Fara á efnissvæði
Frétt

Enginn skilinn eftir 

Helga Rósa Másdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, skrifar:

Kæru hjúkrunarfræðingar.

Haustið er farið að sækja í sig veðrið og verkefni vetrarins eru farin að taka á sig skýrari mynd. Eftir samþykkt kjarasamninga í lok síðasta árs höfum við lagt mikla áherslu á að ljúka endurnýjun stofnanasamninga sem allra fyrst. Með þeim er innleitt starfsþróunarkerfi fyrir hjúkrunarfræðinga sem er mikilvægt hagsbótamál fyrir alla aðila.

Í dag njóta átta af hverjum tíu hjúkrunarfræðingum starfandi hjá ríkinu starfsþróunarkerfis. Í sumar stöðvuðust viðræður um stofnanasamninga við heilbrigðisstofnanir ríkisins þegar þær stofnanir sem áttu eftir að undirrita nýja samninga drógu sig til baka. Þetta mál hefur verið tekið upp við heilbrigðisráðherra sem tók undir gagnsemi starfsþróunarkerfis fyrir gæði og öryggi þjónustunnar. Það er ekki einungis réttlætismál að sambærilegir samningar verði undirritaðir fyrir alla hjúkrunarfræðinga hjá ríkinu heldur jafnframt mikilvægt byggðamál, þar sem eingöngu landsbyggðin situr eftir án endurnýjaðra samninga. Þar er þörfin fyrir hjúkrunarfræðinga og sí- og endurmenntun mikil. Það er óboðlegt að svo sé og höldum við áfram að leggja alla okkar krafta í að ljúka þessum samningum sem fyrst.

Bandalag heilbrigðisstétta

Í sumar birti Ríkisendurskoðun dökka skýrslu um Landspítala og heilbrigðisyfirvöld, sem kom fag- og stéttarfélögum heilbrigðisstarfsfólks ekki á óvart. Þar eru heilbrigðisyfirvöld harðlega gagnrýnd fyrir skort á yfirsýn, heildstæðu skipulagi og áætlanagerð byggðri á tíma- og kostnaðargreiningu. Einnig er bent á vöntun á mannaflagreiningu, mannaflaspám og aðgerðaráætlun til að mæta sívaxandi þjónustuþörf samfélagsins fyrir hæft heilbrigðisstarfsfólk.

Formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga ásamt formönnum Ljósmæðrafélags, Læknafélags og Sjúkraliðafélags Íslands hafa tekið höndum saman og krefjast þess að mönnun verði sett í forgang og að heilbrigðisstofnanir fái bæði fjármagn og heimildir til að ráða út frá faglegum forsendum. Við leggjum áherslu á að ábendingum Ríkisendurskoðunar verði fylgt eftir og að heilbrigðisráðuneyti móti skýra stefnu sem byggir á heildstæðum aðgerðum og mælanlegum markmiðum.

Arðsemi háskólanáms

Ný rannsókn Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sýnir sláandi niðurstöður um arðsemi háskólanáms. Samkvæmt niðurstöðunum rannsóknarinnar hefur arðsemi háskólanáms á Íslandi þróast í neikvæða átt á undanförnum árum og hefur dregist saman um helming frá fjármálahruninu 2008. Arðsemi háskólanáms mælist 8% hjá körlum og 9% hjá konum. Þrátt fyrir að hlutfallslegur ávinningur sé örlítið meiri hjá konum eru tekjur þeirra almennt lægri en hjá körlum, óháð námi eða aldri.

Þegar kynjamunur er skoðaður nánar kemur í ljós að háskólamenntaðar konur þéna að jafnaði á við karla með stúdentspróf yfir alla starfsævina og að tekjur kvenna dragast verulega saman við barneignir, á meðan áhrifin eru mun minni hjá körlum. Rannsóknin staðfestir þannig áframhaldandi kynbundinn launamun sem eru vondar fréttir fyrir stétt þar sem konur eru um 95%.

Við þessu þarf að bregðast og eru ýmsar leiðir færar. Bæta þarf stöðu ungs fólks í námi, endurskoða þarf námslánakerfið, setja á skattaívilnanir fyrir þær sérgreinar sem vöntun á fólki er í og að sjálfsögðu meta störf háskólamenntaðrar kvennastéttar betur til launa.

Sjáumst í Hofi

Það verður sönn ánægja að taka á móti hjúkrunarfræðingum á vísindaráðstefnuna HJÚKRUN 2025, sem fram fer í Hofi á Akureyri 25. og 26. september. Þau tímamót urðu í ár að það seldist upp á ráðstefnuna en yfir 500 hjúkrunarfræðingar eru skráðir. Það gleður mig mjög að sjá hversu mikill áhugi og þátttaka er í þessari uppskeruhátíð fræða og vísinda í hjúkrun. Ég er sannfærð um að aukin réttindi og stofnun Starfsþróunarseturs Fíh, sem varð til í kjölfar síðustu kjarasamninga, hafi þar mikið að segja.

Kæru hjúkrunarfræðingar, ég hlakka til að sjá ykkur í Hofi.