Fara á efnissvæði
Frétt

Góðir leiðtogar hlúa að þeim sem hlúa að öðrum og þeir þurfa einnig að hlúa að sér sjálfum

Hjúkrunarfræðingar eru kjörnir til þess að vera leiðtogar í heilbrigðiskerfum heimsins þar sem þeir hafa einstaka sýn á heilbrigði, fjölskyldur og samfélög.

Hjúkrunarfræðingar eru kjörnir til þess að vera leiðtogar í heilbrigðiskerfum heimsins þar sem þeir hafa einstaka sýn á heilbrigði, fjölskyldur og samfélög. Það er forgangsverkefni leiðtoga að hlúa að þeim sem sjá um að hlúa að öðrum, þetta skilja hjúkrunarfræðingar vel því þeir eru vanir að hlúa að skjólstæðingum til að þeim farnist sem best.

Þetta kom fram á málstofu á ráðstefnu Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga, ICN, sem fram fór í Montreal í byrjun júlí þar sem Leigh Chapman, yfirhjúkrunarfræðingur Kanada, og hinn heimsfrægi markþjálfi Simon Sinek fóru yfir leiðtogafærni í hjúkrun.

Fram kom í máli Chapman að hjúkrunarfræðingar ættu að vera í fararbroddi í kerfinu, of mikið væri um að heilbrigðisþjónustan væri í umsjá einstaklinga með litla sem enga færni í að sjá um sjúklinga. „Við þurfum að átta okkur á að störf okkar geta skipt sköpum. Ef við einblínum á það sem er skjólstæðingum okkar fyrir bestu, þá tökum við bestu ákvarðanirnar.“

Sinek sagði að heilbrigðiskerfi heimsins væru rúmlega 10 til 15 árum á eftir almenna fyrirtækjamarkaðnum þegar kæmi að leiðtogafærni. Það ætti að vera forgangsverkefni allra leiðtoga í heilbrigðiskerfum að hlúa að þeim sem hlúa að öðrum.

„Þú getur verið leiðtogi, yfirmaðurinn sem þú vildir að hafa. Það krefst stöðugrar æfingar að vera leiðtogi. Það skiptir máli að sýna samkennd, ekki einungis í garð skjólstæðinga, heldur í garð hvors annars,“ sagði Sinek. „Fyrsta skrefið er að lesa bækur um leiðtogafærni, ræða innihaldið, helst stofna bókaklúbb, þannig færðu stöðugt ný tól til að vinna með. Stjórnendur eru ekki slæmt fólk, þeim einungis skortir leiðtogafærni.“

Aldrei gráta í einrúmi

Sinek sagði að leiðtogar þyrftu að vera raunsæir, ekki mætti láta eins og allt sé alltaf í lagi. „Bjartsýni er af hinu góða en það má ekki láta eins og allt sé alltaf í lagi. Ef leiðtogi lætur eins og allt sé alltaf í lagi þá fer starfsfólki að líða eins og það megi ekki benda á það sem betur má fara.“

Fram kom að forðast skuli að ættbálkamenning geti þrifist í heilbrigðiskerfinu. „Allir vilja tilheyra hópi en það er óheilbrigt ástand þegar við teljum okkur trú um að okkar hópur sé sá besti. Við vinnum saman í teymi og við megum ekki taka hvort öðru sem sjálfsögðum hlut,“ sagði Sinek.

„Starf hjúkrunarfræðings svipar mjög til starfs leiðtoga. Það að vera leiðtogi snýst ekki um að fá að ráða öllu – það snýst um að hugsa um þá sem þú leiðir, alveg eins og að vilja að sjúklingunum farnist sem best. Leiðtogi vill sjá aðra í kringum sig stíga upp og ná árangri.

Það þarf að vera vera í góðu andlegu formi til að vera góður leiðtogi. „Fólk á að hlúa að geðheilbrigði sínu, rétt eins og líkamlegu heilbrigði. Í breska hernum þá starfa sérstakar einingar – sálfræðingar og geðlæknar – sem hafa það eina hlutverk að hugsa um geðheilbrigði hermanna. Samskonar einingar ættu að starfa innan heilbrigðiskerfanna,“ sagði Sinak. Landspítali starfrækir stuðnings- og ráðgjafateymi, sums staðar er handleiðsla í boði. Er það afstaða Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga að handleiðsla og stuðningur eigi að fylgja starfinu og beitir félagið sér fyrir því.

Sinak lagði mikla áherslu á samheldni. „Ég hef eina reglu – aldrei gráta aleinn. Þegar við gerum allt í einrúmi þá eykst einangrunartilfinningin. Hjálpum hvort öðru, svo þegar allir eru tilbúnir – þá getum við tekist á við vandamálin.“