Fara á efnissvæði
Frétt

Guðbjörg Sveinsdóttir sæmd orðu Florence Nightingale

Guðbjörg Sveinsdóttir geðhjúkrunarfræðingur var sæmd Florence Nightingale-orðunni.

Guðbjörg Sveinsdóttir geðhjúkrunarfræðingur var sæmd Florence Nightingale-orðunni, einu æðsta heiðursmerki hjúkrunarfræðinga, á alþjóðlegum degi hjúkrunarfræðinga 12. maí síðastliðinn. Orðan er veitt af Alþjóðlega Rauða krossinum og er veitt vegna framúrskarandi hugrekkis og skyldurækni við þá sem hafa lent í náttúruhamförum eða vopnuðum átökum. Orðan tekur einnig til framúrskarandi brautryðjendastarfs í heilbrigðisþjónustu og menntun hjúkrunarfræðinga. Í ár fengu 37 hjúkrunarfræðingar frá 22 löndum orðuna.

Á vef Alþjóðlega Rauða krossins segir að Guðbjörg hafi tekið þátt í starfi á átaka- og hamfarasvæðum með áherslu á geðheilbrigði. Hún var hluti af áfallateymi Rauða krossins og sinnt sendifulltrúastörfum í Íran, Írak, Palestínu og Bangladess.

Í störfum sínum sem hjúkrunarfræðingur hefur hún verið ötull málsvari geðfatlaðra í störfum sínum sem hjúkrunarfræðingur. Guðbjörg útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur árið 1978 og hóf störf í geðhjúkrun ári síðar. Hún hefur starfað í Noregi, hjá Heilsugæslunni, í skurðhjúkrun á Borgarspítala og sem teymisstjóri Samfélagsgeðteymis Landspítala. Hún var forstöðumaður Vinjar, athvarfs Rauða krossins fyrir geðfatlaða, og kom að stofnun slíks athvarfs í Belarús.

Hér má hlusta á viðtal dr. Helgu Sif Friðjónsdóttur við Guðbjörgu í Geðvarpinu árið 2021:

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga óskar Guðbjörgu innilega til hamingju með þessa frábæru viðurkenningu og þökkum henni fyrir mikilvægt framlag sitt til geðheilbrigðismála.