Fara á efnissvæði

Vinnutími

Í kjarasamningum 2020 var samið um styttingu vinnuviku og stærstur hópur hjúkrunarfræðinga eða þeir sem starfa á opinberum vinnumarkaði taka mið af samkomulagi um betri vinnutíma.

Samið var um mismunandi útfærslu á betri vinnutíma fyrir dagvinnu og vaktavinnu. Hjá dagvinnufólki var samið um heimild til að stytta vinnuvikuna um allt að 4 klukkustundir á viku eða úr 40 í 36 virkar stundir. Hjá vaktavinnufólki styttist vinnuvikan í fullu starfi úr 40 klukkustundum í 36 á viku með möguleika á styttingu í allt að 32 klukkustundir með hliðsjón af því hvenær innan sólarhringsins og viku er unnið.

Um 7% hjúkrunarfræðinga starfa á almennum vinnumarkaði og taka mið af kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins. Virkur vinnutími hjúkrunarfræðinga sem starfa samkvæmt þessum samningi er 35,5 klukkustundir að jafnaði á viku. Neysluhlé og önnur hlé frá vinnu vegna ýmiss konar persónulegra erinda teljast ekki til virks vinnutíma í þessu sambandi.