Fara á efnissvæði
Frétt

Gleðilega hátíð

Jólapistill Guðbjargar Pálsdóttur, formanns Fíh

Kæri hjúkrunarfræðingur.

Hátíðirnar nálgast óðfluga og nýtt ár handan við hornið.

Þetta ár hefur verið viðburðarríkt eins og svo oft áður og margt áhugavert gerst á árinu. Svo eitthvað sé nefnt þá gerðum við kjarasamninga við Reykjavíkurborg, sveitarfélögin og ríkið í apríl og var sá síðastnefndi fyrsti kjarasamningurinn sem var undirritaður sem slíkur í rúm 10 ár. Fyrsta skrefið í samræmingu launa milli markaða hefur verið tekið.

Starfsemi fag- og landsvæðadeilda hefur aukist á ný eftir heimsfaraldurinn og góð gróska þar að eiga sér stað. Í september var haldin ráðstefnan Hjúkrun 2023 með met þátttöku hjúkrunarfræðinga og mikil ánægja með hana í alla staði. Félagið tók þátt í Kvennaverkfallinu 24. október og lét sitt ekki eftir liggja í baráttunni fyrir jöfnum rétti kynjanna hér á landi og má aldrei slaka á í þeirri baráttu. Einnig var haldin kjararáðstefna í nóvember þar sem trúnaðarmenn lögðu drög að komandi kjaraviðræðum. Áður höfðu hjúkrunarfræðingar svarað viðhorfskönnun félagsins og eru þær niðurstöður einnig nýttar í komandi kjaraviðræður sem nú eru á næsta leyti.

Mikið hefur verið um umsagnir og álit á ýmsum reglugerðum og lagabreytingum og t.d. margir fundir teknir með Velferðarnefnd og heilbrigðisráðuneytinu. Það er gott að álit félagsins skiptir máli og áhrifa hjúkrunarfræðinga gætir í stjórnsýslunni. Margt gott hefur áunnist og má nefna t.d. að eftir mikið ákall félagsins hófst loksins vinna að gerð mönnunarviðmiða fyrir hjúkrunarfræðinga hjá heilbrigðisráðuneytinu og er hún ennþá í gangi. Nú fyrir stuttu samþykkti Alþingi frumvarp um refsiábyrgð heilbrigðisstofnana og rannsókn alvarlegra atvika. Þetta mikla baráttumál okkar til margra ára er þá loksins að skila árangri og ber að fagna þessu stóra og mikilvæga framfaraskrefi í réttaröryggi hjúkrunarfræðinga.

Þegar ég horfi til baka yfir árið sem nú er að líða eru mér Grindvíkingar og okkar kollegar sem þar búa, mjög hugleikin. Fíh hefur stutt sitt félagsfólk og brugðist við með ýmsum hætti til að reyna að gera tilveruna bærilegri fyrir þá hjúkrunarfræðinga og þeirra fjölskyldur sem þar búa. Margir lögðust á plóginn og vil ég sérstaklega færa þeim hjúkrunarfræðingum sem áttu bókaðar orlofseignir á þessu yfirstandandi tímabili hlýjar kveðjur fyrir skilning og auðsýndan hlýhug í garð kollega okkar frá Grindavík. Í mínum huga hefur þetta endurspeglað svo vel þann samhug og samstöðu sem hjúkrunarfræðingar búa yfir.

Að mínu mati verður næsta ár ekki síður viðburðarríkt. Við byrjum á árlegri hringferð um landið og höldum áfram undirbúningi fyrir komandi kjaraviðræður en okkar samningar eru lausir 1. apríl. Á sama tíma erum við í samtali við heilbrigðisstofnanir um endurskoðun stofnanasamninga. Það verður því mikill kraftur í loftinu fyrstu mánuði komandi árs, næg verkefni og hlakka ég til þeirra. En fyrst þurfum við að ná að lyfta okkur upp úr amstri dagsins.

Ég óska þess að þú njótir gleði og friðar með fjölskyldu og vinum yfir hátíðina og vil þakka þér sérstaklega fyrir að standa vaktina, bæði nú um hátíðirnar, sem og aðra daga, sérstaklega þegar landsmenn eru almennt í fríi.

Gleðileg jól og hamingjuríkt nýtt ár.