Fara á efnissvæði
Frétt

Hámarksaldur heilbrigðisstarfsfólks ríkisins hækkar um áramótin

Ásta Möller, hjúkrunarfræðingur og varaformaður Öldungadeildar Fíh, fer yfir ný lög sem taka gildi um áramótin, þá hækkar valkvæður lífeyrisaldur heilbrigðisstarfsfólks sem starfa hjá hinu opinbera úr 70 ára í 75 ára.

Síðastliðið vor samþykkti Alþingi frumvarp um hámarksaldur heilbrigðisstarfsmanna ríkisins. Nú um áramótin taka lögin gildi og hækkar því valkvæður lífeyrisaldur heilbrigðisstarfsfólks sem starfa hjá hinu opinbera úr 70 ára í 75 ára.

Lögin hrófla ekki við lífeyristökualdri né ellilífeyrisaldri, ekki er verið að neyða neinn til að starfa til 75 ára aldurs. Einungis er verið að veita þeim sem óska eftir að starfa eftir sjötugt og hafa til þess heilsu, aukinn möguleika á sveigjanlegum starfslokum.

Meginmarkmið frumvarpsins er að tryggja fullnægjandi mönnun í heilbrigðisþjónustu, meiri gæðum og auknu öryggi. Lagasetningin gildir í fimm ár og verða lögin endurskoðuð að þeim tíma loknum.

Lögin eiga ekki við þá sem gegna stjórnunarstörfum eða starfa við kennslu, einungis þá sem eiga í beinum samskiptum við sjúklinga, sinna handleiðslu nema eða sinna rannsóknum í þjónustu við sjúklinga. Með þessum breytingum gæti stjórnandi til dæmis fært sig í klínískt starf við sjötugt.

Til þessa hafa heilbrigðisstofnanir gert tímavinnu- eða verktakasamninga við heilbrigðisstarfsfólk sem er eldra en 70 ára, slíkir samningar veita lakari rétt en ráðningarsamningar. Í greinargerð frumvarpsins er það viðurkennt að þær aðstæður þjóni ekki hagsmunum neinna og gert störf eftir sjötugt fráhrindandi, þannig hafi heilbrigðisþjónustan farið á mis við starfsframlag dýrmæts starfsfólks.

Þessi lagabreyting er verulega til hagsbóta fyrir hjúkrunarfræðinga sem kjósa að starfa við hjúkrun eftir sjötugt. Þeir starfa áfram samkvæmt kjarasamningi félagins og greiða áfram í sjóði félagsins. Þannig viðhalda þeir rétti sínum í orlofssjóð, styrktarsjóð, starfsmenntunarsjóð og sjúkrasjóð, auk þess sem veikindaréttur breytist ekki.

Þegar fólk verður sjötugt fellur niður skylda til að greiða í lífeyrissjóð. Viðkomandi getur hins vegar áfram greitt viðbótarlífeyrissparnað og aukið hlut sinn þar. Viðkomandi hefur val um hvort hann hefji lífeyristöku samhliða starfi sínu eða fresti lífeyristöku, en þeir sem fá lífeyri úr B-deild LSR mega þó ekki vera í meira en 49,9% starfi samfara lífeyristöku, en ekkert slíkt hámark á við um rétt í A-deild LSR.

Eldri hjúkrunarfræðingar skila sér nú sem fyrr til mikilvægra starfa í heilbrigðisþjónustunni. Þeir sem kjósa að starfa áfram eftir sjötugt er betur borgið með framangreindum breytingum um hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsmanna í klínísku starfi. Það er hins vegar ávallt val hvers og eins. Framangreindar breytingar horfa því bæði til hags þeirra sem leggja fram verðmæta vinnu, reynslu og þekkingu og stofnana sem þeirra vinnuframlag vilja þiggja til að mæta mönnunarþörf og gæðum hjúkrunar.