscopy Nurses and Associates (Samtök evrópskra meltingar- og speglanahjúkrunarfræðinga). Meðlimir eru um 7000 frá 40 löndum. Megin áhersla ESGENA er á menntun og að efla samskipti milli hjúkrunarfæðinga starfandi við meltingarhjúkrun og speglanir í Evrópu. Innsýn hefur verið félagi í ESGENA síðan 1997 við í Innsýn erum Active Group Members.

EEWG

Innsýn er með einn fulltúa í EEWG (Esgena Education Working Group). Fulltrúinn situr fundi hjá nefndinni tvisvar á ári og hefur atkvæðisrétt til stjórnarkjörs hjá ESGENA. Nefndin hefur lagt mikila vinnu í gerð core curriculum sem lagt hefur verið til grundvallar í námi speglanahjúkrunarfræðinga í ýmsum löndum Evrópu. Einnig hefur verið unnið að viðurkenndum verklagsreglum af ýmsu tagi og byggist okkar verklag mikið á þessum verklagsreglum.

Innsýn fær sent fréttabréf ESGENA nokkrum sinnum á ári og hefur aðgang að E-News og lokuðum síðum fyrir félagsmenn.

ESGENA og ESGE (Samtök evrópskra meltingarlækna) standa fyrir hinu árlega Evrópska meltingarþingi að hausti.

Starfsreglur

1.grein
Nafn deildarinnar er Innsýn. Fagdeild hjúkrunarfræðinga starfandi við lungna- og meltingarfærarannsóknir.

2.grein
Félagar geta orðið hjúkrunarfræðingar starfandi við lungna- og meltingarfærarannsóknir.

3.grein
Markmið deildarinnar eru:

  1. Að stuðla að og viðhalda faglegri hjúkrun.
  2. Að stuðla að bættri menntun og vera félagsmönnum hvatning til að viðhalda þekkingu og færni.
  3. Að efla samstarf hjúkrunarfræðinga starfandi við lungna- og meltingarfærarannsóknir hérlendis og erlendis.
  4. Að hvetja til rannsókna.
  5. Að vera stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga til ráðgjafar.
  6. Að efla fræðslu til skjólstæðinga og samstarfsaðila.

4.grein
Stjórn félagsins skal skipuð fimm hjúkrunarfræðingum: Formanni, gjaldkera, ritara og tveimur meðstjórnendum. Stjórn skal kosin á aðalfundi til tveggja ára í senn. Stjórnarmenn skipta með sér verkum. Endurkjör er heimilt. Sæti í stjórn skal auglýsa með aðalfundarboði. Öllum Innsýnarfélögum er heimilt að gefa kost á sér. Framboð til stjórnarsetu skal tilkynna stjórn fagdeildar á netfangið innsyn@hjukrun.is í síðasta lagi tveimur vikum fyrir aðalfund. Ef kjósa þarf til stjórnarsetu skal kosning vera leynileg.

5.grein
Aðalfundur skal haldinn árlega á tímabilinu 1. febrúar til 15. mars. Boðað skal til hans með rafrænu eða skriflegu fundarboði með að minnsta kosti þriggja vikna fyrirvara og skal dagskrá fylgja. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað.

Dagskrá aðalfundar:

  • Árskýrsla stjórnar
  • Árskýrsla styrktarsjóðs
  • Skoðaðir ársreikningar lagðir fram
  • Stjórnarkjör
  • Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga til tveggja ára í senn
  • Starfsreglur fagdeildar
  • Árgjald ákveðið
  • Önnur mál

7.grein

Starfsreglur skulu endurskoðaðar árlega á aðalfundi. Starfsreglum má aðeins breyta á aðalfundi með atkvæðagreiðslu, breytingartillögur skulu hafa borist til stjórnar á netfangið innsyn@hjukrun.is að minnsta kosti tveimur vikum fyrir aðalfund og sendar til félagsmanna viku fyrir fundinn. Allir félagsmenn í Innsýn geta komið með breytingartillögur.

Tenglar