Fara á efnissvæði
Viðtal

Góður leiðtogi þarf skýra sýn og getu til að koma henni í framkvæmd

Viðtal við Bylgju Kærnested, forstöðuhjúkrunarfræðing í hjarta- og augnþjónustu. Birtist í Tímariti hjúkrunarfræðinga 2. tbl. 2025. Texti og myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir.

Bylgja Kærnested hefur starfað á hjartadeild Landspítalans í hartnær þrjá áratugi. Hún var hjúkrunardeildarstjóri á hjartadeild 14EG í 14 ár frá árinu 2010 og ásamt frábæru teymi tókst henni að skapa þar einstaka liðsheild og frábæran starfsanda sem skilaði sér í því að deildin hefur ekki þurft að glíma við manneklu. Á síðasta ári tók Bylgja við nýju starfi og er nú forstöðuhjúkrunarfræðingur hjarta- og augnþjónustu Landspítalans. Hún segir starfið vera spennandi áskorun og Landspítalinn er að hennar mati besti vinnustaður landsins, þar slær hjartað og hún hrósar samstarfsfólki sínu í hástert sem hún segir vera framúrskarandi. Bylgja segir að góður leiðtogi þurfi m.a að vera sýnilegur og til staðar, þolinmóður og skynsamur í ákvarðanatöku.

Hvers vegna valdir þú að verða hjúkrunarfræðingur?

Ég vissi í raun ekkert hver Florence Nightingale var og átti engan nákominn í hjúkrunarstétt þegar ég ákvað, eftir stúdentspróf frá Kvennaskólanum í Reykjavík, að fara í hjúkrun. Það var tilviljun frekar en köllun sem réði för en sennilega var það áhugi minn á samskiptum, heilsu og velferð fólks sem vó þyngst. Núna í seinni tíð hefur líka bæst við áhugi á þróun í hverskyns heilsutækni, stafrænum lausnum og þá hvernig þær auka öryggi sjúklinga og bæta þjónustuna.

Hvert lá svo leiðin eftir útskrift?

Ég útskrifaðist árið 1997 og hóf þá störf á hjartadeild Landspítala og ég hef verið þar nánast alveg síðan. Í upphafi sinnti ég almennri hjúkrun en hef einnig tekið þátt í kennslu og ýmsum þróunarverkefnum á spítalanum. Fljótlega þróaðist áhugi minn á faglegri þróun og umbótaverkefnum innan hjúkrunar. Ég hef tekið þátt í fjölmörgum innleiðingarverkefnum sem snúa að verklagi, nýjungum í meðferð og samvinnu milli starfsstétta. Samhliða starfi mínu á hjartadeildinni sinnti ég endurlífgunarmálum á Landspítalanum og gegndi formennsku í hjúkrunarráði í tvö ár, frá 2008 til 2010. Í báðum þessum hlutverkum fékk ég dýrmæta reynslu af stefnumótun, teymisvinnu og faglegri forystu innan heilbrigðiskerfisins. Árið 2005 lauk ég svo meistaraprófi í stjórnun frá Háskóla Íslands. Lokaverkefni mitt fjallaði um teymisvinnu og úthlutun verkefna meðal hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða á Landspítalanum. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á hvernig skýrt verkskipulag getur stutt við betri nýtingu mannauðs og aukið starfsánægju. Sú vinna varð grundvöllur frekari áhuga míns á stjórnun, starfsþróun og gæðum í hjúkrun.

Hvenær tókst þú við starfi deildarstjóra á hjartadeildinni?

Ég tók við sem hjúkrunardeildarstjóri á hjartadeild 14EG árið 2010 og gegndi því starfi í 14 ár. Með frábæru teymi tókst okkur að skapa einstaka liðsheild og frábæran starfsanda á deildinni. Þetta hefur skilað sér í því að við höfum aldrei þurft að glíma við manneklu og enn er mikil aðsókn í að starfa á deildinni. Hjartadeildin er að mínu mati eitt af flaggskipum spítalans enda stærsta legudeildin og eina sérhæfða hjartadeild landsins. Landspítali er minn staður, þar slær hjartað og að mínu mati er þetta besti vinnustaður landsins. Samstarfsfólk er framúrskarandi og það er einmitt einkennandi fyrir spítalann að þar starfar fólk sem hefur einlægan áhuga á mannlegum samskiptum og vill láta gott af sér leiða.

