Fara á efnissvæði
Frétt

Ívilnanir námslána hjúkrunarfræðinga

Pistill Huldu Bjargar Óladóttur, gjaldkera Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Þær jákvæðu fréttir bárust nú á dögunum að starfshópur á vegum heilbrigðisráðherra hefur nú skilað af sér skýrslu þess efnis hvernig nýta megi heimildir í lögum um Menntasjóð námsmanna til að beita ívilnunum við endurgreiðslu námslána. Markmið slíkra ívilnana er að styrkja mönnun sérfræðinga heilbrigðisþjónustu í dreifðum byggðum, þar á meðal hjúkrunarfræðinga sem er jú fjölmennasta heilbrigðisstéttin en einnig sú stétt þar sem úrbætur í mönnun eru verulega aðkallandi. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur ítrekað bent á þessar heimildir í lögum sem leið til að styrkja stöðu hjúkrunar og því mikið fagnaðarefni að skýrsla starfshópsins sé komin út.

Námslánin geta verið þungur baggi, sérstaklega hjá yngri hjúkrunarfræðingum. Þau koma oftar en ekki til fyrstu afborgana á sama tíma og fólk er að koma sér upp húsnæði á fyrstu árunum eftir útskrift. Því getur aðgerð sem þessi verið veruleg kjarabót og þannig raunverulegur hvati til þess að starfa við hjúkrun.

Í skýrslu starfshópsins er talað um að höfuðstóll námlána lækki um 20% árlega og geti að jafnaði jafngilt 70 þúsund króna hækkun mánaðarlauna fyrir skatt. Með þessum hætti á ná fleiri hjúkrunarfræðingum inn í heilbrigðiskerfið að starfa við fagið sitt. Þegar mönnunin batnar hefur það um leið svo margar jákvæðar afleiðingar, starfsaðstæður hjúkrunarfræðinga sjálfra batna, öryggi sjúklinga eykst, þjónustan batnar og þannig mætti lengi telja.

Hjúkrunarfræðingar eru vel menntaðir og hafa hæfni til margra starfa og því er og verður samkeppnin um þá alltaf hörð. Því er nauðsynlegt að leita leiða eins og ívilnana námslána til að mynda hvata til að starfa áfram innan heilbrigðiskerfisins. Tillögur þessa starfshóps miðar einkum að því að skapa annars vegar sérstakan hvata fyrir fólk að sækja sér tiltekna menntun og starfa í tiltekinni starfsgrein þar sem er skortur eða fyrirsjáanlegur skortur á sérfræðingum í greininni og hins vegar að beita umræddri ívilnun til að bregðast við skorti á ákveðnum svæðum á landinu. Auðvelt er að rökstyðja að hjúkrunarfræðingar falli undir báðar þessar skilgreiningar og þurfi ívilnanir ekki endilega að einskorðast við landsbyggðina.

Mönnunarvandi í hjúkrun er margumtalað vandamál. Til þess að bæta mönnun í hjúkrun þarf að vinna að mörgum mismunandi þáttum. Ívilnanir námslána eru ein leiðin. Ef vel tekst til gætu ívilnanir námslána orðið mjög mikilvæg leið til að byggja upp gott heilbrigðiskerfi með forvirkum aðgerðum.

Hulda Björg Óladóttir, gjaldkeri Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga