Í dag, 14. nóvember 2025, er eitt ár liðið frá því að Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga undirritaði miðlægan kjarasamning við ríkið. Allt frá undirritun hefur Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga lagt allt kapp á að gera stofnanasamninga við þær stofnanir sem heyra undir kjarasamninginn.
Stofnanasamningur er hluti af kjarasamningnum og segir í 11. gr. kjarasamningsins að stofnanasamningur sé sérstakur samningur milli Fíh og stofnunar um aðlögun tiltekinna þátta kjarasamningsins að þörfum hverrar stofnunar og starfsfólks. Er markmiðið að styrkja starfsemi stofnananna til lengri tíma og skapa forsendur fyrir betri starfsskilyrðum hjúkrunarfræðinga. Með nýjum stofnanasamningum nú er innleitt starfsþróunarkerfi fyrir hjúkrunarfræðinga sem er mikið hagsbótamál fyrir alla hluteigandi þar sem sí- og endurmenntun er stór og mikilvægur þáttur í starfi hjúkrunarfræðinga.
Í desember 2024, tveimur vikum eftir undirritun miðlægs kjarasamnings var skrifað undir stofnanasamninga við Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en þessar stofnanir hafa starfrækt starfsþróunarkerfi til margra ára.
Fimm mánuðum eftir undirritun miðlægs kjarasamnings við ríkið, eða þann 1. apríl síðastliðinn, var stofnanasamningur við HSS með nýju starfsþróunarkerfi fyrir hjúkrunarfræðinga undirritaður. Í kjölfarið hafa HSU, HVEST og HSA einnig undirritað samninga. Samstarf við þær stofnanir sem lokið hafa samningum hefur verið uppbyggilegt en framvinda við gerð samninganna hefur verið misjöfn. Allir samningarnir taka gildi frá 1. apríl 2025, enda teljast þau tímamörk sanngjörn eins og fordæmi HSS samnings sýnir. Fíh sýndi og hefur sýnt heilbrigðisstofnunum bæði skilning og svigrúm á þessu tímabili vegna mikilla anna tengdum innleiðingu annarra kjarasamninga.
Í dag, er heilt ár liðið frá undirritun miðlægs kjarasamnings.
Hluti hjúkrunarfræðinga sem starfar á heilbrigðisstofnunum ríkisins á landsbyggðinni situr enn eftir. Hjúkrunarfræðingar munu ekki samþykkja mismun sem skortir málefnaleg rök. Hjúkrunarfræðingar munu ekki bera kostnað af þeirri seinkun sem stofnanir leyfa sér við að ljúka stofnanasamningum, sem eru órjúfanlegur hluti kjarasamnings. Það stendur ekki á Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga að ljúka samningum.





