Í þættinum fer Páll Biering, prófessor emeritus í geðhjúkrunarfræði, yfir feril sinn í hjúkrun og ræðir skoðanir sínar á verkefnum framtíðarinnar.
Páll útskrifaðist úr hjúkrunarfræði í lok níunda áratugar síðustu aldar, þá tæplega fertugur. Þaðan lá leið hans til Texas í framhaldsnám og síðar til Rússlands, ásamt því að starfa fyrir Rauða krossinn í Djíbútí, Nígeríu, Grikklandi og Bangladesh.
„Þetta eru mjög mismunandi staðir, mismunandi verk sem þarf að vinna á hverjum stað,“ segir hann um verkefnin fyrir Rauða krossinn.
Í Bangladesh starfaði hann í flóttamannabúðum fyrir Róhingja sem voru á flótta undan þjóðarmorði í Mjanmar. „Það var einna erfiðast í Bangladesh. Fólkið átti sér enga undankomuleið, tæplega milljón manns í stærstu flóttamannabúðum í heimi. Bangladesh taka ekki við þeim, þau geta ekki farið til baka, þau eru bara föst þarna,“ segir hann.
Þátturinn er rúmlega 36 mínútur.