Fara á efnissvæði
Frétt

Framtíð hjúkrunarfræðinga

Grein Guðbjargar Pálsdóttur, formanns Fíh, birt í Morgunblaðinu 12. maí 2023 á alþjóðlegum degi hjúkrunarfræðinga

Í dag, 12. maí er alþjóðlegur dagur hjúkrunarfræðinga og er honum fagnað um heim allan. Starf hjúkrunarfræðinga er ótrúlega fjölbreytt og lærdómsríkt og fylgir því mikil ábyrgð. Störf hjúkrunarfræðinga eru ein aðalforsenda þess að hægt er að reka hér gott heilbrigðiskerfi, byggja upp stöðugt þjóðfélag og traust hagkerfi. Síðustu áratugi höfum við náð miklum árangri í að búa til öflugan hóp háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga sem er ómetanleg auðlind þegar kemur að heilbrigði þjóðarinnar.

Í dag er afmælisdagur Florence Nightingale sem lagði grunninn að hjúkrunarfræði sem fræðigrein með mikilli framsýni og frumkvæði. Með sínum skrifum hafði hún mikil áhrif á þróun heilbrigðismála og stuðlaði að því að hjúkrunarfræðin varð sjálfstæð fræðigrein. Hún er því að vissu leyti guðmóðir hjúkrunarfræðinga í dag. Þessi dagur hvetur hjúkrunarfræðinga til að vekja athygli á framlagi sínu og sérþekkingu til að veita framúrskarandi heilbrigðisþjónustu.

Ekki sjálfsagður hlutur

Í dag beina Alþjóðasamtök hjúkrunarfræðinga, ICN, kastljósi sínu að framtíð hjúkrunarfræðinga, hverjar þarfirnar eru í dag og hverjar þær verða í framtíðinni, til hægt sé að mæta þeim. Hjúkrunarfræðingar veita lífnauðsynlega þjónustu og forystu þegar kemur að áskorunum í heilbrigðiskerfum heimsins, enda eru þeir framlínunni alla daga, allan sólarhringinn, alla daga ársins. Þrátt fyrir allt hefur heilbrigðiskerfum víða mistekist að meta þessa dýrmætu auðlind að verðleikum og sýnt varhugaverða skammsýni í almennilegri fjárfestingu í störfum hjúkrunarfræðinga. Það er ekki hægt að taka hjúkrunarfræðingum sem sjálfsögðum hlut, eins og við erum farin að finna fyrir hér á landi.

Talið er að á heimsvísu vanti rúmlega 30 milljónir hjúkrunarfræðinga til að hægt sé að manna heilbrigðiskerfin, ofan á það bætist þörf á hátt í 13 milljónum hjúkrunarfræðinga til að taka við af þeim sem eru að komast á aldur. Í nýrri skýrslu ICN sem kom út í mars um stöðu hjúkrunarfræðinga í heiminum, er ítrekað að þjóðir heimsins þurfi að taka höndum saman til að mæta þessum áskorunum. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, hefur einnig bent á mikilvægi þess að háskólamenntuðum hjúkrunarfræðingum megi ekki fækka frekar enda ógnar það öryggi sjúklinga og eykur dánarlíkur þeirra sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Þetta skiptir miklu máli í umræðunni um framtíð heilrbrigðiskerfisins.

Ekki metin að verðleikum

Hér á landi hafa hjúkrunarfræðingar ekki farið varhluta af því að störf þeirra eru ekki metin að verðleikum. Af djúpstæðum menningarlegum ástæðum eru langflestir hjúkrunarfræðingar hér á landi konur, staða sem sést ekki annars staðar. Vegna þess að hjúkrunarfræðingar eru kvennastétt hefur þeim m.a. ekki staðið til boða sambærileg kjör og karlastéttir. Í nýundirrituðum kjarasamningi við ríkið samþykktu hjúkrunarfræðingar, enn og aftur, að bíða með að fá laun sín leiðrétt en núna með þeim fyrirvara að á samningstímabilinu verði tölurnar skoðaðar í þaula fyrir gerð næstu kjarasamninga að ári.

Söguleg niðurstaða atkvæðagreiðslu hjúkrunarfræðinga um ríkissamninginn hefur skilað sér til þingmanna og ráðherra en aðeins nokkrum atkvæðum munaði að samningurinn yrði felldur. Skilaboðin gætu ekki verið að skýrari, ef ríkið mun ekki tefla fram raunverulegri lausn óttast ég að ekki þurfi að spyrja að leikslokum. Við höfum nú þegar í höndunum niðurstöður könnunar um að tveir þriðju hjúkrunarfræðinga hafi alvarlega íhugað að hætta í starfi á síðustu tveimur árum.

Sífellt flóknari og erfiðari vandi

Á síðustu árum hefur þjóðinni fjölgað hratt, samhliða fólksfjölgun þá er þjóðin að eldast og mun gera það mjög hratt á næsta áratug. Þessar breytingar gera einfalda höfðatalningu mun erfiðari þar sem hjúkrunarfræðingar eru sífellt að takast á við flóknari og erfiðari heilsufarsvanda í mun meira mæli en áður var.

Menntun hjúkrunarfræðinga er mjög góð hér á landi og opna á marga og fjölbreytta möguleika innan atvinnulífsins. Hjúkrunarfræðingar eru eftirsóttur starfskraftur víða, þess vegna þurfa kjör og starfsaðstæður þeirra í heilbrigðiskerfinu að vera samkeppnishæf og fyrst og fremst í samræmi við ábyrgð og álag sem starfinu fylgja.

Ég skora á alla landsmenn að sýna þakklæti sitt í verki með því að óska hjúkrunarfræðingum til hamingju með daginn. Til hamingju með daginn kæru hjúkrunarfræðingar.