Fara á efnissvæði
Frétt

Fordæming á sprengjuárás á sjúkrahús á Gaza

Alþjóðaráð hjúkrunarfræðinga, ICN, fordæmir sprengjuárásina á Al-Ahli sjúkrahúsið á Gaza þar sem hundruð almennra borgara og heilbrigðisstarfsfólk lét lífið.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga tekur undir fordæmingu ICN, almennir borgarar og heilbrigðisstarfsfólk eru ekki skotmörk og það eru mannréttindi að hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu.

„ICN fordæmir allt ofbeldi og árásir í garð heilbrigðisstarfsfólks, sjúkrahúsa og sjúkrabíla á átakasvæðum. Þeirra eina hlutverk er að veita heilbrigðisþjónustu,“ segir Pamela Cipriano, forseti ICN, í yfirlýsingu. „Við hvetjum allar ríkisstjórnir og stríðandi fylkingar til að virða alþjóðalög sem vernda heilbrigðisstarfsfólk, eins og lýst er í #NotATarget-herferðinni.“

ICN er í stöðugu sambandi við hjúkrunarfræðinga og félög þeirra á átakasvæðunum. „Til að sýna þeim stuðning þá höfum við sett af stað herferð undir myllumerkinu #NursesForPeace sem hvetur til friðar, fordæmir árásir á heilbrigðisstarfsfólk og styður hjúkrunarfræðinga á svæðinu.“

Howard Catton, framkvæmdastjóri ICN, segir að ICN hafi tekið höndum saman með fleiri alþjóðlegum samtökum til að hvetja til að samkomulag náist sem fyrst um að tryggja heilbrigðisþjónustu á Gaza. „Við hvetjum alla sem koma að þessum átökum sem og alþjóðasamfélagið til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að verja þá sem leggja sig í hættu við að sinna öðrum,“ segir Catton. „Aðgangur að heilbrigðisþjónustu og flutningur hjálpargagna verður að vera forgangsmál.“

Evrópusamtök hjúkrunarfræðinga, EFN, sendu frá sér yfirlýsingu 23. október þar sem lýst er yfir áhyggjum af aðstæðum hjúkrunarfræðinga á Gaza og eru árásir á heilbrigðisstofnanir fordæmdar.

„EFN kallar eftir því að allar fylkingar virði hlutleysi heilbrigðisstarfsfólks, mannréttindi séu virt, almennir borgarar hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu og að öryggi heilbrigðisstarfsfólks sé virt í samræmi við Genfarsáttmálann,“ segir í yfirlýsingu EFN.