Fara á efnissvæði
Frétt

Auka stuðning við hjúkrunarfræðinga á átakasvæðum

Á stjórnarfundi ICN í Genf 22. til 27. janúar 2024 tilkynnti Howard Catton forstjóri, að ICN hafi aukið stuðning sinn við hjúkrunarfræðinga sem starfa í framlínu átaka í Úkraínu, Palestínu, Ísrael, Afganistan, Súdan og Myanmar.

Alþjóðaráð hjúkrunarfræðinga, ICN, ítrekar ákall um frið á Gaza, óheft aðgengi allra á svæðinu að heilbrigðisþjónustu og að öllum gíslum verði sleppt. Þetta kemur fram í tilkynningu ICN. ICN fordæmir árásir á heilbrigðisstarfsfólk og heilbrigðisstofnanir, fjöldi langra átaka setur hjúkrunarfræðinga í mikla hættu.

Átakið #NursesForPeace hófst árið 2022 sem viðbrögð við stríðinu í Úkraínu og hefur tekist að safna fjármunum sem gagnast hjúkrunarfræðingum sem starfa í framlínu átaka víða um heim og vekja athygli á áhrifum átaka á heilbrigðiskerfi heimsins.

Palestína og Ísrael

Stuttu eftir að átökin hófust á Gaza í október 2023 hafði ICN samband við félög hjúkrunarfræðinga í bæði Palestínu og Ísrael til að bjóða þeim stuðning. ICN er í stöðugu sambandi við félög hjúkrunarfræðinga í Palestínu og Ísrael og hefur veitt þeim fjárhagslegan stuðning.

ICN, líkt og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, fordæmdi árásir á heilbrigðisstarfsfólk og bað allar stríðandi fylkingar um að tryggja aðgang allra að heilbrigðisþjónustu. Hefur ICN ítrekað ákall sitt um frið á svæðinu. Genfarsáttmálinn bannar árásir á almenna borgara og áréttar að hlúa þurfi að veikum og særðum. ICN hefur borist margar ábendingar um að hjúkrunarfræðingar hafi látið lífið á átakasvæðunum.

Úkraína

Á fundi sínum í Genf ítrekaði ICN ákall sitt um frið í Úkraínu. Í skilaboðum til stjórnar ICN þakkaði Tetyana Chernyshenko, formaður Félags úkraínskra hjúkrunarfræðinga, bæði ICN og alþjóðasamfélagi hjúkrunarfræðinga fyrir stuðning sinn og áréttaði von sína um að átökunum ljúki. Hún lýsti miklum styrk hjúkrunarfræðinga í Úkraínu á þeim tæpu tveimur árum frá því stríðið hófst. „Þrátt fyrir stríðið hafa hjúkrunarfræðingar staðið með öðru heilbrigðisstarfsfólki til að bjarga lífum á hverjum degi, á hverri mínútu,“ sagði Chernyshenko. Bætti hún við að stríðið hafi ekki staðið í vegi fyrir símenntun hjúkrunarfræðinga sem séu duglegir við að sækja námskeið og ráðstefnur rafrænt.

Myanmar

ICN hefur sent stjórnvöldum í Myanmar ákall um að verja hjúkrunarfræðinga sem eru að veita mannúðaraðstoð í landinu. Þrjú ár eru liðin frá herbyltingunni í Myanmar og er ástandið í landinu enn ótryggt bæði almennum borgurum og heilbrigðisstarfsfólki. Í yfirlýsingu ICN frá 2021 var það áréttað að hjúkrunarfræðingar verði að fá að starfa óháð því í „hvaða liði“ þeir eru, í samræmi við siðareglur. Þörf á heilbrigðisþjónustu er almenn og óháð aldri, kyni, kynhneigð, þjóðfélagslegri stöðu, trúarafstöðu, fötlun, stjórnmálaskoðunum, húðlit og þjóðerni. Á þetta við um alla íbúa Myanmar.

Afganistan

Mikil óvissa ríkir um stöðu hjúkrunarfræðinga og kvenna í Afganistan eftir að Talibanar tóku aftur völdin í landinu árið 2020. Heilbrigðiskerfi landsins er veikburða og hefur þurft að takast á við ýmsar náttúruhamfarir í landinu síðustu tvö ár, ber þar helst að nefna stóran jarðskjálfta sumarið 2022. ICN sendi frá sér yfirlýsingu í desember 2022 þegar Talibanar bönnuðu konum að stunda nám á háskólastigi, er það stórt skref aftur á bak þegar kemur að jafnrétti kynja og mun hafa slæm áhrif á efnahag landsins sem og heilbrigðiskerfi.

ICN er enn í samskiptum við Félag afganskra hjúkrunarfræðinga og hefur fjármagnað námskeið í grunnþjónustu.

Súdan

Félag súdanskra hjúkrunarfræðinga gekk í ICN í júní 2023, enn geisar þar borgarastríð sem með tilheyrandi álagi á hjúkrunarfræðinga. ICN ítrekar ákall sitt um frið á svæðinu og að komið verði í veg fyrir árásir á heilbrigðisstarfsfólk. ICN er í samskiptum við Mowafag Hassan, formann Félags súdanskra hjúkrunarfræðinga, sem segir ástandið í landinu hörmulegt. Heilbrigðiskerfið sé nánast alveg hrunið, búið sé að ræna spítala og stórir hópar hafi þurft að yfirgefa heimili sitt, ekki sé vitað um afdrif fjölmargra hjúkrunarfræðinga.

Japan

Félag japanskra hjúkrunarfræðinga flutti skýrslu fyrir ICN þar sem farið var yfir viðbrögð við jarðskjálftanum 1. janúar á Nota svæðinu í Japan. Sett var upp neyðarstjórnstöð og hófst náið samstarf við hjúkrunarfræðinga á svæðinu ásamt heilbrigðisráðuneyti Japan. Sérþjálfaðir hjúkrunarfræðingar fóru á vettvang og aðstoðuðu hjúkrunarfræðinga á svæðinu. Veðrið setti strik í reikninginn sem og skemmdar byggingar á svæðinu. ICN þakkaði fyrir góða skýrslu og þakkaði hjúkrunarfræðingum fyrir vel unnin störf.