Árið 2024 tók ég við nýju starfi sem er spennandi áskorun en í kjölfar skipuritsbreytinga spítalans er ég nú forstöðuhjúkrunarfræðingur í hjarta- og augnþjónustu Landspítalans.

Bylgja og Elna Albrectsen, aðstoðardeildarstjóri á hjartadeildinni.

Í hverju felst helst munurinn á starfi forstöðuhjúkrunarfræðings og starfi hjúkrunardeildarstjóra?

Þetta er mikil breyting fyrir mig sem alltaf hef verið í hringiðunni þar sem verkefnin eru oftast bráð og áríðandi. Sem hjúkrunardeildarstjóri var mitt starf í framlínunni, ég sá um daglega starfsemi og vann náið með öðrum stjórnendum, hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum, nemum og öðrum starfsmönnum. Áhersla hjúkrunardeildarstjóra er að veita starfsfólkinu stuðning, vera til staðar og bregðast hratt við daglegum áskorunum. Í mínu starfi sem forstöðuhjúkrunarfræðingur snýst verkefnið meira um stóru myndina; stefnumótun, gæðamál, umbætur og faglega þróun hjúkrunar fyrir alla hjarta- og augnþjónustuna. Ég vinn náið með stjórnendum eininganna, framkvæmdastjóra sviðsins og öðrum forstöðuhjúkrunarfræðingum. Mér er umhugað um að leiða hjúkrunarþjónustuna í samræmi við stefnu Landspítala og gagnreynda þekkingu. Ég legg áherslu á að við byggjum upp öflugt teymi framlínustjórnenda og að auka samráð til að samræma verklag þvert á klínísk svið. Gæði þjónustunnar eru ávallt í fyrirrúmi og að sjúklingar fái örugga og góða þjónustu – við erum hér fyrir þá. Styðja þarf við starfsþróun hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða og hvetja þá til að sækja sér frekara nám. Mér finnst skipta svo miklu máli að skapa umhverfi þar sem starfsfólk fær tækifæri til að vaxa í starfi.

Hvað er það mikilvægasta sem hefur áunnist á þessum árum sem þú hefur starfað og hverju ertu stoltust af?

Síðustu 25 ár hafa orðið miklar framfarir í meðferð hjarta- og augnsjúklinga. Við sjáum flóknari inngrip, betri lyf og háþróuð tæki sem hafa breytt horfum sjúklinga. Sjúklingahópurinn hefur breyst og fólk lifir lengur með langvinna sjúkdóma. Hjúkrunarfræðingar gegna sífellt stærra og sérhæfðara hlutverki og leiða til dæmis göngudeildirnar sem er vaxandi starfsemi. Ég er stolt af því að hafa tekið þátt í þessari þróun og byggt upp sterka liðsheild þar sem er mikill eldmóður og góður starfsandi. Ég hef fengið að vaxa með þróuninni og lagt mitt af mörkum til að tryggja gæðahjúkrun og öryggi sjúklinga.

Hvaða eiginleika þarf góður leiðtogi í hjúkrun að hafa?

Góður leiðtogi þarf skýra sýn og getu til að leiða hana áfram. Hlutverk hans snýst um að styðja faglega þróun starfsfólks, tryggja öryggi sjúklinga og greiða götu fólks með tengslamyndun og áhrifum. Ég lít á mig sem þjón sem skapar skilyrði fyrir starfsfólk til að sinna starfi sínu af fagmennsku og alúð. Það krefst þess að leiðtogi þarf að vera sýnilegur og til staðar, hlusta á starfsfólk og skapa opið upplýsingaflæði þar sem allir leggja sitt af mörkum. Leiðtogi þarf að sama skapi að vera þolinmóður og skynsamur í ákvarðanatöku og styrkja liðsheildina, þú nærð ekki langt nema að hafa liðið með þér.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í þínu starfi?

Stærsta áskorunin fyrir mig var að skipta um starfsvettvang; að fara úr því að vera í hringiðunni þar sem allt gerist hratt og verkefnin eru bráð, yfir í stjórnunarstarf þar sem ég þarf að horfa til lengri tíma og vinna að stóru myndinni. Þetta krafðist mikillar hugarfarsbreytingar.

