Fara á efnissvæði
Frétt

Átakanleg staða á fyrirsjáanlegum vanda

Viðbrögð Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga við stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar um mönnun og flæði sjúklinga á Landspítala.

Í lok árs 2024 barst beiðni frá Ríkisendurskoðun (RE) til Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) um álit félagsins á framvindu tillagna sem settar voru fram í tveimur skýrslum, Tillögur til fjölgunar útskrifaðra hjúkrunarfræðinga og Mönnun hjúkrunarfræðinga.

Einnig var óskað eftir afstöðu Fíh til tillagna er lagðar voru fram í skýrslunni Mönnunarviðmið í hjúkrun sem kom út í nóvember 2024. Að lokum var spurt hvort Fíh byggi yfir tölfræði um þróun og samsetningu stéttarinnar þar sem slíkar upplýsingar eru ekki tiltækar hjá hinu opinbera.

Fíh fór kerfisbundið yfir áðurnefndar skýrslur og skilaði áliti sínu á framvindu á tillögunum. Einnig sendi Fíh Ríkisendurskoðun samantekt og umræðu um fjölda hjúkrunarfræðinga af erlendu þjóðerni þar sem skortur var á umræðu eða athygli á því í áðurnefndum skýrslum. Finna má svör Fíh í skýrslunni Árangur stjórnvalda varðandi mönnun og menntun hjúkrunarfræðinga - Álit Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga vegna úttektar Ríkisendurskoðunar.

Nú hefur RE unnið úr svörum Fíh ásamt öðrum upplýsingum og gefið út stjórnsýsluúttekt undir heitinu Landspítali – Mönnun og flæði sjúklinga.

Úttekt RE sýnir afar slæma stöðu mála innan Landspítala (LSH) og heilbrigðiskerfisins alls hvað varðar mönnun heilbrigðisstarfsfólks og flæði sjúklinga. RE gerir athugasemdir við það hversu litlar efndir heilbrigðisyfirvöld fylgja eftir tillögum um úrbætur, sér í lagi um uppbyggingu hjúkrunarrýma og hversu lítil yfirsýn og stjórnun er yfir heilbrigðiskerfinu í heild sinni.

Viðurkenning fæst á því að stærsti vandi varðandi flæði sjúklinga á LSH er ekki á færi spítalans að leysa en ofurálag, óskilvirkni og hættulegar aðstæður skapast í starfsemi spítalans stóran hluta ársins þegar ekki er hægt að útskrifa einstaklinga sem lokið hafa meðferð. Einnig er ítarlega fjallað um mönnun á LSH þar sem kemur fram að sett hafi verið viðmið um að hlutfall hjúkrunarfræðinga eigi ekki að vera lægra en 60%, þar sem bein tengsl eru á milli hjúkrunarmönnunar og gæða þjónustunnar. Það hlutfall hefur aldrei farið yfir 50% frá árinu 2019 og engin leitni verið í átt til hækkunar. Má því draga þá ályktun að gæði hjúkrunar, öryggi og þjónusta við sjúklinga sé verulega ábótavant.

Í úttektinni eru settar fram tólf megintillögur og eru þar þær veigamestu þær nákvæmlega sömu og Fíh hefur ítrekað bent á. Það er, að auka yfirsýn yfir framboð og eftirspurn heilbrigðisþjónustu, gera heildstæða áætlun um hvernig skuli bregðast við aukinni þörf fyrir þjónustuna og skorti á mannafla, og stýra aðgerðum í samræmi við þá áætlun. Fíh hefur bent stjórnvöldum á mikilvægi þess að stofna embætti yfirhjúkrunarfræðings í samræmi við tilmæli Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO). Hlutverk slíks embættis væri að leiða stefnumótun og áætlanagerð varðandi hjúkrunarþjónustu á landsvísu, sem samkvæmt úttekt RE er brýnt og full ástæða til að ráðast í. Ein birtingarmynd á skorti á yfirsýn er einmitt vöntun á opinberri tölfræði um þróun og samsetningu heilbrigðisstétta.

Önnur tillaga beinir því til stjórnvalda að þróa og innleiða mönnunarviðmið auk þess að nýta mannauðinn betur með endurskoðun á verkaskiptingu stétta. Þessi tvö atriði hafa verið ein helstu baráttumál Fíh, að koma á mönnunarviðmiðum og víkka starfssvið sérfræðinga í hjúkrun en unnið er að þeim í dag með heilbrigðisráðuneyti sem er jákvætt.

Lestri úttektarinnar fylgir átakanleg mynd af hörmulegri stöðu flæðis sjúklinga, skorti á hjúkrunarfræðingum og öðru heilbrigðisstarfsfólki og því hve lítið hefur verið gert af að bregðast við þessari afar fyrirsjáanlegu þróun.

Fíh væntir þess að núverandi heilbrigðisráðherra sem hefur djúpa og yfirgripsmikla þekkingu á málaflokknum úr fyrri störfum sínum sem landlæknir beiti sér ásamt Alþingi, af fullum þunga við að snúa þessari þróun við, tryggja öryggi sjúklinga og bæta starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga og annars heilbrigðisstarfsfólks.