Fara á efnissvæði
Frétt

Guðbjörg Sveinsdóttir tók við Florence Nightingale-orðunni

Guðbjörg Sveinsdóttir geðhjúkrunarfræðingur tók við Florence Nightingale-orðunni við hátíðlega athöfn í húsakynnum Rauða krossins á Íslandi í dag.

Guðbjörg Sveinsdóttir geðhjúkrunarfræðingur tók við Florence Nightingale-orðunni við hátíðlega athöfn í húsakynnum Rauða krossins á Íslandi í dag.

Guðbjörg hefur tekið þátt í starfi á átaka- og hamfarasvæðum með áherslu á geðheilbrigði. Hún var hluti af áfallateymi Rauða krossins og hefur hún sinnt sendifulltrúastörfum í Íran, Írak, Palestínu og Indónesíu.

Orðan sem er æðsta heiðursmerki hjúkrunarfræðinga, hefur verið veitt af Alþjóðlega Rauða krossinum frá árinu 1912 og er veitt vegna framúrskarandi hugrekkis og skyldurækni við þá sem hafa lent í náttúruhamförum eða vopnuðum átökum. Guðbjörg var sæmd orðunni 12. maí síðastliðinn á alþjóðlegum degi hjúkrunarfræðinga.

Guðbjörg Sveinsdóttir er fimmti íslenski hjúkrunarfræðingurinn sem hlýtur orðu Florence Nightingale.

Guðbjörg hefur á ferli sínum verið ötull málsvari fólks með geðraskanir og unnið að bættri geðheilbrigðisþjónustu. Auk þess hefur hún leitt stofnun úrræða sem bæta þjónustu fyrir fólk með geðraskanir bæði hér á landi og erlendis. Hún var leiðtogi í Vin, sem er dagsetur fyrir fólk með geðraskanir sem Rauði krossinn á höfuðborgarsvæðinu rak í nær 30 ár, þar til velferðarsvið Reykjavíkurborgar tók við rekstrinum Góður árangur hennar þar leiddi til þess að önnur álíka dagsetur voru stofnuð á þremur öðrum stöðum á Íslandi og í Belarús þar sem Guðbjörg sá um þjálfun starfsfólks úrræðisins.

Eftir að hún hætti störfum fyrir Rauða krossinn gerðist hún svo sjálfboðaliði í áfallateymi Rauða krossins, sem veitir sálrænan stuðning eftir hamfarir, slys og aðra erfiða atburði.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga óskar Guðbjörgu innilega til hamingju.