Önnur stór áskorun er að samræma verklag þvert á klínísk svið og byggja upp öflugt teymi framlínustjórnenda. Þar þarf að efla samráð og tryggja gott upplýsingaflæði milli allra. Fjárhagsleg ábyrgð og áætlanagerð eru líka krefjandi þættir sem fylgja stöðunni; að ná jafnvægi milli gæða þjónustu og fjárhagslegs ramma.

Að tryggja stöðuga faglega þróun og bjóða starfsfólki tækifæri til að vaxa í starfi á sama tíma og við þurfum að halda uppi góðri daglegri þjónustu er líka áskorun. Þrátt fyrir þessar áskoranir finnst mér mjög gefandi að geta haft áhrif á stefnumótun og gæðamál og vinna að því að sjúklingar fái bestu mögulegu þjónustu.

Hver eru þín bjargráð í stjórnunarstarfi?

Í mínu starfi hef ég þróað nokkur lykilbjargráð sem hafa reynst mér vel. Fyrst og fremst reyni ég að einfalda ferla og halda fókus á aðalmarkmiðið sem er betri þjónusta við sjúklinga. Ég forðast að láta pappírsvinnuna taka yfir og einbeiti mér að því sem raunverulega skiptir máli. Ég legg mikla áherslu á að vera sýnileg og til staðar fyrir starfsfólkið til að byggja upp traust og tengsl. Sterkt samstarf við aðra stjórnendur og þverfagleg samvinna eru lykilatriði og eins finnst mér mikilvægt að byggja upp öflugt teymi með góðu upplýsingaflæði þar sem allir geta lagt sitt af mörkum. Ég nýti tækni og stafrænar lausnir til að létta álag og bæta þjónustuna og legg áherslu á að hlusta á starfsfólkið og auka samráð.

Ertu meðvituð um að efla leiðtogahæfileika þína til þess að verða betri yfirmaður?

Já, ég vinn mjög markvisst að því og tel það nauðsynlegt í þessu starfi. Leiðtogahlutverkið snýst um tengslamyndun, notkun breytingalíkana og nýsköpun. Ég legg áherslu á að hlusta á starfsfólkið, vera tilbúin að taka ákvarðanir og stýra nauðsynlegum breytingum en um leið að rækta liðsheildina og traustið í teyminu.

Þegar ég fór úr hjúkrunardeildarstjórastarfinu í núverandi starf krafðist það, eins og ég hef áður komið inn á, hugarfarsbreytinga hjá mér en þessi umbreyting hefur kennt mér mikilvægi þess að þróa stöðugt nýja hæfileika. Góð liðsheild byggist á gagnkvæmu trausti og virðingu og þegar starfsmenn fá að blómstra í starfi náum við bestum árangri fyrir sjúklingana og það er þessi árangur sem hvetur mig til að halda áfram að læra og þróast sem leiðtogi. Í grunninn snýst þetta um að vera þjónn sem skapar skilyrði fyrir starfsfólk til að sinna starfi sínu af fagmennsku og alúð.

Hvernig sérðu að hjúkrun hér á landi muni þróast næstu 10 árin?

Hjúkrunarstarfið mun halda áfram að þróast hratt og ég sé spennandi möguleika fram undan. Við munum sjá enn meiri tækni innleidda í daglegu starfi – stafrænar lausnir og jafnvel gervigreind sem styður ákvarðanatöku og eykur öryggi sjúklinga. Hjúkrunarfræðingar verða sífellt sérhæfðari og taka stærra hlutverk í meðferð, endurhæfingu og forvörnum. Tæknin mun létta álag og auka faglegt svigrúm. Þverfagleg samvinna verður að sama skapi enn mikilvægari með áherslu á heildræna nálgun. Á sama tíma þurfum við án efa að takast á við mönnunarvandann sem er stöðug áskorun. Út frá reynslu minni af hjartadeildinni, þar sem við höfum aldrei þurft að glíma við manneklu, sé ég að árangur næst þegar áhersla er lögð á faglega starfsþróun, að valdefla starfsmenn og skapa liðsheild.

