Fara á efnissvæði
Hlaðvarp

Inga Valgerður Kristinsdóttir

Gestur Rapportsins er Inga Valgerður Kristinsdóttir, sérfræðingur í heimahjúkrun hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Inga Valgerður Kristinsdóttir, sérfræðingur í heimahjúkrun hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, hefur starfað nær óslitið hjá heilsugæslunni frá útskrift. Áður starfaði hún á bráðamóttöku og hjartadeild Landspítala.

Í Rapportinu ræðir hún meðal annars um störf sín á heilsugæslunni þar sem hún hefur oft gengt hlutverki mannsins á bak við tjöldin. „Mér finnst það vera mitt starf sem sérfræðingur í hjúkrun, að einfalda og vonandi auðvelda alls konar vinnuferla. Leita að einhverju svo allir hjúkrunarfræðingarnir þurfi ekki að leita að þessu, heldur er ég búin að leita og finna. Fylgjast með nýjungum, breytingum og styðja við flóknar hjúkrunarmeðferðir, þá í gæðastarfinu,“ segir hún.

Meðal þess sem hún vinnur að er uppfærð skráning í heimahjúkrun í stað Excel-skjala. „Í fyrstu bylgju Covid þá kýldum við á að koma SmáSögu-appinu í prufu, á hálfum mánuði var búið að innleiða rafræna skráningu í vitjunum. Starfsfólkið sem er mest í vitjunum, þau voru rosa dugleg og þolinmóð, ég var að spyrja hvort það geti skoðað þetta og var alltaf að fá upplýsingar frá starfsfólkinu. Þau eiga mikinn heiður skilið fyrir allt þeirra framlag í þessari prufu.“

Njótum þess að vera til

Inga Valgerður ræðir einnig um persónulegu hliðina.

„Ég hef reynt í gegnum tíðina að leggja það inn hjá krökkunum að ekki taka sjálfan sig of alvarlega. Reynið að hafa gaman, það má alveg gera grín að sjálfum sér og mistakast, reynum bara að njóta þess. Ég hef áhyggjur af öllu þessu unga fólki sem þorir ekki að gera neitt því það gæti verið hlegið að þeim, gert grín að þeim því það er ekki allt fullkomið,“ segir hún.

„Það getur verið flókið að sannfæra þessa krakka. Slökum aðeins, njótum þess að vera til og pæla ekki í því hvað öðrum finnst.“

Móðir Ingu Valgerðar starfaði einnig við heimahjúkrun, deildi Inga Valgerður minningu af henni. „Við áttum heiðgulan Fiat. Mamma var að fara í vinnuna og stóð við hliðina á gula Fiatinum, í blárri pilsdragt og frakka úr sama efni og dragtin, það voru vinnufötin. Hún var að fara í vitjanir í heimahjúkrun, maður hefði frekar haldið að hún væri að fara í flug, hún var eins og flugfreyja. Þær voru mjög flottar á þessum tíma, allt sérsaumað,“ segir hún.

Inga Valgerður hefur ekki fengið slík föt. „Við höfum stundum fengið úlpur. Við erum ekki búin að vera með vinnuföt í mörg ár en núna erum við komin með fallega bláa sloppa og flíspeysur, þannig að núna er ásýnd heimahjúkrunar aftur að verða svona fín og í sama bláa litnum.“