Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga tekur afstöðu með friði og fordæmir allt ofbeldi. Félagið stendur með mannréttindum og gerir afdráttarlausa kröfu um að alþjóðalög séu virt. Tryggja verður öryggi almennra borgara og heilbrigðisstarfsfólks, vernd heilbrigðisstofnana og óhindrað aðgengi að heilbrigðisþjónustu og mannúðaraðstoð.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga er fag- og stéttarfélag. Tilgangur þess samkvæmt lögum félagsins er að vinna að framgangi hjúkrunar, faglegri þróun og kjörum hjúkrunarfræðinga. Siðareglur félagsins höfum við að leiðarljósi en þar segir að kjarni hjúkrunar sé umhyggja fyrir skjólstæðingnum og virðing fyrir lífi hans, velferð og mannhelgi. Hlutverk hjúkrunarfræðings er að efla heilbrigði, bæta líðan og lina þjáningar. Hjúkrunarfræðingur hjúkrar af virðingu fyrir einstaklingum og fer ekki í manngreinarálit.
Hjúkrunarfræðingar flýja ekki þegar stríð geisa heldur sinna þeim sem þurfa á aðstoð að halda. Saga hjúkrunar byggir á sterkum siðferðilegum grunni, þar sem allir einstaklingar eru jafngildir óháð uppruna eða stöðu. Það kemur skýrt fram í íslenskum sögnum þar sem Halldóra Gunnsteinsdóttir er talin fyrsta hjúkrunarkonan. Þar er sagt frá þegar hún sinnti særðum mönnum úr stríðandi fylkingum með orðunum: „skulum vér binda sár þeirra manna, er lífvænir eru, ór hvárra liði sem eru“. Þessi orð minna okkur á að hjúkrun þekkir engin landamæri.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga fylgir lögum sínum og siðareglum sem útiloka að félagið taki pólitíska afstöðu til efnahagslegra þvingunaraðgerða í milliríkjadeilum. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga mun ávallt tala fyrir friði og krefjast þess að stríðandi fylkingar virði ákvæði Genfarsáttmála og alþjóðalög. Slíkt felur óumdeilanlega í sér skyldu til að tryggja öryggi almennra borgara og heilbrigðisstarfsfólks og að vernda heilbrigðisstofnanir og aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Fíh leggur afdráttarlausa áherslu á að öll mannréttindi séu virt, að öllum einstaklingum sé tryggður réttur til lífs og heilbrigðis, óháð uppruna eða stöðu, og stendur með öllum þeim sem fyrir ofbeldi verða og brotið er á.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hvetur öll til þess að sýna samstöðu með fórnarlömbum stríðs, óréttlætis og ofbeldis og krefjast þess að mannréttindi séu virt.