Fara á efnissvæði
Frétt

Hagkvæmni

Pistill Guðbjargar Pálsdóttur, formanns Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Kæru hjúkrunarfræðingar.

Það var virkilega gaman að hittast á aðalfundinum í maí en þar gafst meðal annars tími til að staldra við og líta yfir allt það sem gerðist á vettvangi Fíh á síðastliðnu starfsári. Líkt og sumir sáu í fjölmiðlum voru samþykktar tvær ályktanir á aðalfundi, annars vegar um útrýmingu á kynskiptum vinnumarkaði og kerfisbundnu vanmati á störfum þar sem konur eru í meirihluta og hins vegar um umbætur á starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga.

Viðræður þokast hægt áfram

Nú standa yfir kjaraviðræður Fíh við okkar helstu viðsemjendur. Kjarasamningarnir til eins árs runnu út 1. apríl síðastliðinn en viðræðurnar þokast hægt áfram. Á þessum tímapunkti er ekki hægt að segja hversu langan tíma viðræðurnar munu taka.

Viðræðum um betri vinnutíma dagvinnu- og vaktavinnufólks er lokið, við höfum fundað með samninganefndum ríkisins og Reykjavíkurborgar um sérkröfur hjúkrunarfræðinga. Samninganefndirnar halda áfram góðu samstarfi við trúnaðarmannaráð og stjórn félagsins. Trúnaður ríkir um það sem sagt er á samningafundum á meðan á viðræðum stendur en Fíh mun leggja sig fram við að láta ykkur vita hvernig viðræðurnar þróast.

Hátíðis- og baráttudagur kvenna

Miðvikudaginn 19. júní næstkomandi höldum við upp á hátíðis- og baráttudag kvenna á Íslandi. Í ár verða liðin 109 ár frá því fyrstu konurnar fengu kosningarétt hér á landi. Baráttan fyrir jafnrétti kynjanna heldur áfram og Fíh leggur mikla áherslu á að byggja sinn málflutning á gögnum og rannsóknarniðurstöðum m.a. við samningaborðið.

Hagkvæmni er löggjafanum yfirleitt ofarlega í huga og hafa síðustu misseri augu alþjóðlegra stofnana beinst að þeirri hagkvæmni sem skapast með því að fjárfesta í hjúkrun. Núna í lok maí birti Alþjóða efnahagsráðið, WEF, hvítbók þar sem farið er yfir stöðu mála á heimsvísu og þjóðarleiðtogar hvattir til þess að beina sjónum sínum að hjúkrun. Þörf sé á að gera hjúkrun sjálfbæra og lyfta faginu á sinn réttmæta stall sem burðarás hagsældar. Þetta er gott veganesti fyrir okkur í endalausa baráttu fyrir mikilvægi starfa hjúkrunarfræðinga hér á landi.

Nauðsynlegt að koma á friði

Það hefur enginn orðið varhluta af þeim ólýsanlega hryllingi sem hefur átt sér stað á Gaza. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur, líkt og Evrópusamtök hjúkrunarfræðinga, ítrekað fordæmt ofbeldið sem á sér þar stað. Það er bannað samkvæmt alþjóðalögum að beina vopnum sínum að almennum borgurum og heilbrigðisstarfsfólki. Dr. Mads Gilbert, norskur læknir sem starfað hefur á Gaza reglulega síðustu tuttugu ár, hélt nýverið fyrirlestur fyrir heilbrigðisstarfsfólk hér á landi, í boði okkar, Félags sjúkrahúslækna og Læknafélags Íslands þar sem hann fór yfir stöðuna á svæðinu, sem er vægast sagt hræðileg. Fyrirlesturinn má nálgast inni á Mínum síðum, undir Rafræn fræðsla.

Helsinki á næsta ári

Á næsta ári verður ráðstefna Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga (ICN) haldin í Helsinki í Finnlandi og er það töluvert nær Íslandi en síðustu ráðstefnur. Þetta er því kjörið tækifæri fyrir hjúkrunarfræðinga á Íslandi að mæta til leiks, kynnast hjúkrunarfræðingum frá öllum heimshornum, víkka tengslanet sitt og læra af hvor öðrum. Hjúkrunarfræðingar á Íslandi standa sig vel innan alþjóðlegs fræðasamfélags í hjúkrun og vil ég því hvetja sem flesta hjúkrunarfræðinga til að senda inn ágrip fyrir ráðstefnuna en það opnar fyrir þau í byrjun ágúst. Ég tel okkur hafa mikið fram að færa í alþjóðlegt samfélag hjúkrunarfræðinga og mikilvægt fyrir aðra hjúkrunarfræðinga að kynnast því mikla og góða rannsóknarstarfi sem hér á sér stað. Þátttaka í svona ráðstefnu gerir ekkert annað en að valdefla okkur í starfi og hvetja okkur til dáða.

Að lokum hvet ég alla hjúkrunarfræðinga sem eiga tök á að taka sér samfellt sumarfrí og njóta þess með sínum nánustu.