Fara á efnissvæði
Frétt

Gunnhildur Hafþórsdóttir Blöndal

Gunnhildur Hafþórsdóttir Blöndal býður sig fram í embætti varamanns í stjórn Fíh kjörtímabilið 2024-2026. Stjórnarkjör fer fram á aðalfundi 16. maí.

Ég heiti Gunnhildur Hafþórsdóttir Blöndal. Ég er 35 ára og bý í Reykjavík. Ég bý í Grafarvogi ásamt eiginmanni mínum og þremur börnum á aldrinum 15, 6 og 3 ára.

Ég útskrifaðist úr Háskóla Íslands árið 2017 með BSc í hjúkrun og hef starfað á ýmsum vettvangi. Að auki er ég sjúkraliði og útskrifaðist úr þeirri grein árið 2012.

Ég byrjaði minn feril í heilbrigðisgeiranum í Fjölbraut í Breiðholti þar sem ég ætlaði mér að vera snyrtifræðingur en eftir að hafa horft öfundsverðum augum á samnemendur mína á sjúkraliðabrautinni, í hvítum vinnusloppum með blóðþrýstingmælir í annari hendi fann ég að þetta vildi ég gera!

Ég fann minn tilgang á þessari braut og eftir að hafa útskrifast sem stoltur sjúkraliði vissi ég að ég þyrfti að læra meira. Ég vann með sjúkraliðanáminu á Hrafnistu í Kópavogi, en hóf svo störf á Lungnadeild á LSH þar sem ég átti eftir að vera í 4 ár. Einnig tók ég um 8 mánaða tímabil á Heilsugæslunni í Mosfellsbæ. Ég ákvað að taka slaginn árið 2013 og fór í gegnum klásus í hjúkrun og náði í gegn í fyrstu tilraun. Með náminu vann ég enn á Lungnadeildinni ásamt því að prófa aðra staði. Ég vildi fá sem mesta verklega reynslu og vann ég á tímabili einnig á Hrafnistu í Reykjavík ásamt því að vera á A6 og verandi í 100% námi.

Þegar ég lít til baka undra ég mig á því hvernig mér tókst að vera einstæð móðir með eitt barn að sinna öllu þessu og ná að útskrifast. En að útskrifast úr hjúkrun er og verður örugglega alltaf mitt persónulega og stoltasta afrek. Ég hef einnig unnið á HSN á Blönduósi, á sjúkradeildinni, í um 2 og hálft ár. Núverandi staða mín er sú að ég vinn í 100% starfi á Sjúkrahúsinu Vogi og hef starfað þar sl. 3 ár. Í því starfi hef ég leitað mun meira átt að forystu og stjórnun.

Ég hef gífurlegan áhuga á réttindamálum sem koma að málum launa og vinnu. Ég er trúnaðarmaður eins og er og hef einnig notið mín vel í því starfi. Ég finn að áhugi minn á málum sem viðkoma stéttarfélaginu okkar hefur aukist mikið síðan ég varð trúnaðarmaður. Ég hef mikla trú á Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga. Við erum svo öflug stétt og höfum margt fram á að færa. Mig langar að læra meira af þessu flotta fagfólki sem stýrir félaginu og ég vil meina að ég verði góð viðbót í stjórnina.

Hér með býð ég mig fram sem varamann í stjórn.