Ég tel að fjarheilbrigðisþjónusta muni aukast en með henni getum við veitt samfellda, einstaklingsmiðaða þjónustu og fylgst með sjúklingum heima og eftir útskrift. Hins vegar mun mannlegi þátturinn ávallt skipta sköpum – nærveru, umhyggju og klíníska innsæinu verður aldrei hægt að skipta út fyrir tæknilausnir.

Hvernig leysum við mönnunarvandann að þínu mati?

Mönnunarmál eru eitt af stóru úrlausnarefnunum. Mikil samkeppni er um sérhæfða hjúkrunarfræðinga og þegar vantar fólk leggst aukið álag á þá sem fyrir eru. Lykilatriðið er að skapa vinnuumhverfi þar sem starfsfólk finnur að það sé metið að verðleikum. Umhverfið þarf að vera hvetjandi og styðjandi og að skapa umhverfi þar sem starfsfólk fær tækifæri til að vaxa í starfi og þróast faglega. Horfa þarf til tæknilausna til að létta álagið og svo þarf auðvitað að endurskoða verklag reglulega til að nýta mannafla sem best. Mikilvægt er að einfalda ferla þar sem mögulegt er og forðast að láta óþarfa pappírsvinnu taka yfir. Landspítali er að mínu mati frábær vinnustaður og þar starfar fólk sem hefur einlægan áhuga á mannlegum samskiptum og vill láta gott af sér leiða. Þetta viðhorf og þessi mikli eldmóður er ómissandi til að laða að og halda í gott starfsfólk.

Draumastarfið ef þú myndir skipta um starfsvettvang?

Ef ég myndi skipta um starfsvettvang þá dreymir mig um að reka lítið krúttlegt sveitahótel einhvers staðar í fallegu umhverfi. Ég hef farið í margar yndislegar ferðir um landið með manninum mínum sem er leiðsögumaður og elskar að þvælast um landið þvert og endilangt. Við höfum kynnst mörgum skemmtilegum stöðum og fólki á ferðalögum okkar. Mér finnst hugmyndin um að taka á móti gestum frá öllum heimshornum mjög spennandi, að fá að kynnast nýju fólki, hlusta á sögur þess og stuðla að því að fólk upplifi það besta sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á fólki og þetta væri fullkomin leið til að sameina það ást minni á náttúrunni. Ég verð samt að segja að hjúkrun er mín köllun og ég elska starfið mitt en stundum er gaman að láta sig dreyma í allt aðra átt.

Hvernig gengur þér að samræma vinnu og einkalíf?

Það getur reynst erfitt að finna þetta jafnvægi, sérstaklega í krefjandi starfi, en ég geri mitt besta til að skilja vinnuna eftir ég fer heim. Fjölskyldan og vinirnir skipta mig miklu máli og ég forgangsraða tíma með þeim. Eins hef ég fundið góðar leiðir til að hlúa að sjálfri mér og þar má nefna að ég hleyp með vinkonum mínum en við hittumst nokkra morgna í viku og hlaupum hring saman – það gefur mér bæði hreyfingu og frábæran félagsskap. Ég kann vel að slaka á og þá finnst mér gaman að prjóna, lesa góða bók eða verja tíma með fjölskyldu eða vinum. Ég er mikil félagsvera og finnst aldrei of margt fólk í kringum mig og mér finnst sérstaklega gaman að leika við Loga ömmustrákinn minn, það gefur mér mikið.

Auðvitað reynir starfið stundum á jafnvægið en þá reyni ég að gefa sjálfri mér svigrúm og hugsa um grunnþætti eins og nægan svefn og hollt mataræði. Í starfi mínu er mikilvægt að þekkja eigin takmörk og þora að biðja um hjálp eða deila ábyrgð þegar álagið verður of mikið. Ég finn líka mikinn styrk í því að ræða við aðra. Þetta snýst um að finna jafnvægi milli þess að gefa af sér í starfi og þess að hlúa að sjálfri sér – og það þarf að endurnýja reglulega! Með góðri skipulagningu og hjálp frá frábæru fólki, bæði heima og í vinnu, tekst mér að halda ágætu jafnvægi.

Þarf yfirmaður að eyða miklum tíma í skrifræði og skipulag?

