Orlofsnefnd Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga réðist í viðamiklar umbætur á orlofshúsnæði hjúkrunarfræðinga á Suðurlandi núna í vor. Farið var í endurbætur á Lokastíg 3 í janúar, í maí var svo farið í endurbætur á Lokastíg 1, Lokastíg 4 og í húsi Fíh við Úlfljótsvatn. Áætlað er að fara í frekari framkvæmdir við Lokastíg 4 snemma á næsta ári.
Úlfljótsvatn
Farið var í allsherjarendurbætur á húsbúnaði í orlofshúsnæðinu við Úlfljótsvatn. Settur var nýr vaskur á salerni og gert við eldhúsborðplötu.
Lokastígur 3
Á Lokastíg 3 var skipt um borðplötu í eldhúsi, settar nýjar veggflísar og húsbúnaði skipt út. Nánast öllum húsgögnum var skipt út og skrúfaði orlofsnefndin saman ótal stóla og skápa ásamt því að fara í vandlega útlitsbreytingu. Þá var sjónvarpið var uppfært í snjallsjónvarp.
Lokastígur 4
Rýmið sem leiðir út í heita pottinn á Lokastíg 4 var tekið í gegn, þar var áður frumstæð sturta og þvottahúsvaskur, nokkuð var um rakaskemmdir. Ásamt útlitsbreytingu er þar komið salerni, sturta, handlaug og þvottavél. Í maí var gerð uppfærsla á afþreyingarkerfi hússins og borið á pallinn. Snemma á næsta ári stendur til að fara í endurbætur á gólfefni, eldhúsinnréttingu og húsbúnaði.
Lokastígur 1
Viðamestu breytingarnar í ár voru gerðar á orlofshúsnæðinu Lokastíg 1, húsið var tekið úr leigu í maímánuði á meðan skipt var um parket, eldhúsinnréttingu og bústaðurinn málaður að innan. Með nýjum húsbúnaði má segja að Lokastígur 1 sé nánast óþekkjanlegur frá því sem áður var.
Um tíma var bílaplanið fullt á meðan nefndin, smiður, málari og rafvirki voru að störfum. Sökum tímaramma náðist ekki að fara í endurbætur á baðherbergi og gestahúsinu en það stendur til á næsta ári.
Rafmagnshleðslustöðvar eru nú komnar við bústaðina þrjá við Lokastíg.
Þrír meðlimir í orlofsnefnd halda áfram störfum:
Ása María Guðjónsdóttir, Heiða Björk Gunnlaugsdóttir og Inga Valborg Ólafsdóttir
Tveir eru að ljúka störfum:
Lovísa Agnes Jónsdóttir og Sigurður Ýmir Sigurjónsson
Í haust koma inn tveir nýir meðlimir:
Guðrún Bragadóttir og Margrét Halldórsdóttir