Fara á efnissvæði

Rekstur fag- og landsvæðadeilda

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga styður fag- og landsvæðadeildir, veitir þeim ýmsa þjónustu og styrki.

Þjónusta félagsins

Fag- og landsvæðadeildum stendur til boða húsnæði til fundarhalda og símenntunar endurgjaldslaust. Innifalið er fundarsalur, skjávarpi, tölva og búnaður til fjarfunda, kaffivél og vatnsvél. Starfsfólk veitir leiðbeiningar um notkun tölvubúnaðs í fundarsölum á skrifstofutíma.

Allir formenn fag- og landsvæðadeilda fá netfang sem tengt er viðkomandi fag- eða landsvæðadeild og endar á @hjukrun.is. Til þess að það virki þarf að tilkynna skrifstofu félagsins um formannaskipti og netföng þeirra, svo hægt sé að tengja það innan @hjukrun.is

Allur bréfpóstur fag- og landsvæðadeilda sem berst á skrifstofuna er áframsendur til formanns fagdeildar vikulega.

Prentun límmiða og félagalista fyrir fag- og landsvæðadeildir. Límmiða þarf að panta með að minnsta kosti þriggja daga fyrirvara.

Uppfærsla frá Hagstofu á félagaskrá fag- og landsvæðadeilda.

Tekið við pöntunum á fundarsal og Sigríðarstofu.

Færsla efnis inn á vefinn frá fagdeildum.

Senda út póst á netföng eftir netfangaskrá fagdeildar.

Aðstoð við ljósritun á fréttabréfi og öðrum bæklingum. Beiðni um aðstoð þarf að berast með nokkra daga fyrirvara.

Tekið er við umsóknum um inngöngu í fag- og landsvæðadeild og áframsent til formanns viðkomandi deildar. Þegar búið er að samþykkja nýja félaga eru þeir færðir í félagaskrá.

Styrkir

Fag- og landsvæðadeildir geta sótt árlega um styrk til Fíh að upphæð 400 þúsund krónur til að styðja við starfsemi sína. Styrknum má ráðstafa til innlendra og erlendra verkefna.  Umsókn um styrk skal berast til sviðstjóra fagsviðs Fíh fyrir 15. janúar ár hvert.

Ný fag- eða landsvæðadeild sem bíður eftir samþykki fyrir stofnun getur sótt um stofnstyrk með fyrirvara um samþykki aðalfundar. Stofnstyrkur er 100 þúsund krónur. 

Landsvæðadeildir geta þær sótt árlega um styrk vegna kostnaðar við fundaaðstöðu að upphæð 100 þúsund krónur, er þetta gert til að komast á móts við deildir sem eiga ekki kost á því að nýta sal Fíh í Reykjavík.

Stjórn fag- eða landsvæðadeildar ber ábyrgð á ráðstöfun styrkja. Styrkir eru greiddir gegn framvísun reikninga.

Sé styrkurinn ekki sóttur innan 12 mánaða frá afgreiðslu hans fellur hann niður. Stjórn Fíh áskilur sér rétt til endurskoðunar á úthlutunarreglum.

Viðbótarstyrkur

Hægt er að sækja um styrk til ákveðinna tímabundinna verkefna sem að öllu jöfnu eru ekki hluti af starfsemi fag- eða landsvæðadeildar, til dæmis vegna stjórnarsetu í stjórn erlendra samtaka eða vegna átaksverkefnis.

Hver fag- og landsvæðadeild getur fengið í viðbótarstyrk að hámarki 300 þúsund krónur á ári. Til viðbótarstyrkja er samtals varið að hámarki 1.5 miljón króna á ári. Umsóknum um viðbótarstyrk skal skila skriflega til stjórnar Fíh fyrir 15. apríl og 15. nóvember ár hvert.

Ef deildin á meira en 500 þúsund krónur í eigið fé í lok síðasta starfsárs á deildin ekki kost á viðbótarstyrk.
Einungis er hægt að sækja um viðbótarstyrk ef nýttur hefur verið að fullu árlegur styrkur til deildarinnar síðasta starfsár.

Umsókn skal fylgja:

  1. Rökstuðningur fyrir verkefni.
  2. Nákvæm fjárhagsáætlun verkefnis.
  3. Fjárhagsáætlun landsvæðadeildar.
  4. Yfirlit yfir eigið fé í lok síðasta starfsárs og þegar umsókn er lögð fram.
  5. Upplýsingar um bankanúmer ásamt kennitölu landsvæðadeildar.