Við viljum helst verja mestum tíma í umönnun frekar en pappírsvinnu. Skrifræðið á þó oft rétt á sér til að tryggja gæði og öryggi – hluti af því stuðlar beinlínis að betri umönnun en það er mikilvægt að það verði ekki of yfirþyrmandi. Það þarf að þjóna skýrum tilgangi og styðja við starfsemina, ekki hindra hana. Í mínu starfi reyni ég að takast á við þetta með því að einfalda ferla og passa að missa ekki sjónar á markmiði mínu sem er betri þjónusta við sjúklinga. Ef skrifræði fer að vinna gegn þessu markmiði þarf að endurskoða viðkomandi ferla og nýta tæknilausnir þar sem við getum.

Hvernig myndir þú vilja bæta hjarta- og augnþjónustu í landinu?

Framtíðarsýn mín er að við getum veitt sjúklingnum framúrskarandi, heildræna þjónustu á heimsmælikvarða. Við erum þegar með mjög öflugt teymi sérfræðilækna og hjúkrunarfræðinga sem vinna þétt saman en ég vil sjá enn frekari samþættingu þjónustunnar – allt frá bráða- og gjörgæsluhjúkrun yfir í endurhæfingu og eftirfylgd eftir útskrift. Þegar nýtt húsnæði Landspítala rís á næstu árum vonumst við til að fá mun betri aðstöðu sem auðveldar okkur að veita nútímalega þjónustu í fremstu röð.

Landspítali er nú að horfa til þess að leggja aukna áherslu á að sinna fólki í fjareftirlit bæði í forvörnum og í þeim tilfellum sem fólk er að glíma við langvinna sjúkdóma, ekki aðeins bráðameðferð. Með aukinni notkun fjarheilbrigðisþjónustu og stafrænum lausnum er hægt að fylgjast með sjúklingum eftir útskrift, styðja þá til dæmis í lífsstílsbreytingum og grípa fyrr inn í ef aðstæður versna. Ég tel enn fremur mikilvægt að efla rannsóknir og nýsköpun þannig að við séum stöðugt að þróa betri meðferðir og hjúkrun. Markmiðið er að hver sjúklingar fái samfellda, örugga og einstaklingsmiðaða þjónustu og að starfsfólkið hafi allar forsendur til að vaxa og blómstra í starfi.

Fagleg fyrirmynd?

Ég á margar fyrirmyndir úr leik og starfi. Ég hef alltaf dáðst að sýnilegum leiðtogum sem stíga fram og taka sæti við borðið. Þeir sem njóta trausts og byggja upp liðsheild, eru til staðar og kunna að hlusta. Mínar fyrirmyndir eru oft einstaklingar í framlínu – fólk sem gengur í verkin. Ég ber mikla virðingu fyrir klínískri hvers kyns færni og hrífst af fólki sem tekur sjálft sig ekki of hátíðlega.

Hvaða leiðtogar í samfélaginu finnst þér skara fram úr?

Mér finnst þeir skara fram úr sem byggja störf sín á heiðarleika, skýrri sýn og mannlegum gildum – hvort sem það eru stjórnendur í heilbrigðiskerfinu eða aðrir sem hafa áhrif með hógværð og góðum mannlegum gildum. Nefni sem dæmi biskupinn okkar, Guðrúnu Karls Helgudóttur, en hún stígur fram af æðruleysi, samkennd og ákveðni – mér finnst hún flott.

Fallegasta land?

Það er án vafa Ísland. Náttúran, fjölbreytnin og endalausir möguleikar til að upplifa nýja hluti og fegurð. Ísland er einstakt og ekkert annað land slær það út.

Ef þú ættir eina ósk?

Fyrir utan hið hefðbundna sem manni dettur fyrst í hug við þessa spurningu, þá væri óskin sú að við öll sem störfum í heilbrigðisþjónustu upplifðum tilgang, virðingu og raunverulegan stuðning. Að störf okkar skipti máli og að við fengjum tækifæri til að vaxa. Þegar við nærum hvert annað, nærum við líka sjúklingana og samfélagið allt – og þannig getum við veitt fyrsta flokks umönnun.

Að lokum, hvað á að gera í sumarfríinu?

Í sumarfríinu ætla ég að ferðast um landið. Að ferðast er mín besta leið til að hlaða batteríin, að komast út í þessa fjölbreyttu náttúru sem við eigum hér á landi.