Fara á efnissvæði
Frétt

Peter, Sigurbjörg og Sigrún Huld aðalfyrirlesarar Hjúkrun 2023

Peter Griffiths, Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir og Sigrún Huld Þorgrímsdóttir verða aðalfyrirlesarar vísindaráðstefnunnar Hjúkrun 2023 sem haldin verður dagana 28. og 29. september.

Peter Griffiths mun halda fyrirlestur fimmtudaginn 28. september og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir föstudaginn 29. september.

Peter Griffiths er prófessor í heilbrigðisvísindum við Háskólann í Southampton.

Peter Griffiths er prófessor í heilbrigðisvísindum við University of Southampton og leiðandi rannsakandi hjá National Institute for Health Research á Englandi. Hann leiðir Health Workforce and Systems research theme við NIHR Applied Research Collaboration í Wessex og er meðlimur í heilbrigðisvísindaakademíu University of Pennsylvania í Bandaríkjunum. Rannsóknir hans og kennsla snýr að mönnun og öryggi. Hann er sjálfur hjúkrunarfræðingur og hefur unnið náið við stefnumótun í Bretlandi og víðar um heim. Meðal þess sem hann hefur unnið að er gæðahandbók National Institute for Health and Care Excellence og mönnunarviðmið NHS í Bretlandi. Rannsóknir hans í dag snúa meðal annars að mönnunarviðmiðum út frá hagfræðilegu sjónarhorni og hvernig nálgast eigi vandamál tengd mönnun. Peter er einnig aðalritstjóri International Journal of Nursing Studies, en það er vísindatímarit sem er leiðandi á sviði hjúkrunarfræði á heimsvísu.

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir er prófessor í opinberri stjórnsýslu og stefnumótun við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.

Sigurbjörg lauk meistaragráðu í stjórnsýslufræðum árið 1999 við London School of Economics and Political Science og síðan doktorsgráðu við sama skóla árið 2005. Rannsóknir Sigurbjargar hafa beinst að því hvernig hugmyndir verða að veruleika í opinberri stefnumótun á tilteknum tíma, hverjir taka þátt í þeirri stefnumótun og hvaða aðferðum þeir beita. Doktorsrannsókn Sigurbjargar var um sameiningu sjúkrahúsa í Reykjavík og í London á tíunda áratugnum. Þá hefur hún m.a. rannsakað þróun hugmyndanna að baki notendastýrðri persónulegri aðstoð hér á landi og þróun heilsugæslulækninga á Íslandi. Rannsóknir Sigurbjargar á áhrifum ákæru á hendur heilbrigðisstarfsfólki birtust í tímaritinu Stjórnmál og Stjórnsýsla í desember 2020 undir yfirskriftinni Criminalisation of Human Error in Health Care og í Læknablaðinu í janúar 2021 undir yfirskriftinni Viðhorf hjúkrunarfræðinga og almenn viðhorf til ákæru vegna alvarlegra sjúklingaatvika í heilbrigðisþjónustu: Eru blikur á lofti? Meðhöfundar að síðari greininni voru Elísabet Benedikz, læknir og Anna María Þórðardóttir, hjúkrunarfræðingur.

Sigrún Huld Þorgrímsdóttir er sérfræðingur í öldrunarhjúkrun og bókahöfundur.

Sigrún Huld er sérfræðingur í öldrunarhjúkrun með áherslu á geðræn viðfangsefni aldraðra og hjúkrun fólks með heilabilun en hún lauk einnig diplómanámi í geðhjúkrun.

Sigrún Huld lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Tjörnina 1974 og lauk hjúkrunarprófi frá Hjúkrunarskóla Íslands árið 1984. Hún starfaði framan af við Borgarspítala á blóð- og smitsjúkdómadeild en einnig í Kaupmannahöfn við lyflæknis- og öldrunarhjúkrun. Frá aldamótum hefur hún helgað öldrunarhjúkrun starfskrafta sína og unnið sem hjúkrunarfræðingur og deildarstjóri á Grund, í Skógarbæ og Landakoti meðal annars. Rannsóknir Sigrúnar Huldar og ritstörf hafa fjallað um öldrunarmál. Má þar nefna Minningavinna með öldruðum Íslendingum – mat á hjálpartæki. Ritrýnd grein í samstarfi við Kristínu Björnsdóttur: Reminiscence work with older people: the development of a historical reminiscence tool. Older People Nursing, 2015. Einnig greinarnar Sjálfræði aldraðra Íslendinga og Sjálfræði aldraðra: Hindranir í umönnun sem birtust 2010-2011 í Tímariti hjúkrunarfræðinga.

Árið 2009 gaf hún út bókina Þegar amma var ung. Mannlíf og atburðir á Íslandi 1925-1955 sem hún vann í framhaldi af meistarverkefni sínu. Árið 2019 gaf hún út bókina Ný menning í öldrunarþjónustu sem er umfjöllun um breytt viðhorf og aðferðir í öldrunarþjónustu Vesturlanda á undanförnum áratugum.