Kæri hjúkrunarfræðingur.
Í lok árs gefst gott tækifæri til að líta um öxl, minnast þess sem vel hefur tekist og draga lærdóm af þeim áskorunum sem hafa mætt okkur. Mikilvægt er að fara yfir stöðu verkefna og markmiða og leggja línurnar inn í næsta ár, með áframhaldandi uppbyggingu og hagsmuni hjúkrunarfræðinga að leiðarljósi.
Hápunktar ársins sem er að líða eru án efa ICN-ráðstefnan sem haldin var í Helsinki í sumar og Hjúkrun 2025 sem fram fór á Akureyri í september. Tveir mjög vel heppnaðir viðburðir þar sem þekking, rannsóknir og reynsla hjúkrunarfræðinga í þeim tilgangi að bæta líf og líðan fólks um allan heim kom berlega í ljós. Jafnframt finnst mér ómetanlegt að fá tækifæri til að hitta hjúkrunarfræðinga víðs vegar að á ráðstefnum sem þessum, efla tengslin, deila reynslu og læra hvert af öðru.
Árið hefur einkennst af gerð stofnanasamninga sem hefur tekið lengri tíma en vonir stóðu til. Þrátt fyrir það hefur gengið vel að ná þeim markmiðum sem Fíh setti sér í þeirri vinnu. Samningarnir fela í sér mikilvæg tækifæri fyrir hjúkrunarfræðinga um allt land, bæði hvað varðar launa- og starfsþróun. Mikilvægt er að hjúkrunarfræðingar kynni sér nýja samninga og nýti þá. Áður hafði verið samið um 10 daga námsleyfi á ári og svo var framlag til Starfsþróunarseturs hjúkrunarfræðinga hækkað í síðustu kjarasamningum. Nú hefur verið komið á skýru kerfi til að nýta þá símenntun sem í boði er og meta hana til launa og fögnum við þeim áfanga.
Ég hvet hjúkrunarfræðinga til að skipuleggja starfsþróun sína markvisst í samstarfi við vinnustað sinn, þannig að öll njóti góðs af. Hjúkrunarfræðingurinn eykur hæfni sína og styrkir stöðu sína, vinnustaðurinn fær hæfari starfskraft og skjólstæðingurinn nýtur betri og öruggari þjónustu, sem er sameiginlegt markmið okkar allra.
Í ár voru liðin 100 ár frá því hjúkrunarfræðingar á Íslandi hófu útgáfu tímarits, og var þeim tímamótum gerð rækileg skil í síðustu tveimur tölublöðum. Tímarit hjúkrunarfræðinga er í hópi elstu tímarita landsins og er merk heimild um þróun fagsins og menningu hjúkrunarfræðinga frá liðinni öld. Að geta lesið um líf og störf hjúkrunarfræðinga síðustu 100 ár er ómetanlegt, og við þann lestur er áberandi hversu mikið hugrekki og frumkvæði stéttin hefur alla tíð sýnt. Hjúkrunarfræðingar hafa ávallt leitað allra leiða til að efla þekkingu sína í þágu betri og öruggari hjúkrunar, enda liggur fyrir að góð hjúkrun lengir líf og bætir lífsgæði almennings.
Mikil og vönduð vinna fer fram í ritrýnda hluta tímaritsins, þar sem þekkingarbanki hjúkrunar á Íslandi vex og dafnar með hverju árinu. Nýlega fengu allar ritrýndar greinar tímaritsins svokallað DOI-númer, alþjóðlegt og varanlegt stafrænt auðkenni sem eykur leitarmöguleika og rekjanleika greina. Jafnframt hefur verið sótt um skráningu í Scopus, sem felur í sér margvíslegan ávinning. Þá verða ritrýndar greinar sem birtast í tímaritinu aðgengilegar alþjóðlegu fræðasamfélagi, sýnileiki þeirra eykst og trúverðugleiki tímaritsins styrkist. Þetta er jafnframt viðurkenning á því að tímaritið uppfylli alþjóðlega gæðastaðla, eykur líkur á lestri og einnig að að vitnað sé í greinar sem birtast í því. Skráning í Scopus mun því marka mikilvægan áfanga í sögu Tímarits hjúkrunarfræðinga.
Íslenskir hjúkrunarfræðingar hafa ávallt verið í fremstu röð á heimsvísu þegar kemur að menntun stéttarinnar. Hjúkrunarfræðimenntun var til dæmis færð á háskólastig hér á landi áratugum á undan hinum Norðurlöndunum, og nú eru rúm 50 ár liðin frá þeim tímamótum. Tímabært er að móta nýja framtíðarsýn fyrir námið og samræma það kröfum og reglugerðum nútímans. Hröð tækniþróun, nýjar heilbrigðislausnir og þróun meðferða kalla á aukna hæfni hjúkrunarfræðinga og gera endurskoðun á náminu nauðsynlega. Jafnframt er brýnt að samræma það við menntun annarra háskólamenntaðra heilbrigðisstétta.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur, í samstarfi við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri, unnið að endurmótun hjúkrunarfræðináms á Íslandi. Á næsta ári verður þeirri framtíðarsýn fylgt eftir í samtali við heilbrigðisyfirvöld, með gæði og öryggi að leiðarljósi í sífellt flóknara heilbrigðiskerfi. Til þess að sú vegferð skili árangri er nauðsynlegt að hjúkrunarfræðingar standi saman og styðji við það áræði og þann metnað sem felst í eflingu menntunar og fræða fagsins.
Fram undan eru fjölmörg brýn verkefni og ber þar helst að nefna víkkað starfsleyfi sérfræðinga í hjúkrun og lögleiðingu mönnunarviðmiða. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur gert samstarfssamning við Endurmenntun Háskóla Íslands um símenntun hjúkrunarfræðinga, og jafnframt eru hafin samtöl við Háskólann á Akureyri um sambærilegt samstarf. Afrakstur þessarar vinnu mun liggja fyrir á næsta ári, allt með það að markmiði að efla hjúkrunarfræðinga í störfum sínum.
Að lokum vil ég hvetja ykkur öll til að hugsa vel um ykkur sjálf. Starf hjúkrunarfræðinga er krefjandi og mikilvægt, en til að geta sinnt öðrum þurfum við einnig að hlúa að eigin heilsu og vellíðan.
Ég þakka ykkur innilega fyrir árið sem er að líða og sendi sérstaklega hlýjar kveðjur til þeirra hjúkrunarfræðinga sem vinna yfir hátíðirnar og halda uppi ómissandi þjónustu við samfélagið. Með ósk um gleðilega hátíð, farsælt komandi ár og hugheilar kveðjur til ykkar allra.





