Fara á efnissvæði
Frétt

Þing Evrópusamtaka hjúkrunarfræðinga í Dublin

Þing EFN var haldið í Dublin á Írlandi nú í október. Þar var m.a. fjallað um fjárfestingu í hjúkrun til framtíðar og stuðning við hjúkrunarfræðinga á Gaza.

Þing Evrópusamtaka hjúkrunarfræðinga (EFN) var haldið í Dublin á Írlandi dagana 16. og 17. október. Þar voru saman komnir fulltrúar hjúkrunarfræðinga allra hjúkrunarfélaga í Evrópu, þar á meðal Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Tekin voru fyrir ýmis mál sem við koma hjúkrunarfræðingum, þar á meðal stefnuályktanir um starfsþróun, menntun og viðbrögð við utanaðkomandi hættum.

Þörf á fleiri kennurum í hjúkrunarfræði

Skortur er á framhaldsmenntuðum hjúkrunarfræðingum í Evrópu og hefur það áhrif á þann fjölda hjúkrunarfræðinga sem geta útskrifast úr námi, þar sem þessi skortur lýsir sér meðal annars í skorti á kennurum. Á sama tíma og mikill skortur er á hjúkrunarfræðingum þá hafa ríkisstjórnir víða um álfuna ákveðið að skera niður nám í hjúkrunarfræði. Í stefnuyfirlýsingu EFN um þetta mikilvæga mál eru ríkisstjórnir Evrópu hvattar til að auka fjárveitingar til námsbrauta í hjúkrunarfræði með það að markmiði að auka gæði menntunar fyrir það krefjandi starf sem fram undan er.

Viðbrögð við utanaðkomandi hættum er ofarlega á dagskrá í Evrópu um þessar mundir í ljósi átaka víða um heim, náttúruhamfara og loftslagsbreytinga. Evrópuráðið (e. European commission) gaf nýverið út skýrslu sem hvetur ríki álfunnar til að vinna saman til að tryggja nægan fjölda heilbrigðisstarfsfólks. Í stefnuyfirlýsingu EFN segir að Covid-heimsfaraldurinn hafi kennt öllum mikilvægi þess að vera viðbúin stórum áskorunum og fjárfesting í hjúkrun er nauðsynleg til að tryggja að Evrópa sé tilbúin að takast á við stórar áskoranir.

Endurreisn heilbrigðiskerfis Gaza

Á þinginu var einnig gefin út yfirlýsing til stuðnings hjúkrunarfræðingum og öðru heilbrigðisstarfsfólki á Gaza, við blasir stórt verkefni við endurreisn heilbrigðiskerfisins þar.

Í yfirlýsingunni er lýst samúðarkveðjum og stuðningi við hjúkrunarfræðinga og annað heilbrigðisstarfsfólk á Gaza sem hafa starfað af hugrekki og samkennd við ólýsanlegar aðstæður. Þau hafa staðið í fremstu víglínu við að verja líf ásamt því að standa vörð um faglega og siðferðislega skyldu sína til að annast alla án þess að fara í manngreinarálit.

Afleiðingar átakanna eru hrikalegar, margir hjúkrunarfræðingar, sem og annað heilbrigðisstarfsfólk, hefur orðið fyrir árásum og látið lífið. Þeir sem eftir eru glíma margir hverjir við örmögnun, sorg og kulnun eftir langvarandi líkamlegt og andlegt álag. Þrátt fyrir allt halda þau áfram að sinna sínu starfi og eru þessir hjúkrunarfræðingar hornsteinninn sem heilbrigðiskerfi Gaza til framtíðar mun byggjast á.

Aðkoma hjúkrunarfræðinga að endurreisn heilbrigðiskerfisins á Gaza er nauðsynleg á öllum stigum. Tryggja þarf að leiðtogar í hjúkrun fái svigrúm til að endurreisa traust á heilbrigðiskerfinu, kennarar í hjúkrunarfræðinámi fái styrk til að mennta næstu kynslóð hjúkrunarfræðinga auk þess sem hlúa þarf að geðheilbrigði hjúkrunarfræðinga sem starfað hafa í framlínunni. Félög hjúkrunarfræðinga um alla Evrópu eru tilbúin að veita aðstoð við endurreisnina og eru tilbúin að starfa með Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, Evrópusambandinu og Alþjóðaráði hjúkrunarfræðinga við það mikla starf.