Fara á efnissvæði

Fagdeild um forystu í hjúkrun

Fagdeildin er virkur þátttakandi í stefnumótun hjúkrunarstjórnunar, stuðlar að aukinni þekkingu hennar og stuðlar að eflingu gæða með ábyrgri, faglegri og rekstrarlegri stjórnun.

Um fagdeildina

Fagdeild um forystu í hjúkrun er opin öllum þeim hjúkrunarfræðingum í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga sem hafa áhuga á og/eða starfa við stjórnun og forystu innan heilbrigðis- og velferðarþjónustu.

Fagdeild um forystu í hjúkrun er áhugamannafélag sem hefur að markmiði að efla tengsl stjórnenda og leiðtoga innan hjúkrunar, miðla þekkingu og stuðla að framþróun innan fagsins. Leitast er við að vera virkur þátttakandi í stefnumótun, styðja við aukna þekkingu um forystu, hjúkrunarstjórnun, leiðtogahlutverk hjúkrunarfræðinga og gagnreynda starfshætti. Markmiðið er að efla forystuhlutverk hjúkrunarfræðinga.
Fagdeildin er virkur samstarfsaðili stjórnenda og leiðtoga á alþjóðavettvangi og beitir sér fyrir hnattrænni nálgun, menningarnæmri þjónustu, þverfaglegu samstarfi, rannsóknum og framförum í stjórnun og forystu.

Með þessi markmið að leiðarljósi stendur fagdeildin fyrir fundum og málþingum, tekur þátt í viðburðum og verkefnum, gefur út fréttabréf til félagsmanna og miðlar upplýsingum á facebook síðu fagdeildarinnar.

Stjórn

Formaður

Guðrún Árný Guðmundsdóttir

Hjúkrunardeildarstjóri á Lungnadeild Landspítala

Gjaldkeri

Ólafur Guðbjörn Skúlason

Framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala

Ritari

Bylgja Kærnested

Hjúkrunardeildarstjóri á Hjartadeild Landspítala

Meðstjórnandi

Hildur Elísabet Pétursdóttir

Framkvæmdastjóri hjúkrunar á Ísafirði

Meðstjórnandi

Þórdís Hulda Tómasdóttir

Framkvæmdastjóri hjúkrunarsviðs á Eir, Skjóli og Hömrum

Meðstjórnandi

Alda Ásgeirsdóttir

Forstöðumaður hjúkrunar hjá Kjarki endurhæfingu

Varamaður

Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir

Hjúkrunarstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á Patreksfirði

Starfsreglur

Kafli I – Fagdeild um forystu í hjúkrun

1 gr. Nafn
Nafn deildar er Fagdeild um forystu í hjúkrun. Fagdeildin starfar innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

2.gr. Tilgangur
Tilgangur deildarinnar er:

  • Að vera virkur þátttakandi í stefnumótun og talsmaður heilbrigðis- og velferðarþjónustu í samfélaginu.
  • Að stuðla að þekkingarsköpun og nýtingu bestu þekkingar með gagnreyndum starfsháttum við stjórnun og forystu heilbrigðis- og velferðarþjónustu.
  • Að stuðla að ábyrgri, faglegri og rekstrarlegri stjórnun og forystu til að tryggja og efla gæði heilbrigðis- og velferðarþjónustu.
  • Að efla og innleiða hnattræna nálgun og menningarnæma hjúkrun í heilbrigðis- og velferðarþjónustu.
  • Að efla hjúkrunarfræðinga sem leiðtoga innan heilbrigðis- og velferðarþjónustu.
  • Að vera virkur samstarfsaðili stjórnenda og leiðtoga á alþjóðavettvangi.
  • Að vera virkur þátttakandi í þverfaglegu samstarfi innan heilbrigðis- og velferðarþjónustu.
  • Að hvetja til rannsókna, þróunar og framfara í hjúkrunarstjórnun og forystu.
  • Að vera stjórn og fagdeildum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga til ráðgjafar.
  • Fagdeildin heyrir undir fagsvið Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Kafli II – Aðild

3. gr. Aðild
Rétt til aðildar að fagdeildinni eiga hjúkrunarfræðingar í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga sem starfa við og hafa áhuga á stjórnun og forystu.

4. gr. Umsókn um aðild
Umsókn um aðild að fagdeildinni skal berast til stjórnar fagdeildarinnar.

5. gr. Úrsögn
Úrsögn úr deildinni er hægt að skila skriflega til stjórnar. Einnig getur stjórn litið á það sem úrsögn ef félagsmaður hefur ekki greitt árgjald deildarinnar tvö ár í röð.

Kafli III – Skipulag deildar

6. gr. Lög
Deildin heyrir undir Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og lög félagsins eru lög deildarinnar.

7. gr. Aðalfundur
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum deildarinnar. Aðalfund skal halda ár hvert og skal til hans boða með að minnsta kosti tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti. Aðalfundur telst löglegur sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum mála.

8. gr. Stjórn
Stjórn deildarinnar skal skipuð fimm félagsmönnum, kjörnum á aðalfundi, til tveggja ára í senn. Formaður er kosinn sérstaklega en aðrir stjórnarmeðlimir skipta með sér hlutverkum gjaldkera, ritara og tveggja meðstjórnenda. Heimilt er að kjósa tvo varamenn í stjórn. Kosning skal vera skrifleg og leynileg ef fleiri en einn félagsmaður býður sig fram til sama embættis. Meirihluti aðalfundar ræður kjöri. Kjöri skal þannig háttað að aldrei gangi fleiri en þrír kjörnir stjórnendur auk varamanna úr stjórn hverju sinni.

9. gr. Dagskrá aðalfundar
Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

  • Kosning fundarstjóra og fundarritara
  • Skýrsla stjórnar lögð fram
  • Ársreikningar lagðir fram til samþykktar
  • Reglubreytingar
  • Ákvörðun félagsgjalds
  • Kosning stjórnar
  • Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga

10. gr. Félagsgjöld
Ákvörðun um félagsgjald skal tekin á aðalfundi og endurskoðuð árlega.

11. gr. Slit deildar
Ákvörðun um slit deildarinnar skal taka á aðalfundi með ¾ hlutum greiddra atkvæða og renna eignir deildarinnar til Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Skili deildin ekki ársskýrslu til stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga tvö ár í röð getur aðalfundur félagsins tekið ákvörðun um slit deildarinnar.

Kafli IV – Ársskýrsla, reikningar og endurskoðun

12. gr. Ársskýrsla
Deildin skal skila skýrslu um starfsemi sína til sviðsstjóra fagsviðs Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga fyrir lok marsmánaðar ár hvert.

13. gr. Reikningar og endurskoðun
Reikningstímabil deildar skal miðast við áramót. Á aðalfundi skal kjósa tvo skoðunarmenn reikninga úr röðum félagsmanna.

Kafli V – Gildistaka

14. gr. Gildistaka
Starfsreglur þessar öðlast gildi þegar þær hafa verið samþykktar á sérstaklega boðuðum stofnfundi deildarinnar.