Delaney hefur bæði kennt við Háskóla Íslands og veitt ýmiss konar ráðgjöf í þróun heilbrigðisvísinda bæði innan skólans og annars staðar í íslensku samfélagi. Delaney tekur við viðurkenningunni við hátíðlega athöfn á ráðstefnu akademíunnar í október.
Delaney er mörgum íslenskum hjúkrunarfræðingum og fleirum að góðu kunn. Hún hefur verið leiðandi á heimsvísu í að innleiða upplýsingatækni og stafræna tækni í menntun, rannsóknum og á vettvangi hjúkrunar og á öðrum sviðum heilbrigðisvísinda.
Hún var meðal þeirra fyrstu innan hjúkrunar til að safna kóðuðum gögnum um hjúkrun úr rafrænum sjúkraskrám sem leiddu til þróunar og innleiðingar á lágmarksskráningu vistunarupplýsinga í hjúkrun og hjúkrunarstjórnun um víða veröld. Delaney hefur haft mótandi áhrif á stefnumótun í upplýsingatækni á heilbrigðissviði og var m.a. í ráðgjafateymi Baracks Obama, forseta Bandaríkjanna, um þessi mál.
Delaney kenndi um árabil bæði við Læknadeild og Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild í námskeiðum um upplýsingatækni í hjúkrun og öðrum heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands. Jafnframt hefur hún veitt ýmiss konar ráðgjöf og stuðlað að öflugu samstarfi Háskóla Íslands og Minnesota-háskóla. Heimsóknir hennar hingað til lands hafa verið tíðar og hefur hún þá fundað með háskólafólki, ráðamönnum og fulltrúum hjá bæði Landlækni og Landspítala til að vinna að framgangi upplýsingatækni innan heilbrigðiskerfisins.
Connie Delaney hlaut heiðursdoktorsnafnbót árið 2011 við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild HÍ ásamt Margaret E. Wilson en þær voru fyrstar til að vera sæmdar slíkri nafnbót við deildina.