- Dagsetning
- 12. maí 2025
Í skýrslunni koma m.a. fram mikilvægar niðurstöður könnunar sem ICN framkvæmdi á síðasta ári meðal hjúkrunarfélaga um heim allan. Þar kemur fram að á heimsvísu glíma heilbrigðiskerfi við mikinn skort á hjúkrunarfræðingum, bágar starfsaðstæður, erfiðleika við að halda uppi heilbrigðisþjónustu vegna þess, aukna tíðni kulnunar meðal starfandi hjúkrunarfræðinga. Nærri helmingur hjúkrunarfélaga í heiminum greindu frá aukningu í brotthvarfi hjúkrunarfræðinga úr starfi frá árinu 2021. Rúmur þriðjungur hjúkrunarfélaga sögðu laun hafa lækkað frá 2021 vegna áhrifa verðbólgu.
Samkvæmt niðurstöðum frá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) frá 2024 upplifðu 61% hjúkrunarfræðinga á heimsvísu mikið starfsálag, tvöfalt fleiri en meðaltal annarra starfsgreina. Einnig hefur áhugi á hjúkrunarstörfum minnkað hjá u.þ.b. helmingi aðildarríkja OECD á árunum 2018-2022.
Þetta sýnir að ennþá stendur hjúkrunarstéttin á heimsvísu frammi fyrir fordæmalausri kreppu sem hefur djúpstæð áhrif á heilbrigðiskerfi þjóða, efnahag og framtíð heilbrigðisþjónustu.
ICN hefur því sett fram sjö lykilaðgerðir á manneklu hjúkrunarfræðinga sem eru mjög skýrar, byggðar á niðurstöðum rannsókna og er brýnt að hrinda í framkvæmd.
1. Tryggja næga mönnun hjúkrunarfræðinga og rétta samsetningu mannafla í hjúkrun svo hægt sé að veita árangursríka hjúkrun
2. Fjárfesta í réttum úrræðum og búnaði
3. Veita öruggt og mannsæmandi starfsumhverfi
4. Styðja menntun, starfsþróun og hámarka framlag hjúkrunarfræðinga miðað við menntun og hæfni
5. Byggja upp hvetjandi og árangursríka starfsmenningu
6. Bæta aðgengi að heilbrigðisþjónustu og heilsueflandi stuðningi
7. Tryggja hjúkrunarfræðingum sanngjörn og samkeppnishæf kjör
Pamela Cipriano forseti ICN bendir réttilega á að með þessum aðgerðum er hægt að breyta hjúkrunarfræðingum úr því að vera ósýnilegir, yfir í að vera ómetanlegir. Hjúkrunarfræðingar geta þannig orðið enn frekar lykillinn að heilbrigðari samfélögum, blómlegum hagkerfum og öflugum ríkjum.