Hlutverk og ábyrgð

Fagdeild vinnur að framgangi hjúkrunar á viðkomandi sérsviði í samvinnu við fagsvið Fíh.

Landsvæðadeildir vinna að framgangi hjúkrunar á sínu landsvæði. Hlutverk þeirra er að veita félagsmönnum sínum fræðslu og efla fag-og félagsheild á svæðinu.

Fag- og landsvæðadeildir eru stjórn og nefndum Fíh til ráðgjafar, sbr. 12.gr. laga Fíh.

Í starfsreglum hverrar deildar koma fram nánari markmið og/eða stefna í hjúkrunar og heilbrigðismálum.

Deildum ber að halda utan um skjöl og skrá fundargerðir. Breytingar á stjórn þarf að tilkynna til skrifstofu Fíh.

Stjórn deildar ber ábyrgð á fjárreiðum deildarinnar.

Teams svæði

Stjórnir fag- og landsvæðadeilda hafa aðgang að eigin svæði á Teams sem er hýst af Fíh. Tilgangurinn er að auðvelda skjalastjórnun, tryggja að nýjar stjórnir hafi aðgang að eldri gögnum og koma þannig í veg fyrir að gögn glatist. Stjórnum er frjálst að ákveða hvort og hvernig þær nota svæðið.

Tengsl við fagsvið Fíh

Fag- og landsvæðadeildir tilheyra fagsviði Fíh. Sviðstjóri fagsviðs boðar til fundar með formönnum fag- og landsvæðadeilda a.m.k. tvisvar á ári. Skal þar vera vettvangur umræðna, samstarfs og upplýsingamiðlunar milli deilda og fagsviðs Fíh.
Fundirnir skulu haldnir að vori og hausti ár hvert.
Stjórn landsvæðadeildar skal tilkynna sviðstjóra fagsviðs Fíh um nýkjörna stjórn hennar svo og allar breytingar sem verða á henni á kjörtímabilinu.

Fag- og landsvæðadeildir skila árlegri skýrslu um starfsemi sína til sviðstjóra fagsviðs Fíh fyrir lok marsmánaðar, skýrslan er svo áframsend frá fagsviði til stjórnar Fíh.

Ársskýrsla

Fag- og landsvæðadeildir þurfa skila skýrslu um starfsemi sína til sviðstjóra fagsviðs Fíh fyrir lok marsmánaðar ár hvert.

Starfsreglur

Hver fag- og landsvæðadeild setur sér starfsreglur þar sem fram kemur m.a. tilgangur og markmið deildarinnar. Starfsreglurnar eru byggðar á starfsreglum deilda Fíh sem stjórn Fíh hefur samþykkt. Smelltu á + takkann til að sjá sniðmát.

Hvernig á að stofna fag- eða landsvæðadeild? 

Félagsfólk, að lágmarki 25 saman, er heimilt að stofna fagdeild á sínu fagsviði eða deild á ákveðnu landsvæði.

Fagdeild þarf að starfa á landsvísu.  Félagsfólk, sem annaðhvort býr eða starfar á svæðinu geta skráð sig í viðkomandi landsvæðadeild. Þátttaka í fag- og landsvæðadeildum er valkvæð.

Fyrirhuguð fag- eða landsvæðadeild setur sér starfsreglur sem eru byggðar á starfsreglum fag- eða landsvæðadeilda Fíh sem stjórn Fíh hefur samþykkt. 

Starfsreglur væntanlegrar fag- eða landsvæðadeildar skulu lagðar fyrir aðalfund Fíh til samþykktar. 

Senda þarf starfsreglur væntanlegrar fag- eða landsvæðadeildar til stjórnar Fíh a.m.k. 4 vikum fyrir aðalfund. 

Samþykki aðalfundur stofnun fyrirhugaðrar fag- eða landsvæðadeildar skal senda skriflega staðfestingu þar um til þess aðila sem sendi inn beiðni um stofnun viðkomandi fag- eða landsvæðadeildar. 

Hvernig á að leggja niður fag- eða landsvæðadeild? 

Fag- eða landsvæðadeild er hægt að leggja niður sé það samþykkt af ¾ hluta greiddra atkvæða á aðalfundi viðkomandi fag- eða landsvæðadeildar.

Skili fag- eða landsvæðadeild ekki ársskýrslu til stjórnar Fíh tvö ár í röð getur aðalfundur félagsins ákveðið að leggja deildina niður.

Tengt efni